spot_img
HomeFréttirGrindavík tryggði sér fjórða sætið auðveldlega

Grindavík tryggði sér fjórða sætið auðveldlega

Skallagrímsmenn heimsóttu Mustad-höllina í sínum síðasta leik í Domino's deildinni í bili. Borgnesingar voru þegar fallnir fyrir lokaumferðina og voru því eingöngu að spila upp á stoltið og tækifæri til að spilla vonum heimamanna um 4. sætið í deildinni og heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Þeir virtust þó vera búnir að henda handklæðinu inn fyrir leik og gerðu sig aldrei sérlega líklega til að veita Grindvíkingum harða mótspyrnu.

 

Kjarninn
Þrátt fyrir að leikurinn hafi verið jafn á köflum virtist sigur Grindavíkur aldrei í hættu. Í hvert sinn sem Skallarnir nálguðust settu heimamenn nokkrar körfur í röð og komu sér aftur í þægilega stöðu. Þeir fengu gott framlag frá mörgum leikmönnum en Jóhann Þór Ólafsson þjálfari var þó ekki sáttur í leikslok og sagði að sínir menn hefðu verið flatir. Þeir þurfa aðeins að spýta í lófana fyrir næsta leik en Grindavík mætir Þór frá Þorlákshöfn í 8-liða úrslitum deildarinnar.

 

Hetjan
Lewis Clinch Jr. ákvað að segja hingað og ekki lengra í seinni hálfleik og setti í fluggírinn á köflum þar sem hann skoraði nánast af vild. Eftir að hafa haft frekar hægt um sig í fyrri hálfleik (3 stig) endaði hann stigahæstur Grindvíkinga með 25 stig og bætti við 10 fráköstum og 8 stoðsendingum. Dagur Kár hafði verið öflugur framan af en lenti í villuvandræðum og steig Lewis þá sterkt upp og stjórnaði leik Grindvíkinga af festu og leiddi liðið til sigurs.

 

Tölfræðin lýgur ekki
Flenard Whitfield skoraði 50 stig í kvöld og fékk opið skotleyfi fyrir utan þriggja frá Finni Jónssyni þjálfara sínum sem heyrðist ítrekað kalla "Shoot it! Shoot it!" þegar Flenard nálgaðist þriggja stiga línuna. Hann setti 6 slíkar í kvöld þó úr 17 tilraunum og var svo til eini leikmaður Skallagríms sem virtist vera með einhverju lífsmarki. Hann setti líka nokkrar svakalegar troðslur og var í raun óstöðvandi en því miður fyrir Borgnesinga virtust liðsfélagar hans ekki hafa mikinn metnað fyrir því að bakka hann upp. Sigtryggur Ari Björnsson var sá eini í liðinu sem komst í tveggja stafa tölu, skoraði 17 stig. Næstu menn voru með 7 stig.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun og mynd: Siggeir F. Ævarsson

Fréttir
- Auglýsing -