Allir leikir á þessum tímapunkti í deildinni eru mikilvægir. Sá sem leikinn var í Röstinni í Grindavík í kvöld var engin undantekning. Grindvíkingar vilja mjaka sér upp töfluna fyrir úrslitakeppnina eftir slæma byrjun í vetur. ÍR-ingar aftur á móti í harðri baráttu við Fjölni og Skallagrím um áframhaldandi dvalarleyfi í úrvalsdeild.
Það var hins vegar eins og annað þessarra liða hafi ekki áttað sig á því þegar leikurinn hófst.
Leikmenn ÍR voru algerlega týndir frá upphafi og ekki bætti úr skák að sjá Matthías Orra lenda illa á Ómari Erni eftir skot snemma í leiknum. Matthías snéri ökklann frekar illa og kom ekkert meira við sögu í leiknum.
Grindvíkingar mættu grjótharðir til leiks. Spiluðu góða vörn og agaðan sóknarleik. Heimamenn gáfu máttlausum gestunum engan grið þrátt fyrir að ná yfirhöndinni snemma í leiknum.
ÍR-ingar nýttu sér vandræðagang og sóknarþurrk Grindvíkinga til að minnka muninn úr 11 stigum í 2 þegar 3 mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta. Lengra náði það ekki.
Grindavík setti í fluggírinn en ÍR-ingar lágu í svaðinu. Sóknarnýting ÍR féll niður í 18% og þeir skoruðu svo mikið sem 0,39 stig per sókn. Það var aðeins í sprettinum þeirra í öðrum hluta sem skilvirkni þeirra var á pari við lið í efstu deild.
Yfirburðir Grindavíkur í teignum voru augljósir – skoruðu 44 stig á móti 22 frá ÍR, en ÍR-ingar voru 2/12 í teignum í fyrsta hluta.
Leikurinn var aldrei í hættu fyrir heimamenn en þeir innsigluðu öruggan 99-66 stiga sigur sem mun heldur betur telja, nú þegar nær dregur úrslitakeppni.
“Flottur liðssigur þar sem allir voru að koma inn af krafti og stigaskorið dreifðist vel hjá okkur,” sagði Sverrir Þór, þjálfari Grindavíkur eftir leikinn. “Stutt eftir af deildinni og því eru þetta 2 dýrmæt stig sem við náðum í með þessum sigri.
ÍR tókst ekki að fylgja eftir góðum sigri á Keflavík fyrr í vikunni en baráttan í þriggja liða deildinni á botninum fer harðnandi. “Þetta var leikur í fyrri hálfleik,” sagði Sveinbjörn Claessen að leik loknum. “Þeir náðu 10 stiga forskoti í fyrsta leikhluta, við jöfnuðum en þeir alltaf einu skrefi á undan. Stungu okkur af í byrjun þriðja og við brotnuðum.”
Það fór um margan ÍR-inginn þegar Sveinbjörn féll í gólfið eftir samstuð snemma í seinni hálfleik og hélt um hnéið á sér. Hann fór út af og kom ekki aftur inn á fyrr en í lok þriðja hluta. “Fékk smá högg sem kallaði á aðhlynningu,” sagði hann um alvarleika meiðslanna. “Leikurinn farinn þegar ég var klár aftur og Baddi hélt mér á bekknum.”
Mynd: Jón Axel Guðmundsson spilaði fantagóða vörn í leiknum og stað 6 boltum. (JBÓ)



