Grindvíkingar sigruðu vængbrotið FSu-liðið í Iðu á Selfossi í kvöld með 98 stigum gegn 60. Leikurinn var slakur í alla staði, nema hvað dómarana varðar en þeir voru yfirburðamenn á vellinum.
Það á ekki af FSu-mönnum að ganga í leikmannamálum og ekki nóg með að allt byrjunarliðið frá því í fyrra, og meira til, sé horfið á braut, heldur byrjunarliðið frá því í haust líka. Bandarískur leikmaður sem bættist í hópinn þegar mótið var löngu byrjað er farinn til síns heima og sá sem kom í staðinn entist í þrjá daga og lék einn leik áður en hann fór grátandi heim. Uppistaðan í liðinu eru því strákar úr 10. og 11. flokki ásamt tveimur 18 ára breskum strákum og tveimur fullorðnum mönnum en annar af þeim hætti að spila fyrir 10 árum, var reyndar góður þá.
Ekki er nein ástæða til þess að rekja gang leiksins í smáatriðum. Leikmenn Grindavíkur, sem voru að sjá ofan úr stúku eins og þeir væru mættir á leiðinlega æfingu, byrjuðu 0-4 og 9-19. Pollarnir í heimaliðinu héldu samt áfram og minnkuðu muninn í 18-21. Þá var Friðrik Ragnarssyni nóg boðið og tók leikhlé þegar 1:24 voru eftir af fyrsta fjórðung. Á þeim tíma bættu gestirnir við 6 stigum og staðan 18-27.
Leikurinn silaðist svo áfram til leikhlés en þá var munurinn 17 stig, 33-50 eftir að besti leikmaður FSu, breskur stráklingur sem Dominic Baker heitir, hafði skorað enn eina þriggja stiga körfuna rétt í lokin.
Friðrik skipti inn á í fimm manna settum, en undirritaður saknaði þess að hann nýtti yfirburðina og gæfi 11. og 12. manni, ungum og efnilegum strákum á FSu-aldri, tækifæri til að spreyta sig, þó ekki væri nema til að þeir gætu sagt frá því heima að það hefði komið svitalykt af sokkunum. Þeir fá varla önnur betri tækifæri í vetur til þess. Þeir fengu þó báðir aðeins að koma inn á og stóðu sig vel.
Grindvíkingar settu á svæðispressu í seinni hálfleik og tvídekkuðu grimmt ef þeir sáu stráka sem náðu þeim rúmlega í nafla. Fengu nokkur auðveld sniðskot í kjölfarið og staðan 43-79 þegar 10 mínútur voru eftir.
Í lokafjórðungnum var nokkuð jafnræði með liðunum, þ.e.a.s. í stigaskori, og heimapeyjar hvergi bangnir að sjá, þó vissulega væri við ofurefli að etja. Þeir náðu nokkrum góðum rispum sem áhorfendur kunnu að meta og sýndu að í þá er margt spunnið. Sæmundur Valdimarsson og Örvar Daði Ingvason gerðu laglega hluti og Birkir Víðisson, fljótur og leikinn strákur, skoraði fallegar körfur. Þessir þrír eru allir 16 ára gamlir og eiga eftir að bíta frá sér í framtíðinni.
Lokatölur voru 60-98 fyrir Grindvíkinga. Þeir þurftu lítið að hafa fyrir hlutunum, skiptu í hæsta lagi í þriðja gír þegar mest lét og virtust í einhverskonar sparaksturskeppni. Trúi ég að þeir hafi látið hvína meira í yfir Hellisheiðina á heimleiðinni. Helst var að tírði á Ólafi Ólafssyni, kornungum strák sem ber sig eiginlega alveg eins að á vellinum og pabbi hans gerði í gamla daga. Og er það sagt honum til hróss, til að taka af allan vafa. Allt sem Páll Axel setti í loftið fór rétta leið gegnum hringinn að venju, þó hann væri langt því frá nokkuð að þenja sig.
Því verður ekki á móti mælt að það er erfitt fyrir gamla keppnishunda að sitja í stúkunni við þessar kringumstæður. Ekki dugar þó að hengja haus, heldur horfa fram á veginn. Trúum vér og því að framundan séu bjartari tímar.
Gylfi Þorkelsson
Mynd: Úr safni Þorsteinn G. Kristjánsson – Ólafur Ólafsson reynir að verja skot Jóns Ólafs Jónssonar



