spot_img
HomeFréttirGrindavíkurvörnin Þórsurum um megn - Fer sá stóri á loft á sunnudag?

Grindavíkurvörnin Þórsurum um megn – Fer sá stóri á loft á sunnudag?

Gulir Grindvíkingar mættu svellkaldir í Icelandic Glacial Höllina í kvöld og skelltu heimamönnum í Þór 64-79 og tóku þar með 2-0 forystu í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Með sigri á sunnudag verða deildarmeistarar Grindavíkur Íslandsmeistarar. Varnarleikur gestanna í kvöld var hreint afbragð og heimamenn í Þór komust ekki upp í 20 stig í einum einasta leikhluta. J´Nathan Bullock heldur áfram að hrella andstæðinga sína en þessi krafthúsakappi gerði 27 stig og tók 9 fráköst fyrir Grindvík í kvöld. Hjá heimamönnum í Þór voru þeir Darrin Govens og Blagoj Janev báðir með 15 stig.
Fyrsta karfa heimamanna í Þór þenann leikinn var þriggja stiga og hefði það ekki átt að koma neinum á óvart. Grindvíkingar voru þó ferskari í upphafi leiks og komust í 5-10 en Þórsarar minnkuðu muninn í 10-12 en þá settu bæði lið í lás í vörninni. Rúmar fimm mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta þegar staðan var 10-12 en næstu körfu gerði Darri Hilmarsson úr þriggja stiga skoti þremur mínútum síðar! Vörnin var sem sagt allsráðandi en fyrsti Grindavíkurþristurinn kom á daginn þegar 25 sekúndur lifðu af fyrsta leikhluta og þar var að verki Páll Axel Vilbergsson er hann kom gestunum í 15-17 og þannig stóðu leikar að loknum fyrsta leikhluta.
 
Sigurður Þorsteinsson var að gera Þór lífið leitt á blokkinni og með hverri mínútu í öðrum leikhluta óx Grindvíkingum ásmegin. Varnarleikur gestanna var hrikalega sterkur í öðrum leikhluta og Þórsarar rétt eins og í fyrsta leiknum áttu í miklu basli með að komast upp að körfunni. Benedikt tók leikhlé fyrir Þór þegar Bullock kom Grindavík í 28-33 en starx eftir leikhléið mætti Jóhann Árni Ólafsson með þrist fyrir Grindvíkinga og skömmu síðar var munurinn kominn í 10 stig, 28-38. Hver þristurinn á fætur öðrum fór í loftið hjá heimamönnum í stað þess að sækja á körfuna og Grindvíkingar héldu því með 30-40 forystu inn í hálfleikinn.
 
J´Nathan Bullock var með 10 stig og 4 fráköst hjá Grindvíkingum í hálfleik en Blagoj Janev með 8 stig í liði Þórsara. Grindvíkingar höfðu fína yfirburði í frákastabaráttunni í fyrri hálfleik, 17-25 og þar af voru þeir með 11 sóknarfráköst!
 
Skotnýting liðanna í hálfleik
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 31,2%, þriggja 40% og víti 100%
Grindavík: Tveggja 41,1%, þriggja 37,5% og víti 100%
 
Janev opnaði þriðja leikhluta með þrist fyrir Þórsara og heimamenn hreinlega völtuðu yfir Grindvíkinga á upphafsmínútum síðari hálfleiks með 12-0 áhlaupi. Vörn Þórsara small saman og Grindavík skoraði ekki fyrr en eftir tæplega fimm mínútna leik í síðari hálfleik. Þegar þessi fyrstu stig gestanna komu virtust þau opna fyrir allar flóðgáttir hjá þeim, Bullock mætti með tröllatroðslu, Þorleifur splæsti í þrist og skoraði strax aftur í hraðaupphlaupi og Grindvíkingar komust á flug. Úr varð 13-0 áhlaup til að svara fyrir 12-0 áhlaup Þórsara og þessu 13-0 áhlaupi Grindavíkur lauk þegar heljarmennið Ryan Pettinella hámaði í sig sóknarfrákast og tróð með látum. Spurning hvort ekki sé sniðugra að öryggisprófa körfuna ef til fjórða leiks í Þorlákshöfn kemur.
 
Darrin Govens minnti á sig undir lok þriðja leikhluta en liðin gerðu bæði 18 stig þessar tíu mínútur og því leiddu Grindvíkingar 48-58 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Snemma í fjórða leikhluta var ljóst í hvað stefndi, Bullock kom Grindavík í 52-67 með þrist og Þorleifur Ólafsson, sem átti frábæran leik fyrir Grindavík í kvöld, bætti við öðrum og staðan 56-72. Deildarmeistararnir voru ekki á þeim buxunum að sleppa takinu á leiknum og tóku því 2-0 forystu í einvíginu með 64-79 sigri.
 
Rétt eins og í fyrsta leiknum voru Þórsarar að basla við að sækja upp að Grindavíkurkörfunni en þeir Sigurður, Bullock og Pettinella lokuðu teignum afbragðsvel. Watson var mun rólegri en í fyrsta leik en það kom ekki að sök, Þorleifur og Bullock fóru mikinn, Páll Axel, Pettinella og Jóhann með sterkar rispur og Björn Steinar kom inn af Grindavíkurbekknum með mikla baráttu inn í Grindavíkurvörnina. Þórsarar fækkuðu þristunum úr 35 í fyrsta leik niður í 28 í kvöld en réðu illa við Bullock þegar hann vildi af stað. Nú eru nýliðarnir komnir með bakið upp við vegg, verða að vinna þriðja leikinn í Grindavík á sunnudag eða taka á móti silfrinu.
 
Ef Grindavík verður meistari á sunnudag verður það í fyrsta sinn síðan 2008 sem úrslitaeinvígið fer 3-0 en það gerðist síðast þegar Keflavík sópaði Snæfell 3-0 í úrslitum.
 
Skotnýting liðanna í leikslok
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 36,5%, þriggja 32,1% og víti 87,5
Grindavík: Tveggja 43,6%, þriggja 36,3% og víti 70%
 
Byrjunarliðin:
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens, Guðmundur Jónsson, Darri Hilmarsson, Blagoj Janev og Grétar Ingi Erlendsson.
Grindavík: Giordan Watson, Jóhann Árni Ólafsson, Þorleifur Ólafsson, J´Nathan Bullock og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Heildarskor leiksins:
 
Þór Þorlákshöfn: Blagoj Janev 15/6 fráköst, Darrin Govens 15/6 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, Darri Hilmarsson 11/6 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 9, Guðmundur Jónsson 7/8 fráköst, Joseph Henley 5/8 fráköst/3 varin skot, Grétar Ingi Erlendsson 2, Þorsteinn Már Ragnarsson 0, Emil Karel Einarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0.
 
Grindavík: J’Nathan Bullock 27/9 fráköst, Þorleifur Ólafsson 16/7 fráköst/5 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 11/6 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 9/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 9/4 fráköst, Ryan Pettinella 5/4 fráköst, Giordan Watson 2/6 fráköst/7 stoðsendingar, Þorsteinn Finnbogason 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Ármann Vilbergsson 0.
 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jon Gudmundsson
 
Mynd/ B.Bóas – Giordan Watson til varnar er Darrin Govens sækir að.
Umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -