Grindavík hafði betur gegn KR í Smáranum í kvöld í lokaumferð Bónus deildar karla.
Grindvíkingar voru þegar öruggir í úrslitakeppni deildarinnar, en KR hefði þurft að vinna eða treysta á að Keflavík tapaði í Þorlákshöfn til þess að eiga möguleika á að vera með.
Lengst af leiddi KR í leik kvöldsins, en Grindvíkingar voru aldrei langt undan. Það var svo í fjórða fjórðung leiksins að Grindavík náði forystunni sem þeir héldu nánast út leikinn. KR var þó ekki langt undan og hefðu með smá lukku náð að vinna leik kvöldsins. Allt kom þó fyrir ekki og eftir að hafa verið nokkuð öruggir á vítalínunni á síðustu andartökunum vann Grindavík, 86-83.
Atkvæðamestur fyrir Grindavík í leiknum var Jeremy Pargo með 25 stig, 4 fráköst og 6 stoðsendingar. Honum næstur var Daniel Mortensen með 18 stig og 12 fráköst.
Fyrir KR var Nimrod Hilliard atkvæðamestur með 27 stig og 7 stoðsendingar. Þá bætti Þórir Guðmundur Þorbjarnarson við 12 stigum, 9 fráköstum og 5 stoðsendingum.
Lokastaða liðanna er því Grindavík í 5. sætinu og KR endar í 9. sætinu.
Viðtöl upphaflega birt á vef Víkurfrétta



