spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaGrindvíkingar jafna með öruggum sigri

Grindvíkingar jafna með öruggum sigri

Grindvíkingar tóku í kvöld á móti Stjörnunni í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Domino’s deildar karla. Fyrsta leiknum lauk með öruggum sigri Stjörnumanna, en í kjölfar leiksins var Hlynur Elías Bæringsson fyrirliði Garðbæinga dæmdur í eins leiks bann eftir viðskipti sín við Dag Kár Jónsson.

Grindvíkingar mættu vel gíraðir til leiks og virtust gestirnir dálítið slegnir út af laginu yfir ákefð heimamanna. Grindvíkingar náðu fljótlega tíu stiga forystu um miðjan fyrsta leikhluta, 24-14. Þá leist Arnari Guðjónssyni, þjálfara Garðbæinga ekki á blikuna og eftir leikhlé frá gestunum löguðu þeir stöðuna í 29-24 fyrir annan fjórðung. Grindvíkingar héldu ákefðinni áfram í öðrum fjórðungi og virtust gestirnir aldrei ná neinum takti sín á milli. Staðan í hálfleik var 48-40 heimamönnum í vil.

Stjörnumenn urðu fyrir miklu áfalli í upphafi síðari hálfleiks þegar Mirza Sarajlija þurfti að yfirgefa leikinn. Mirza og Kazembe Abif rákust þá hvor á annan með þeim afleiðingum að Mirza fékk slink á hnéð. Afar óheppilegt atvik, en Mirza kom ekki meira við sögu í leiknum og miðað við það atvik sem olli meiðslunum gæti hann verið lengi frá.

Eftir meiðsli Mirza virtust Stjörnumenn ætla að halda sér á floti í leiknum og með góðum körfum frá Ægi Þór Steinarssyni og fleirum minnkuðu gestirnir muninn í þrjú stig, 63-60, þegar tæpar þrjár mínútur lifðu af þriðja fjórðung. Eftir það tóku gulir hins vegar öll völd á vellinum. Joonas Jarvelainen snögghitnaði fyrir utan þriggja stiga línuna og höfðu heimamenn tíu stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 70-60. Það forskot létu þeir aldrei af hendi, og bættu frekar í. Þegar mest lét náðu heimamenn 21 stigs forystu, en Garðbæingar leiddu ekki á einum einasta tímapunkti í leiknum. Eftir um fimm mínútur af ruslatíma fóru heimamenn loks með 12 stiga sigur af hólmi, 101-89, og hafa því jafnað einvígi liðanna.

Bestur

Erfitt er að útnefna einn Grindvíking bestan, margir lögðu sitt á vogarskálarnar. Ólafur Ólafsson og Björgvin Hafþór Ríkharðsson voru öflugir framan af, en í seinni hálfleik hitnaði Joonas Jarvelainen verulega. Jarvelainen lauk leik stigahæstur Grindvíkinga með 23 stig. Hjá Stjörnunni var Ægir Þór Steinarsson langbestur með 33 stig.

Næst

Næst eigast liðin við í þriðja leik einvígisins í Mathús Garðabæjarhöllinni, laugardaginn 22. maí klukkan 15:00.

Fréttir
- Auglýsing -