spot_img
HomeFréttirGrindavíkursigur í framlengingu

Grindavíkursigur í framlengingu

23:03 

{mosimage}

Skallagrímur tapaði fyrir Grindavík 105-112 í Borgarnesi í kvöld. Leikurinn var framlengdur og stemmningin var rafmögnuð frá upphafi til enda. Stemmningin var frábær í Borgarnesi í kvöld, en fjölmargir stuðningsmenn Grindvíkinga voru mættir til þess að styðja við bakið á sínum mönnum, og létu vel í sér heyra. 

Leikurinn fór fjörlega af stað og það voru Grindvíkingar sem að skoruðu fyrstu 3 stig leiksins, en þar var á ferðinni Páll Axel Vilbergsson. Borgnesingar höfðu þó yfirhöndina framan af 1. leikhluta, og komust mest fjórum stigum yfir þegar Axel Kárason setti niður þriggja stiga skot, 17-13. Það var hinsvegar Björn nokkur Brynjólfsson sem að kom Grindvíkingum aftur á bragðið með tveimur þirggja stiga körfum, og gaf tóninn fyrir það sem koma skildi í 2. leikhluta. Páll Axel skoraði svo síðustu stig Grindvíkinga í leikhlutanum, og staðan var 30-33 þegar 1. leikhluta lauk.

2. leikhluti var algerlega eign Grindvíkinga, en þeir gengu á lagið um miðbik leikhlutans og hreinlega völtuðu yfir heimamenn. Eftir að Borgnesingar höfðu komist 10 stigum yfir, 49-39, tóku Grindvíkingar leikhlé sem að virðist hafa borgað sig svo um munaði. Gestirnir komu tvíelfdir til leiks og skoruðu 20 stig á móti 2 frá Borgnesingum, og komust í 51-59. Frábær kafli frá Grindvíkingum, þar sem Björn Brynjólfsson fór fremstur í flokki og raðaði niður hverri körfunni á fætur annarri. Heimamenn náðu þó aðeins að klóra í bakkann undir lok leikhlutans, og var staðan í hálfleik 54-59 eftir Pálmi Sævarsson setti niður langþráðan þrist.

Vörn Skallagríms manna var hreint út sagt skelfileg í fyrri hálfleik og réðu Grindvíkingar lögum og lofum undir körfunni. Eitthvað virtust Borgnesingar hafa hresst við hálfleiksræðu Vals Ingimundarsonar, því að þeir skoruðu fyrstu 6 stig seinni hálfleiks. Pétur og Jovan voru þar á ferð og skyndilega voru heimamenn komnir með yfirhöndina. Borgnesingar komast svo 6 stigum yfir, 69-63 eftir að Pétur Már skorar með laglegu skoti fyrir utan. Aftur fer þó að síga á ógæfuhliðina á heimamönnum, en Grindvíkingar skora þá 8 stig gegn 2, og jafna leikinn 71-71. Grindvíkingar halda áfram þar sem frá var horfið og komast í 76-80 undir lok leikhlutans. 

Í byrjun 4. leikhluta skorar Pálmi Sævarsson góðan þrist og minnkar muninn í eitt stig. Eftir það varð leikurinn eins og stórmeistaraskák, liðin skiptust á um að forystuna og sjaldan eða aldrei var munurinn meira en eitt stig. Síðustu mínútur leiksins voru svo æsispennandi. Í stöðunni 90-90 eru rúmar 2 mínútur eftir af leiknum. Þá skorar Jonathan Griffin með laglegu skoti úr horninu og kemur Grindvíkingum 2 stigum yfir. Borgnesingar bruna í sókn og Darrel Flake jafnar metin með laglegu sniðskoti af blokkinni. Þá var komið að Hafþórs þætti Gunnarssonar, en hann hrifsaði boltann af hinum unga Þorleifi Ólafssyni og kom Borgnesingum yfir, 94-92. Borgfirskir áhorfendur ærðust af fögnuði, og var þessi stuldur Hafþórs einungis til þess að toppa frábæra frammistöðu hans í kvöld. Þá er tæp mínúta eftir af leiknum, og taka gestirnir leikhlé. En Grindvíkingar eiga mikið efni í Þorleifi Ólafssyni, og bætti hann sannarlega upp fyrir mistök sín með því jafna leikinn með fallegu stökkskoti. Borgnesingar misstu svo boltann frá sér í næstu sókn og ljóst var að Grindvíkingar fengu að taka lokaskotið. Jonathan Griffin fékk það vandasama hlutverk, en þökk sé frábærri vörn frá Jovan Zdravevski þá tók Griffin erfitt skot sem geigaði. Framlenging var því staðreynd. 

{mosimage}

Grindvíkingar byrjuðu betur í framlengingunni og komust þremur stigum yfir, 95-98. Eftir það fór leikurinn að mestu fram á vítalínunni og skiptust liðin á því að skora. Í stöðunni 102-102 fá Grindvíkingar boltann og reynir títtnefndur Þorleifur Ólafsson erfitt skot sem að geigar en hinn magnaði Jonathan Griffin sýndi mikla kænsku er hann laumaði sér á bakvið steinsofandi varnarmenn Borgnesinga, hirti frákastið og skoraði 2 stig, ásamt því að fá villu að auki. Hafþór minnkaði svo muninn og braut svo á Þorleifi Ólafssyni sem að fór á vítalínuna, í stöðunni 104-105. Þorleifur hittir aðeins úr seinna skoti sínu, en þá taka dómarar leiksins afdrifaríka ákvörðun sem fólst í því að dæma ásetningsvillu á Darrel Flake, fyrir að er virtist litlar sakir. Páll Kristinsson fer því á vítalínuna og skorar úr báðum skotum sínum. Eftir þetta fjaraði leikur Borgnesinga út og Grindvíkingar spiluðu síðustu sekúndurnar af mikilli skynsemi og unnu leikinn eins og áður sagði, 105-112. 

Valur Ingimundarson þjálfari heimamanna var skiljanlega allt annað en sáttur í leikslok. Hann vandaði öðrum dómara leiksins ekki kveðjurnar og sagði það vera skammarlegt að "slíkir menn" væru fengnir til þess að dæma í úrslitakeppninni. Valur óskaði Grindvíkingum sömuleiðis til hamingju með sigurinn en sagði að lið sitt myndi mæta fyrnarsterkt til leiks á sunnudag. Friðrik Ragnarsson þjálfari gestanna viðurkenndi í leikslok að sínir menn hefðu haft heppnina með sér í kvöld, og að liðin væru það jöfn að getu að það væri einungis hending hvernig svona leikir færu. Hafþór Ingi Gunnarsson var bestur í liði heimamanna í kvöld, en hann barðist eins og ljón allan leikinn og gerði allt til þess að landa sigri. Pétur Már átti góða spretti og skoraði 19 stig. Dimitar Karadzovski skoraði 16 stig, Darrel Flake 18 og Jovan Zdravevski 13. Pálmi Sævarsson átti góða innkomu í leikinn í kvöld, og skoraði 4 þriggja stiga körfur. 

Þorleifur Ólafsson skoraði 19 stig fyrir gestina og var allt í öllu hjá þeim síðustu mínúturnar. Jonathan Griffin var sömuleiðis drjúgur á endasprettinum og skoraði 18 stig í 4. leikhluta og framlengingu. Páll Axel Vilbergsson skilaði sínu að vanda og skoraði 20 stig, þar af 16 í fyrri hálfleik. Nafni hans Páll Kristinsson skoraði 23 stig og var að spila fína vörn allan leikinn. Ekki má gleyma hinum unga Birni Brynjólfssyni sem að skoraði 17 stig og stóð sig eins og hetja þegar á reyndi.

Tölfræði leiksins

 

www.skallagrimur.org

Fréttir
- Auglýsing -