Þór frá Þorlákshöfn og Grindavík mættust í kvöld í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos deildar karla. Staðan í einvíginu var 2-1 fyrir leikinn í kvöld, Grindvíkingum í vil og því ljóst að ekkert annað en sigur myndi duga fyrir Þórsara í kvöld, annars væru þeir komnir í sumarfrí. Þórsarar náðu ekki að innbyrða sigurinn sem þeir þurftu á að halda í kvöld og Grindavík vann sanngjarnan 14 stiga sigur, 75-89.
Þórsarar sigruðu fyrri leik liðanna hér í Þorlákshöfn þar sem munurinn á liðunum lá að miklu leyti í framlaginu sem Þórsarar fengu af varamannabekknum. Þá átti Emil Karel Einarsson glæsilegan leik og Þórsarar gerðu sér eflaust vonir um að framlag hans yrði með svipuðum hætti í kvöld.
Í fyrsta leikhluta var jafnt á öllum tölum. Sigurður Þorsteinsson byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti og skoraði fyrstu 8 stig Grindvíkinga. Annars var hittni beggja liða vægast sagt ekkert til að hrópa húrra fyrir og staðan að leikhlutanum loknum var 15-17 fyrir Grindavík.
Í öðrum leikhluta hélt múrsteinakast beggja liða áfram, en Grindvíkingar áttu þó ágætan sprett undir lok leikhlutans og náðu sex stiga forystu, 33-39, þegar Jóhann Árni setti niður körfu rétt áður en flautan gall.
Þriggja stiga nýting liðanna í fyrri hálfleik var vægast sagt slæm, Þórsarar settu einn af þrettán þristum niður og Grindvíkingar skoruðu ekki eina þriggja stiga körfu úr níu tilraunum.
Þriðji leikhluti spilaðist svipað og sá annar. Grindvíkingar voru feti framar og svöruðu Þórsurum alltaf þegar þeir reyndu að saxa á forskot þeirra. Sigurður hélt áfram að draga vagninn í stigaskorun Grindvíkinga og virtist hreinlega vera í gríðarlegu stuði í kvöld. Í lok leikhlutans var forysta Grindvíkinga orðin 9 stig, 52-61.
Í fjórða leikhluta héldu Grindvíkingar uppteknum hætti og hleyptu Þórsurum ekki inn í leikinn. Þórsarar eygðu von þegar Baldur Þór Ragnarsson setti risastóran þrist og minnkaði muninn í fjögur stig, 59-63. Daníel Guðni Guðmundsson slökkti þó í Þórsurum örfáum sekúndum síðar með fyrsta þrist Grindvíkinga í leiknum. Eftir þetta hrökk allt í baklás í sóknarleik Þórsara. Þeir hentu boltanum frá sér trekk í trekk á meðan Grindvíkingar skoruðu auðveldar körfur.
Þegar fimm mínútur lifðu leiks var ljóst í hvað stefndi. Forysta Grindvíkinga hélt bara áfram að aukast og að lokum lönduðu þeir afar sanngjörnum sigri, 75-89. Yngri leikmenn liðanna fengu að spreyta sig undir lok leiks og Vilhjálmur Atli Björnsson leikmaður Þórs heillaði áhorfendur með flugulegum hreyfingum í teignum.
Sigurður Þorsteinsson átti afbragðsleik fyrir Grindvíkinga í kvöld. Hann daðraði við tvennuna, skoraði 24 stig og tók 9 fráköst. Lewis Clinch Jr. skoraði 18 stig, Ólafur 14 og Jóhann Árni 13. Raggi Nat framkallaði enn eina tvennuna hér í sinni fyrstu úrslitakeppni, en hann skoraði 12 stig og tók 16 fráköst fyrir Þórsara. Mike Cook var stigahæstur Þórsara með 25 stig, Sovic skoraði 15, Tómas 12 og Baldur 10.
Umfjöllun/ Arnar Þór Ingólfsson
Mynd/ Davíð Þór – Sigurður Gunnar Þorsteinsson fór fyrir Grindvíkingum í kvöld.



