spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar gefa tóninn

Grindvíkingar gefa tóninn

Það voru einbeittir og hjartastórir Þórsar sem mættu í Röstina í Kvöld. Hituðu upp undir tónlist Jónasar Sig sem einmitt og óvænt er frá Þorlákshöfn. Ekki var það þó yfirnáttúruleg kurteisi heimamanna sem stjórnaði því heldur var í leiðinni verið að auaglýsa stórtónleika í Röstinni nú á laugardagskvöldið en þá mun einmitt Jónas Sig ásamt 80 manna stórbandi halda svokallaða STÓRtónleika í tilefni af menningarviku Grindvíkinga. En nóg um tónlist og menningu og að leiknum sjálfum. Þórsarar mættu eins og áður segir einbeittir og grimmir. Voru áræðnir og greinilega komnir til þess að gefa sig alla í verkefnið. Spiluðu hörku vörn og var engu líkara en að Íslandsmeisturunum væri brugðið. Þórsarar leiddu eftir fyrsta leikhluta 25 – 22. Í öðrum leikhluta virtust Grindvíkingar búnir að átta sig á að úrslitakeppnin væri byrjuð og hertu tökin. Náðu upp ágætis forskoti en Þórsarar þó aldrei langt undan og á síðustu tveim mínútum fyrri hálfleiks náðu þeir forystu heimamanna niður í 1 stig og hálfleikstölur 44 – 43
 
 
Ekki þannig að það komi einhverjum á óvart en þá byrjaði seinni hálfleikurinn um leið og hálfleikurinn sjálfur var búinn og stuðið hélt áfram. Meistarar síðustu tveggja ári settust í bílstjórasætið og leiddu stuðið áfram en Þórsarar aldrei langt undan, komust yfir og skiptust liðin á forustunni fram í fjórða leikhluta en þar kom að því að Grindvíkingar sögðu “hingað og ekki lengra” hertu vörnina og náðu mikilvægum stoppum sín megin og fylgdu því eftir með góðum körfum hinumegin. Lokatölur 92 – 82.
 
Þórsarar þurfa að gera betur og þeir vita það best sjálfir. Breidd þeirra er ekki nógu mikil miðað við þennan leik og lykilmenn virkuðu þreyttir þegar leið að lokum, þeir þurfa meira frá bekknum.
 
Grindvíkingar telja sig eflaust eiga töluvert inni líka en heildarbragurinn virðist góður, þó vakti athygli að Lewis virkaði eitthvað óöruggur í byrjun en það hafði ekki teljandi áhrif. Innkoma fyrirliðans Lalla hlýtur að gleðja þá gulu en hann kom verulega sterkur inn í kvöld.
 
Að endingu er það bara kristaltært og óumflýjanleg staðreynd að úrslitakeppnin er byrjuð og því geta allir glaðst og verið mannsgaman dag sem nótt.
 
 
Umfjöllun/ JGD
 
Mynd/ BG  
Fréttir
- Auglýsing -