Íslandsmeistarar Grindavíkur tylltu sér einir á topp Domino´s deildar karla í kvöld eftir 89-87 spennusigur gegn Þór Þorlákshöfn en þessi lið léku einmitt til úrslita um titilinn í fyrra. Samuel Zeglinski gerði sigurstig Grindavíkur í leiknum en gulir voru án Ryan Pettinella og Þórsarar að sama skapi án Grétars Inga sem einnig er meiddur.
Byrjunarlið Grindavíkur: Jóhann Árni Ólafsson, Aaron Broussard, Samuel Zeglinski, Þorleifur Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson
Byrjunarlið Þór Þ. Benjamin Curtis Smith, Guðmundur Jónsson, Darrel Flake, Darri Hilmarsson og David Bernard Jackson.
Hörku spenna var í leik Grindavíkur og Þór Þorlákshafnar og voru liðin jöfn allan leikinn.
Fyrsti leikhluti fór hægt af stað og var staðan 6:6 eftir fyrstu fimm mínúturnar. Stigin urðu þó fleiri eftir því sem leið á leikhlutann og endaði hann 19:15 Grindavík í vil. Í öðrum leikhluta komust Þór Þ. yfir og leiddu leikhlutann allan tímann, þeir komust mest 9 stigum yfir. Grindvíkingum tókst þó að jafna og var staðan 40:40 í hálfleik. Fyrri hálfleikur var þó ekki eins og við mátti búast frá þessum liðum. Skotin virtust ekki vera að detta og báráttan var lítil sem engin. Leikurinn því mjög óspennandi þó staðan hafi verið jöfn.
Allt annar gír var í leiknum eftir hálfleik. Barátta liðanna var meiri og villurnar urðu þar af leiðandi fleiri. Darrell Flake fékk sína fjórðu villu þegar sjö mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Aaron Broussard kom sterkur inn og var með 20 stig í leikhlutanum. Leikurinn hélst þó jafn og endaði hann í tölunum 70:66 Grindavík í vil.
Í fjórða leikhluta vöknuðu áhorfendur til lífsins og mikil spenna átti sér stað. Leikurinn var jafn og skiptust liðin á að vera yfir seinustu 2 mínúturnar. Þegar 30 sekúndur voru eftir komust Grindvíkingar einu stigi yfir 87:86. Grindvíkingar brutu þá á Benjamin Curtis Smith og hann fór á vítalínuna. Hann hitti úr því fyrra en klikkaði seinna og staðan var því orðin 87:87. Fimm sekúndur voru eftir og náði Ómar Örn Sævarsson frákastinu og kom boltanum á Samuel Zeglinski sem brunaði upp völlinn og lagði niður lay-up. Leikurinn endaði því í 89:87 Grindavík í vil
Grindvíkingar spiluðu án Ryan Pettinella en var hann í sprautu á hné en verður tilbúinn til leiks fyrir næsta leik liðsins. Aaron Broussard átti stórleik fyrir Grindvíkinga en hann var með 35 stig og 10 fráköst. Samuel Zeglinski var með 19 stig og 6 stoðsendingar og Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 16 stig og 10 fráköst en hann fékk sína fimmtu villu í leiknum þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum.
Á tímabili í leiknum virtist sem Benjamin Curtis Smith ætlaði sér að vinna leikinn fyrir Þór Þ. en virtist það ekki vera að ganga upp. Hann var með 26 stig og 10 fráköst. David Bernard Jackson var með 23 stig og 10 fráköst.
Mynd/ Þorsteinn G. Kristjánsson
Umfjöllun/ Jenný Ósk