spot_img
HomeFréttirGrindavík sigrar Snæfell

Grindavík sigrar Snæfell

 Grindvíkingar fóru með sigur af hólmi í dag gegn Snæfell í 32. liða úrslitum Lýsingar bikarsins. Snæfell byrjaði leikinn betur og höfðu undirtökin fram að hálfleik en þá tóku heimamenn við sér og snéru leiknum sér í hag. Á lokasprettinum héldu heimamenn haus þrátt fyrir mikið áhlaup gestanna og kláruðu dæmið. Lokastaða leiksins 87-82 Gestirnir úr Stykkishólmi byrjuðu eins og fyrr segir leikinn miklu betur. Á meðan þeir léku agaðan og öruggan sóknarleik voru Grindvíkingar frekar tilviljunakenndir í sínum sóknarleik. Léleg hittni í bland við lélegt skotval og lélegar sendingar gerði það að verkum að Snæfellingar höfðu lítið fyrir hlutunum og voru yfir eftir fyrsta leikhluta 26-15. Adam Darboe byrjaði vel fyrir heimamenn og hélt þeim á floti í þessum fjórðung en spil og skor gestanna var að dreifast vel á mannskap þeirra.Í öðrum fjórðung héldu gestirnir áfram sama dampi á meðan heimamenn voru að elta. Þessi 7 til 10 stig skildu liðin að mestu þennan fjórðung og héldu gestirnir áfram að spila góðan körfubolta. Það var ekki fyrr en rétt í lok annars fjórðungs að Grindvíkingar komust á smá flug og voru það þristar frá Páli Axel og Adam Darboe sem minnkaði muninn á liðunum en staðan í hálfleik var 36-43.

 

Það var svo nýtt Grindavíkurlið sem kom til leiks í seinni hálfleik. Virkilega grimmir og hungraðir náðu þeir fljótlega að riðla upp leik gestanna svo um munaði. Snæfellingar vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið og um miðbik fjórðungsins setur Þorleifur Ólafsson niður þrist fyrir heimamenn og ná þeir forystunni í fyrsta skiptið, 48-47. Grindvíkingar héldu áfram að þétta vörn sína og í kjölfarið kom sóknin að sjálfum sér (hver hefur ekki heyrt þennan frasa frá sínum þjálfara) Sigurður Þorvaldsson hélt sínum mönnum á floti á þessum tímapunkti og voru það 7 stig sem skildu liðin eftir þrjá fjórðunga, 63-56.

 

Snæfell voru svo sannarlega ekki á þeim buxunum að játa sig sigraða og komu virkilega grimmir til síðasta fjórðungs. Grindvíkingar hinsvegar héldu haus og fór þar Steven Thomas fyrir sínum mönnum en hann virtist skora í flestum tilvikum sem hann fékk tuðruna undir körfunni. 6 stig skildu liðin þegar um 5 mínútur voru eftir en í einni sókn heimamanna voru þeir að þrotum komnir og við það að tapa boltanum vegna skotklukkunar en þá kom Þorleifur Ólafsson og setti niður "langann" þrist sem virtist kveikja í baráttugleði heimamanna og einnig áhorfenda þeirra. Sem fyrr segir gerðu gestirnir fínt áhlaup í lok leiks en þar fór Justin Shouse fyrir sínum mönnum. En Grindvíkingar stóðust prófið og settu niður sín víti og kláruðu dæmið 87-82.

 Tölfræði leiksins

Hjá Grindavík var Steven Thomas stigahæstur með 23 stig og næstur honum kom hinn danski Adam Darboe með 18. Justin Shouse var bestur hjá gestunum en hann setti niður 28 stig ásamt því að stela 5 boltum. Næstur honum var Sigurður Þorvaldsson með 17 stig. Hlynur Bæringsson var einnig traustur með sín 16 fráköst og 13 stig.

Fréttir
- Auglýsing -