spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaGrindavík sterkari í Hertz-Hellinum - ÍR biðu lægri hlut

Grindavík sterkari í Hertz-Hellinum – ÍR biðu lægri hlut

ÍR tók á móti Grindavík í 1. deild kvenna í gær í Hertz-hellinum. Grindavík var án miðherja og byrjuðu leikinn með 5 bakverði á vellinum. Þrátt fyrir stærðarmuninn áttu þær góðan leik og unnu ÍR með 25 stigum; 47-72.

Fyrir leik

Grindavík var án nokkurs miðherja í leiknum, en tvær af miðherjum þeirra voru úti með heilahristinga og Erna Magnúsdóttir, einn af reynsluboltum liðsins, var sömuleiðis ekki með.

ÍR hafði í seinasta leik sínum sótt fyrsta sigur tímabilsins gegn Fjölni á meðan að Grindavík hafði unnið Hamar og var því með þrjá sigra í fjórum leikjum.

Gangur leiksins

Frá byrjun voru Grindvíkingar mikið að pressa boltann og ÍR-ingar töpuðu fjórum boltum á fyrstu 3 mínútum leiksins. ÍR gat þó haldið sér í leiknum með því að nýta vel þau skot sem þau fengu og staðan var nokkuð jöfn fyrstu 7 mínútur leiksins. Þá tóku gestirnir sig til og skoruðu 12 stig gegn 2 stigum heimastúlkna svo leikhlutanum lauk 12-23, Grindavík í vil.

ÍR vaknaði aðeins þegar leið á annan leikhlutann og með ágætri vörn og betri sókn gátu þær minnkað muninn í 8 stig þegar tæpar tvær mínútur voru í hálfleikshlé. Jóhann Árni Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, tók þá leikhlé og Suðurnesjastelpurnar gátu breikkað bilið aðeins fyrir hálfleik. Staðan var 27-39 þegar liðin héldu inn í búningsklefana sína.

Seinni hálfleikurinn byrjaði aðeins betur en sá fyrri hjá ÍR, en þær skoruðu 6 stig gegn aðeins 2 hjá Grindavík og áhorfendur fóru að braggast og hvetja sínar heimastúlkur. Gestirnir voru þó ekki lengi að snúa dæminu við og skoruðu á næstu fimm mínútum 18 stig gegn aðeins tveimur stigum hjá ÍR. Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari ÍR-inga, tók þá leikhlé en skaðinn var skeður. Staðan var 39-62 fyrir lokaleikhlutann og á seinustu 10 mínútunum breyttist staðan mjög lítið. Lokastaðan varð 47-72 eftir frekar rólegan lokafjórðung.

Lykillinn

Lykilleikmaður Grindavíkur var reynsluboltinn Ingibjörg Jakobsdóttir að þessu sinni. Hún var mjög öflug og þá helst í vörninni, en hún fékk það verkefni að stöðva stóru stelpurnar hjá ÍR og leysti það ágætlega. Liðið hennar vann með 26 stigum meðan að hún var inni á vellinum og þó að hún hafi ekki verið framlagshæst og átti frekar dapran skotleik (27% utan af velli) þá skoraði hún 18 stig, fiskaði 9 villur og stal 5 boltum. Ólöf Rún Óladóttir og Hrund Skúladóttir áttu líka góðan leik, en þær skoruðu 18 og 15 stig í leiknum og enduðu báðar með 20 framlagsstig. Hjá ÍR var Nína Jenný Kristjánsdóttir stigahæst með 12 stig og Jóhanna Herdís Sævarsdóttir var framlagshæst með 15 framlagspunkta.

Tölfræðin

Vörn Grindavíkur þar ÍR-ingum erfið, enda töpuðu heimastúlkur 28 boltum í leiknum gegn aðeins 13 hjá gestunum. Grindavík skoraði 17 hraðaupphlaupsstig gegn 4 hjá ÍR sem skráist á fjölda tapaðra bolta hjá þeim hvítklæddu. Misræmið í villufjölda mætti mögulega útskýra með þessum töpuðu botum, en Grindavík braut aðeins 11 sinnum af sér í leiknum á meðan að ÍR fékk 23 villur dæmdar á sig. Grindavík fékk 25 vítaskot í leiknum og setti 20 þeirra (80%) á meðan að ÍR tók aðeins 11 vítaskot í leiknum og setti 8 þeirra (73%). Þar að auki settu gestirnir 10 þrista í 30 tilraunum á meðan að ÍR tók aðeins 10 þrista á heildina og settu aðeins 3 þeirra.

Kjarninn

ÍR gat ekki fylgt eftir góðum árangri í seinasta leik sínum gegn Fjölni og áttu í erfiðleikum með að koma sóknum sínum af stað vegna pressu Grindavíkur. Grindavík fékk auðveldar körfur vegna varnarinnar og ÍR náði ekki spila nægilega vel saman á köflum. Svo fór því sem fór.

Samantektin

Þá eru Grindvíkingar í öðru sæti deildarinnar á eftir Fjölni með einn leik til góða og eiga spennandi leik næst gegn Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni um næstu helgi. ÍR er enn á botni deildarinnar en geta vænkað hag sinn með því að sigra Hamar eftir viku og ef Tindastóll tapar gegn Fjölni.

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn:

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -