spot_img
HomeFréttirGrindavík meistari meistaranna: Páll Axel með flautuþrist

Grindavík meistari meistaranna: Páll Axel með flautuþrist

 
Grindvíkingar eru meistarar meistaranna 2011 en Páll Axel Vilbergsson tryggði gulum titilinn með flautuþrist í DHL-Höllinni. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en á lokasprettinum virtist KR ætla að taka titilinn uns Páll Axel tók til sinna ráða. Páll hefur lítið verið með Grindvíkingum á undirbúningstímabilinu en stimplaði sig rækilega inn í dag.
Hreggviður Magnússon opnaði leikinn með þriggja stiga körfu en Grindvíkingar voru líflegir á fyrstu andartökunum og svöruðu með átta stiga áhlaupi. Í stöðunni 8-16 Grindavík í vil tóku heimamenn leikhlé sem hafði tilætluð áhrif enda gerði KR næstu 9 stig og leiddu 17-16 eftir þriggja stiga körfu frá Skarphéðni Ingasyni. Það voru þó Grindvíkingar sem leiddu að loknum leikhlutanum 23-25 þar sem Páll Axel sökkti einum fyrir gula á síðustu sekúndunum.
 
Ármann Vilbergsson var beittur á upphafssekúndum annars leikhluta, sökkti þrist og fiskaði ruðning á KR-inga og skömmu síðar var Ágúst Angantýsson leiddur af velli í liði KR eftir byltu í teignum og lék hann ekki meir í fyrri hálfleik.
 
Finnur Atli Magnússon fékk snemma sína þriðju villu og hélt á tréverkið en KR-ingar fóru samt að saxa á forystu Grindavíkur. Heimamenn beittu svæðispressu og féllu aftur í svæðisvörn sem náði á köflum að hægja á Grindavík en gulir leiddu þó 43-44 í hálfleik þrátt fyrir 12-4 rispu röndóttra undir lok hálfleiksins.
 
David Tairu var með 13 stig og 7 fráköst í hálfleik hjá KR en hjá Grindavík var Jóhann Árni Ólafsson með 12 stig og 2 stoðsendingar.
 
Ólafur Ólafsson var líflegur í upphafi síðari hálfleiks, kappinn skellti niður þrist og tróð svo viðstöðulaust með látum eftir teigskot hjá Sigurði Þorsteinssyni. Grindvíkingar komust í 55-62 og létu svæðisvörn KR ekki stoppa sig en þegar seig á leikhlutann færðust heimamenn nær. Emil Þór Jóhannsson hleypti svo lífi leikinn er hann jafnaði metin 67-67 með flautuþrist fyrir KR og þannig stóðu leikar eftir þrjá leikhluta.
 
 
Fjórði leikhluti var jafn og spennandi, liðin skiptust á forystunni allt til leiksloka. KR mátti sjá á eftir Finni Magnússyni á bekkinn með fimm villur og þegar 13 sekúndur voru til leiksloka setti David Tariu niður tvö mikilvæg víti sem komu KR í 85-84. Næsta sókn Grindavíkur brást en gulir fengu boltann dæmdan til sín þegar hann fór útaf í frákastabaráttunni. Grindvíkingar fundu Pál Axel fyrir utan þriggja stiga línuna sem henti upp lítilli bæn sem var svarað, lokatölur 85-87 Grindavík í vil.
 
Skemmtilegur leikur í DHL-Höllinni í kvöld og er það ekki ofsögum sagt að liðin sem áttust hér við verða engin lömb að leika sér við í vetur.
 
Stiklur
-Fannar Ólafsson var á bekknum hjá KR í borgaralegum klæðum.
-Páll Axel Vilbergsson lék með Grindavík í dag en hann hefur ekkert verið með á undirbúningstímabilinu.
-Ágúst Angantýsson var leiddur af velli meiddur eftir byltu í öðrum leikhluta og lék ekki meir í leiknum.
-Ólafur Ólafsson átti eitt af tilþrifum leiksins er hann tróð viðstöðulaust eftir skot Sigurðar Þorsteinssonar en tilþrif leiksins eru vitanlega sigurkarfa Páls Axels Vilbergssonar.
 
Stigaskor:
 
KR: David Tairu 26/9 fráköst, Hreggviður Magnússon 20/6 fráköst, Edward Lee Horton Jr. 11/8 fráköst/6 stoðsendingar, Emil Þór Jóhannsson 9/6 stolnir, Skarphéðinn Freyr Ingason 7, Martin Hermannsson 5, Finnur Atli Magnusson 5/5 fráköst, Ágúst Angantýsson 2/4 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 0, Kristófer Acox 0, Páll Fannar Helgason 0, Ólafur Már Ægisson 0.
 
Grindavik: Giordan Watson 24/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 14/5 fráköst/3 varin skot, Jóhann Árni Ólafsson 13, Páll Axel Vilbergsson 12/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/9 fráköst/4 varin skot, Ómar Örn Sævarsson 7/9 fráköst/3 varin skot, Þorleifur Ólafsson 6, Ármann Vilbergsson 3, Þorsteinn Finnbogason 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0.
 
Dómarar: Kristinn Óskarsson og Egger Þór Aðalsteinsson
 
Myndir/ Tomasz Kolodziejski – [email protected]
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -