Önnur úrslitaviðureign Grindavíkur og KR í Domino´s deild karla fer fram í Röstinni í Grindavík í kvöld. Að sjálfsögðu hefst leikurinn kl. 19:15 og verður í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport. Staðan í einvíginu er 1-0 fyrir KR eftir 93-84 sigur í fyrsta leik liðanna.
Tæpitungulaust þá hlýtur það að vera pottþétt mál að liðin muni bæði tvö bjóða upp á leik í hærri gæðaflokki en sást í fyrsta slagnum úti í DHL-Höll. Þeir sem til liðanna þekkja vita að það býr umtalsvert meira í mörgum manni liðanna.
Grindvíkingar hafa örugglega verið á stífum frákastaæfingum og KR-ingar vísast verið duglegir við að trekkja bekkinn sinn í gang sem ákvað að taka ekki þátt í fyrsta leiknum.
Upphitun fyrir leikinn hefst kl. 17:00 á Salhúsinu í Grindavík þar sem hægt verður að kaupa bæði veitingar og miða á leikinn.



