Grindvíkingar þykja líklegir til afreka á tímabilinu og unnu gular sinn fyrsta sigur þegar Snæfell kom í heimsókn í Domino´s deild kvenna í kvöld. Framlengja varð leikinn þar sem Grindvíkingar reyndust sterkari á lokasprettinum.
Snæfell var ekki mætt til leiks í fyrri hálfleik og náði Grindavík mest 17 stiga forskoti. Í hálfleik var Grindavík 15 stigum yfir. Snæfell kom töluvert sterkara út úr búningsklefanum í seinni hálfleik og náðu að knýja fram framlengingu. Leikurinn endaði 89-85 Grindavík í vil.
Grindavík leiddi leikinn í fyrsta leikhluta og náðu mest 10 stiga forskoti. Snæfell gafst þó ekki upp og náði að minnka muninn niður í 1 stig áður en leikhlutanum var lokið. Leikhlutinn endaði í 23-22 Grindavík í vil. Pálína Gunnlaugsdóttir var strax komin með 10 stig eftir fyrsta leikhluta fyrir Grindavík og Ingibjörg Jakobsdóttir með 7 stig.
Grindavík náði upp góðu forskoti í öðrum leikhluta og komst 15 stigum yfir 49-34. Chynna Unique Brown var einungis með 1 stig í öðrum leikhluta en hafði sett niður 7 stig í þeim fyrri.
Pálína Gunnlaugsdóttir fékk högg frá Chynna Unique Brown þegar fjórar mínútur voru eftir af öðrum leikhluta og missti andann, var hún leidd útaf en kom aftur inn á tveimur mínútum seinna.
Í hálfleik var Pálína Gunnlaugsdóttir stigahæst fyrir Grindavík með 18 stig og 8 fráköst. Ingibjörg Jakobsdóttir var með 15 stig og Lauren Oosdyke var með 8 stig og 8 fráköst.
Chynna Unique Brown var með 8 stig og 5 fráköst fyrir Snæfell. Þá voru Eva Margrét Kristjánsdóttir og Hildur Sigurðardóttir með 7 stigin hvor.
Þegar 6 mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta tókst Snæfell að skera niður á forskot Grindvíkinga og náðu að minnka muninn niður í 4 stig, 63-59.
Spennan magnaðist í fjórða leikhluta og náði Snæfell að komast einu stigi yfir 66-67 þegar 4 mínútur voru liðnar. Liðin skiptust á að vera yfir og náði Pálína Gunnlaugsdóttir að setja leikinn í framlengingu með því að setja niður 2 víti þegar 20 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Grindavík kom sterkara inn í framlenginguna og var yfir allan tímann. Ingi Þór fékk dæmda á sig tæknivillu þegar þrjár mínútur voru liðnar af framlengingunni og tókst Grindavík þá að ná 6 stiga forskoti með tveimur vítaskotum frá Pálinu Gunnlaugsdóttir.
Ingi Þór missti leikmenn sína útaf hvern á eftir öðrum með 5 villur þegar síga fór á seinnihluta leiksins. Eva Margrét Kristjánsdóttir fór útaf þegar 4 mínútur voru eftir af fjórða leikhluta en þær Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir og Hildur Sigurðardóttir fóru útaf með 5 villur í framlengingunni. Leikurinn endaði í tölunum 89-85 Grindavík í vil.
Pálína Gunnlaugsdóttir var stigahæst fyrir Grindavík með 27 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar. María Ben Erlingsdóttir var með 21 stig og 10 varnarfráköst. Ingibjörg Jakobsdóttir virtist ekki vera að hitta úr tveggja stiga skotunum sínum þar sem hún var með 1 af 7. Hún endaði með 19 stig, 7 fráköst og 9 stoðsendingar. Lauren Oosdyke var þá með 13 stig og 17 fráköst.
Grindavík var með 19 tapaða bolta sem er heldur mikið og var Ingibjörg Jakobsdóttir með 6 þeirra en Pálína Gunnlaugsdóttir með 5.
Fyrir Snæfell var Chynna Unique Brown með 28 stig en 12 þeirra komu í 4. leikhluta. Hún var einnig með 12 fráköst og 6 stoðsendingar. Hildur Sigurðardóttir var með 18 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Þær Hildur Björg Kjartansdóttir og Eva Margrét Kristjánsdóttir voru báðar með 12 stig. Þá var Hildur með 12 fráköst en Eva 7.
JÓÓ



