Stjarnan lagði Grindavík í lokaleik 9. umferðar Bónus deildar karla í kvöld, 118-67.
Ósigurinn var sá fyrsti hjá liði Grindavíkur á tímabilinu, en þeir eru þrátt fyrir hann í efsta sæti deildarinnar með 16 stig. Stjarnan er öllu neðar í töflunni, í 9. sætinu með 6 stig.
Leikur kvöldsins var nokkuð jafn og spennandi á upphafsmínútunum og var það Grindavík sem leiddi eftir fyrsta fjórðung, 24-27. Í öðrum leikhlutanum virðast leikar svo áfram ætla vera jafnir, en með góðu áhlaupi undir lok hálfleiksins ná heimamenn að fara með 10 stiga forskot til búningsherbergja í hálfleik, 57-47.
Stjarnan heldur svo áfram þar sem frá var horfið í upphafi seinni hálfleiksins. Ná jafnt og þétt að bæta við forystu sína í þriðja fjórðungnum og eru nánast búnir að klára leikinn fyrir lokaleikhlutann þar sem þeir leiða með 26 stigum.
Í þeim fjórða er óhætt að segja að Stjarnan hafi látið kné fylgja kviði, eða að Grindavík hafi hreinlega gefist upp, eða bæði. Allavegana, Grindvíkingum haldið í 5 stigum í þeim fjórða á meðan heimamenn setja 30 og vinna leikinn að lokum með 51 stigi, 118-67.
Stigahæstur fyrir Stjörnuna í kvöld var Ægir Þór Steinarsson með 25 stig, en honum næstur var Seth LeDay með 21 stig.
Fyrir Grindavík voru stigahæstir Daniel Mortensen og Jordan Semple með 14 stig hvor.
Stjarnan: Ægir Þór Steinarsson 25/8 stoðsendingar, Seth Christian LeDay 21/10 fráköst, Orri Gunnarsson 20/6 fráköst/5 stoðsendingar, Giannis Agravanis 17/5 fráköst, Luka Gasic 13/11 fráköst, Bjarni Guðmann Jónson 6/7 fráköst, Atli Hrafn Hjartarson 6, Jakob Kári Leifsson 4/4 fráköst, Pablo Cesar Bertone 3/4 fráköst, Aron Kristian Jónasson 3, Daníel Geir Snorrason 0, Kormákur Nói Jack 0.
Grindavík: Daniel Mortensen 14, Jordan Semple 14/5 fráköst/3 varin skot, Ólafur Ólafsson 13, Khalil Shabazz 9/4 fráköst, Deandre Donte Kane 8/6 fráköst, Arnór Tristan Helgason 4/4 fráköst/3 varin skot, Ragnar Örn Bragason 3, Isaiah Coddon 2, Unnsteinn Rúnar Kárason 0, Nökkvi Már Nökkvason 0, Kristófer Breki Gylfason 0.



