spot_img
HomeFréttirGrindvíkinar héldu haus og kláruðu leikinn í fjórða

Grindvíkinar héldu haus og kláruðu leikinn í fjórða

 Það var Grindavík sem hafði betur í fyrsta leik Grindavíkur og Stjörnunnar í undanúrslitum Iceland Express deildinnar suður með sjó í kvöld.  Grindvíkingar leiddu allan leikinn og tóku nokkrum sinnum á rás en Stjarnan var aldrei langt undan og hefðu ekki þurft mikið í viðbót til að stela sigrinum.  Það var J’Nathan Bullock sem fór fyrir heimamönnum með 24 stig og 9 fráköst en næstu menn voru Þorleifur Ólafsson með 16 stig og 7 fráköst og Giordan Watson með 10 stig og 7 stoðsendingar.  Í liði Stjörnunnar var Keith Cothran stigahæstur með 22 stig og 6 fráköst en næstu menn voru Renato Lindmets með 14 stig og 6 stoðsendingar og Justin Shouse með 11 stig og 8 stoðsendingar.
Liðin voru bæði nokkuð varkár á fyrstu mínútum leiksins og skotin voru ekki að detta.  Það voru hins vegar heimamenn í Grindavík sem tóku fyrst af skarið og náðu sér í þægilegt 9-3 forskot.  Grindvíkingar voru að spila fanta vörn og fengu gestirnir ekkert nema þvinguð og erfið skot.  Stjarnan fann þó leiðir framhjá varnarleik Grindavíkur þegar leið á leikhlutan og höfðu náð muninum niður aftur í 4 stig í stöðunni 15-11.  Það opnaðist svo fyrir flóðgáttirnar þegar leið á leikhlutan og Grindavík keyrði upp hraðan.  Þegar fyrsta leikhluta var lokið höfðu þeir sjö stiga forskot, 25-18.  

Liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta og var munurinn á liðunum oftar en ekki 7 stig.  Varnarleikur beggja liða var að virka nokkuð vel og á tímabili skoraði hvorugt liðið í rétt tæplega 2 mínútur.  Það var svo Stjarnan sem átti betri kafla undir lok fyrri hálfleiks og náðu muninum aftur niður í 3 stig rétt áður en flautað var til hálfleiks.  Þegar leikurinn var hálfnaður stóðu því tölur 38-35.  

Stigahæstur í liði Grindavíkur í hálfleik var J’Nathan Bullock með 13 stig og 4 fráköst en næstu menn eru Páll Axel Vilbergsson og Sigurður Þorsteinsson með 5 stig hvor. Í liði Stjörnunnar var það Justin Shouse sem var stigahæstur með 9 stig og 4 stoðsendingar en Keith Cothran var einnig með 9 stig og Renato Lindmets  næstur með 8 stig.

 

Grindvíkingar náðu forskotinu aftur upp í 7 stig fljótlega í byrjun þriðja leikhluta en sem fyrr komu gestirnir alltaf til baka.  Þegar á reyndi stigu menn upp og settu stórar körfur.  Fannar Helgason setti stóran þrist og Keith Cotran fylgdi því eftir stuttu seinna með three point play sem minnkaði muninn í þrjú stig, 51-48.  Forskot heimamanna hvarf þó aldrei alveg og þeir voru fljótir að ná því aftur upp. Liðið spilaði á köflum varnarleik af bestu sort sem vakti oftar en ekki mikla lukku hjá stuðningsmönnum liðsins.  Þegar þriðja leikhluta lauk höfðu heimamenn 6 stiga forskot, 62-56.  

Það munaði ekki miklu að Grindavík gengi á lagið og hreinlega kláraði leikinn fljótlega í fjórða leikhluta, þeir skoruðu fyrstu fjögur stigin í leikhlutanum og voru komnir með 11 stiga forskot stuttu seinna í stöðunni 72-59.  Stemmingin var svakaleg hjá stuðningsmönnum Grindavíkur en allt kom fyrir ekki, Stjarnan gafst ekki upp og skoraði næstu ellefu stig gegn 2 stigum hjá Grindavík og allt í einu er leikurinn hnífjafn aftur, 74-70.  Þrátt fyrir góðar tilraunir gestana tókst þeim þó ekki að komast nær en svo og Grindavík sylgdi sigrinum heim á lokamínútunum, 83-74.  

Næsti leikur liðanna fer fram í Ásgarði í Garðabænum á föstudagskvöldið næstkomandi kl 19:15, leikur sem þú ættir ekki að láta framhjá þér fara.

[email protected]

Mynd : [email protected]
 

 

Fréttir
- Auglýsing -