spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaGrindavík lagði Stólana í fjörugum leik í Síkinu

Grindavík lagði Stólana í fjörugum leik í Síkinu

Tindastóll tók á móti Grindavík í 1. deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu í dag.

Fyrir mót hafði Grindavík verið spáð ágætu gengi í deildinni. Lið heimakvenna eru nýliðar í fyrstu deild því meistaraflokkur kvenna er að fara aftur í gang á Króknum eftir nokkurt hlé og það var ágætis mæting á leikinn.

Heimakonur sýndu frá byrjun að þær voru ekki mættar á parketið til að láta valta yfir sig. Vörnin var góð og þær voru að fá ágætis skot sem þær nýttu vel. Gestirnir virtust slegnir út af laginu og heimakonur leiddu eftir 1. leikhluta og vel heppnaða lokakörfu Tessöndru W., 24-20. Baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta, heimakonur voru að rúlla ágætlega á sínu liði og gestirnir líka og þær gerðu nokkrum sinnum áhlaup en Tindastóll náði alltaf að svara og þær leiddu í leikhléi 46-41 eftir flottan þrist frá Alexöndru úr horninu. Tessondra W. var mjög sterk hjá heimakonum með 21 stig í fyrri hálfleik en Hrund og Sigrún Elfa fóru fyrir gestunum.

Í þriðja leikhluta fór leikurinn að snúast gestunum í hag, þær hertu vörnina og fóru að spila meira inn í teiginn og hittu betur úr sínum skotum. Þær minnkuðu muninn jafnt og þétt og komust yfir þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta. Á sama tíma virtust heimakonur missa aðeins trúna á verkefninu, fóru að taka ótímabær skot og náðu ekki að frákasta jafnvel og þær höfðu gert til þessa. Grindavík seig jafnt og þétt framúr og þær höfðu 10 stiga forystu þegar kom að lokaleikhlutanum, 60-70.

Stúkan var enn á lífi í Síkinu og hvatti heimakonur til að koma sér inn í leikinn. Það gekk þó erfiðlega og Grindavík hélt 10-11 stiga forystu fram í miðjan fjórða leikhluta, staðan 76-64 þegar rétt rúmar 6 mínútur voru eftir. Þá tóku Tindastólskonur skyndilega á sprett og náðu 9-0 kafla áður en gestirnir áttuðu sig og skyndilega var staðan orðin 73-76 og Jóhann Árni tók leikhlé. Það virkaði ágætlega, Grindavík róaði leik sinn og sótti aftur í þá hluti sem höfðu virkað fyrr í leiknum og sigldu að lokum heim sigri 78-85.

Hjá Grindavík áttu Hrund (23 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar) og Sigrún Elfa (21 stig, 6 frák.) mjög góðan leik. Liðið sýndi á köflum fína spilamennsku og á væntanlega eftir að gera góða hluti í vetur. Heimakonur í Tindastól stóðu sig vel og hefðu með aðeins meiri heppni og ákveðni getað stolið sigri í þessum leik. Þótt það tækist ekki í þetta sinn þá var þetta frammistaða sem hægt er að byggja á og þær verða til alls líklegar í vetur. Tess var mest áberandi í stigaskorun hjá heimakonum með 34 stig og Þóranna Ósk kom næst með 16 og átti fínan leik.

 

Myndasafn

Tölfræði leiks

 

 

Umfjöllun, myndir & viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -