spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaGrindavík stal heimavallarréttinum

Grindavík stal heimavallarréttinum

Í gær áttust við ÍR og Grindavík í 4ja liða úrslitum 1. deildar kvenna. Leikurinn var frábær skemmtun og augljóst að bæði lið eru komin í úrslitakeppnisgír. Mikil stemning var í húsinu og stuðningsmannasveit ÍR öflug í stúkunni.

Það var þó Grindavík sem setti fyrstu körfu leiksins og héldu þær forustu allt til enda. Grindavík náði mest um 13 stiga forystu um miðjan 2. leikhluta en ÍR gerðu sig alltaf líklegar og um leið og Grindavík gerði mistök eða gleymdu sér í hita leiksins setti ÍR körfu eða náði góðu stoppi. Staðan í hálfleik var 42-30 fyrir Grindavík. ÍR mættu brjálaðar til leiks og leit út fyrir að það hafi komið smá skjálfti í Grindavíkurliðið við þessa miklu baráttu ÍR sem tókst að minnka muninn í 52-49 þegar skammt var eftir af 3. leikhluta. Grindavík náði að auka muninn aftur en áfram héldu ÍR-stelpur og þegar rúmar 6 mínútur voru eftir af 4ja leikhluta setur Fanndís María Sverrisdóttir stóran þrist og minnkar muninn í tvö stig. Baráttan og spennan var í hápunkti á þessum tímapunkti góðs liðsheild hélt þeim í bílstjórasætunni. Þá var komið að Heklu Eik Nökkvadóttur að setja risa þrist og koma Grindavík í 8 stiga forustu þegar rúmar 2 mínútur voru eftir af leiknum. Á þessum tímapunkti þurfti ÍR að taka sénsa í von um að minnka muninn sem gekk því miður ekki en í staðinn misstu þær lykilleikmenn út af með 5 villur. Lokatölur var 15 stiga sigur Grindavíkur sem gefur þó ekki rétta mynd af leiknum þar sem þetta var járn í járn allt til enda.

Hjá Grindavík átti Jannon Otto stórleik með 27 stig og 19 fráköst, Hulda var einnig frábær með 24 stig og Natalía Lucic Jónsdóttir með 14 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Einnig verður að nefna þátt Heklu Eikar Nökkvadóttur en ÍR spilaði stífa vörn á hana allan leikinn og hitti hún illa framan af en setti síðan stóran þrist í lokaleikhlutanum og var örugg á vítalínunni seinustu tvær mínútur leiksins þegar ÍR var að reyna að koma sér inn í leikinn.

Hjá ÍR var Sólrún Sæmundsdóttir yfirburðarleikmaður og spilaði frábæra vörn á sóknarmenn Grindavíkur ásamt því að skora 19 stig og taka 5 fráköst. Fanndís María Sverrisdóttir var með 16 stig, Aníka Linda Hjálmarsdóttir með 10 stig og 9 fráköst og Margrét Blöndal með 10 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.

Grindavík er því komið 1-0 yfir í seríunni og búið að stela heimavallarréttinum í þessari seríu. Næsti leikur liðanna er á laugardaginn kl.18:30 og ég vil hvetja stuðningsmenn liðanna til að fjölmenna á völlinn enda lítur þetta út fyrir að verða einstaklega skemmtileg sería.  

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Bryndís Gunnlaugsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -