spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar lönduðu langþráðum sigri

Grindvíkingar lönduðu langþráðum sigri

Grindvíkingar lönduðu langþráðum sigri gegn Stjörnunni í kvöld í Grindavík. Lokatölur urðu 99-88 í hörkuleik sem minnti á úrslitakeppnina, enda eru bæði lið í hörkubaráttu um laust sæti í úrslitakeppninni.

Grindvíkingar fóru betur af stað en Stjarnan virtist hálf vönkuð í byrjun. Arnari Guðjónssyni þjálfara Stjörnunnar var þó nóg boðið og tók leikhlé, sem var af dýrari gerðinni fra a til ö. Stjörnumenn hresstust mikið eftir leikhléið, og breyttu stöðunni úr 8-17 í 17-20. 

Baráttan var mikil og jafnræði var einnig með liðunum þótt Grindvíkingar væru oftast hálfu skrefi á undan, en varla meira en það.

Í síðari hálfleik mættu heimamenn til leiks eins eins og glorsoltnir úlfar og tóku völdin; vörðu mikið af skotum, börðumst um lausa bolta og fóru bara í stuð í sókninni og hreinlega kveiktu í kofanum á tímabili með þvílíkt mörgum flottum tilþrifum.

Stjörnumenn eru nú ekki þekktir fyrir að gefast upp, og þeir héldu áfram að berjast og reyna fram á lokasekúndurnar. En það var bara ekki nóg að þessu sinni – Grindvíkingar voru einfaldlega betri þegar á heildina er litið, en samt plús fyrir Stjörnuna að hafa ekki hengt haus eftir frábæra kafla Grindvíkinga í þriðja leikhluta.

Grindvíkingar litu afar vel út í þessum leik; baráttan var mikil og vörnin var þétt. Menn voru að spila fyrir hvern annan og uppskáru eftir því. Gkay Gaios Skordilis átti frábæran leik hjá Grindvík – með svakalega góða stroku, og afar erfitt að koma í veg fyrir að hann nái skoti, og ef hann hittir og spilar eins vel út tímabilið fyrir Grindavík líkt og hann gerði í kvöld þá geta góðir hlutir gerst. Ólafur Ólafsson var góður – mikill kraftur í honum, en villuvandræði gerðu honum erfitt fyrir í fyrri hálfleik. Í þeim síðari sýndi hann hversu mikilvægur hann er liðinu. Damien Pitts er frábær leikstjórnandi og getur skorað líka. Zoran Vrkic er allur að komast í takt við leik Grindvíkinga og skoraði mikilvægar körfur. Þá kom Bragði Guðmundsson afar sterkur inn í síðari hálfleik og glæsilegir taktar hans gleðja alla er á horfa, og þá er hann ófeiminn við að sýna tilfinningar og hrífur fólk með sér – efni í alvöru stórstjörnu. Hilmir Kristjánsson átti flottar innkomur og í raun yfir fáu að kvarta í leik Grindvíkinga.

Stjörnumenn söknuðu Dags Kárs Jónssonar sem liggur heima með frekar slæma strepptókokkasýkingu og vonandi verður hann kominn á stjá innan skamms. Liðið náði aldrei góðu flæði í leik sinn nema í stuttan tíma í senn. Það vantaði þó ekki mikið til að þeir næðu að gera leikinn spennandi, en brotakenndur sóknarleikur og á löngum körflum stirður varnarleikur gerði liðinu erfitt fyrir að þessu sinni. Júlíus Orri og Niels Gutenius voru atkvæðamestir hjá Stjörnunni. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Jón Þorkell)

Fréttir
- Auglýsing -