spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar í úrslitakeppnisgír!

Grindvíkingar í úrslitakeppnisgír!

Úrslitakeppnin blessunin rúllaði af stað í gærkvöldi með tveimur leikjum. Körfuboltaguðinn ákvað að fara mjúkum höndum um óstöðuga svona til að byrja með, nokkuð öruggir heimasigrar niðurstaðan í báðum tilvikum og engin þörf á sprengitöflunum.

Leikur kvöldsins í Smáranum gæti hins vegar boðið upp á alls konar ævintýri og ómögulegt að segja hvað gerist. Grindvíkingar höfnuðu í öðru sæti deildarinnar og voru verðlaunaðir með Íslandsmeisturum Tindastóls sem andstæðingum í 8 liða úrslitum. Á liðið úr 7. sætinu einhvern séns í kvöld, Kúla góð?

Kúlan: ,,Stólarnir hafa verið að bíða eftir þessum degi í næstum heilt ár! Íslandsmeistararnir hefja þátttöku í mótinu í kvöld, rústa þessum leik 95-115“.

Byrjunarlið

Grindavík: Basile, Breki, Óli, Mortensen, Kane

Tindastóll: Arnar, Woods, Tóti, Lawson, Drungilas

Gangur leiksins

Það var alvöru stemmning í húsinu í kvöld, báðar stúkurnar fullar og stuðningsmenn beggja liða ófeimnir við að syngja og tralla. Mortensen kunni vel að meta þetta og opnaði leikinn með erfiðum þristi og bætti öðrum við örstuttu síðar. Íslandsmeistararnir svöruðu fyrir sig og komu sér yfir 6-7 og Norðanmenn trylltust í stúkunni. Eftir á að hyggja hefðu þeir kannski átt að fagna enn betur í þessar sekúndur sem þeir voru yfir því það gerðist ekkert aftur í leiknum! Grindvíkingar komu sér strax aftur yfir og héldu gestunum í 2-4 körfu fjarlægð. Staðan var 29-25 eftir fyrsta fjórðung og má segja að skotsýning frá Calloway hafi haldið Stólunum inn í leiknum.

Liðin buðu upp á sóknarsýningu í öðrum leikhluta. Valur Orri kom einbeittur inn af bekknum fyrir Grindjána og setti fáránleg skot niður en Calloway var enn iðinn við kolann hinum megin. Um miðjan leikhlutann fékk Kane mjög einfalda körfu góða eftir einhvers konar rugling í vörn Íslandsmeistaranna, kom sínum mönnum í 45-36 og Svavar Atli tók leikhlé, sennilega til að biðja sína menn um að vera með meðvitund á varnarhelmingi. Það hafði ekkert að segja, heimamenn reistu strax 10 stiga múrinn í kjölfarið og bættu 5 stigum ofan á hann fyrir leikhlé. Staðan var 56-41 í hléi, frekar dökkt yfir þessu hjá Íslandsmeisturunum en 15 stiga forskot hefur maður séð hverfa á örfáum mínútum oft og mörgum sinnum. Basile var stórkostlegur í fyrri hálfleik, kominn með 17 stig og Kane og Valur sömuleiðis með 13 stig hvor.

Seinni hálfleikur fór illa af stað fyrir alla nema stuðningsmenn Grindvíkinga. Heimamenn settu fyrstu 5 stigin, 3 þeirra frá meistara Óla Óla, staðan 61-41 og múrinn orðinn að kastala. Þeir bjartsýnustu þorðu kannski enn að láta sig dreyma um áhlaup frá gestunum en um miðjan leikhlutann var staðan orðin 71-44, De Assisse að trylla lýðinn með alls kyns troðslum og úrslit ráðin. 86-63 var staðan fyrir lokafjórðunginn.

Vonleysislegir tilburðir Íslandsmeistaranna voru átakanlegir í fjórða leikhluta. Lawson hafði fram að þessu spilað alveg hörmulega illa en bjargaði eilítið andlitinu með nokkrum þristum í lokaleikhlutanum og eftir einn slíkan komust Tindastólsmenn næst heimamönnum í stöðunni 96-76. Þá voru hins vegar aðeins 4 mínútur eftir svo enginn kviknaði vonarneistinn. Jafnvel Grindvíkingar voru farnir að bíða eftir leikslokum síðustu mínúturnar – lokatölur 111-88 í mjög öruggum og glæsilegum sigri Grindavíkur.

Menn leiksins

Grindavíkurliðið átti allt skínandi leik í kvöld. Basile var stigahæstur með 27 stig og gaf 8 stoðsendingar en allir helstu hestar liðsins skiluðu sínu. Framlagið af bekknum var bara alltílæ, Valur setti 13 stig, tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar og De Assisse henti niður 17 stigum!

Svona af tölfræðinni að dæma áttu Stólarnir ekkert hræðilegan dag sóknarlega. Framlagið af bekknum var ekkert síðra hjá Stólunum, Calloway var svo mikið sem stigahæstur með 18 stig og Geks þar á eftir með 16. 

Kjarninn

Það voru þeir bræður Jóhann og Ólafur Ólafssynir sem brutu ísinn um daginn og sögðu að Grindvíkingar gætu vel orðið Íslandsmeistarar í ár. Kannski má segja að fram að því hafði enginn í körfuboltafjölskyldunni það hjartalag að fara mögulega ,,að jinxa“ Grindavíkurliðið (svona í ljósi aðstæðna) með því að spá þeim titlinum. En ísinn er brotinn, ógeðslega töff hjá bræðrunum að lýsa þessi einfaldlega yfir og nú er öllum frjálst að taka undir með þeim. Liðið er magnað, allir helstu leikmenn liðsins að skila sínu…svo er Kane jú í liðinu! Undirritaður vill benda á eitt atriði, sem ekki endilega er svo áberandi en mikilvægt þó, en það er varnarleikur Ólafs Ólafssonar. Hann var stórkostlegur varnarlega í kvöld, tók m.a. Callum Lawson og gersamlega slátraði honum.

Það er í raun alltaf sama sagan hjá Íslandsmeisturum Tindastóls þetta tímabilið. Hæfileikarnir eru miklir, liðið tekur reglulega á flotta spretti sóknarlega, en svo koðnar liðið niður ansi hratt og virðist ekki þola mikið mótlæti. Samkvæmt óskeikulli körfuboltagreiningu undirritaðs er það þó aðallega varnarleikur liðsins heildina á litið sem er vandamálið. Vantar hungrið í varnarleik liðsins? Eru menn enn saddir síðan síðasta vor? Við fáum kannski einhver svör við því fyrir norðan á sunnudagskvöldið.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Myndir / Bára Dröfn

Viðtöl / Sæbjörn Steinke

Fréttir
- Auglýsing -