Hér að neðan fer bein textalýsing úr fjórðu úrslitaviðureign Grindavíkur og KR í Domino´s deild karla. Staðan í einvíginu er 2-1 KR í vil. Takist KR að hafa sigur í kvöld verða þeir Íslandsmeistarar, ef Grindavík vinnur fer fram oddaleikur í DHL-Höllinni á laugardag.
Fjórði leikhluti
LEIK LOKIÐ – KR-INGAR eru Íslandsmeistarar 2014 – til hamingju KR!
LOKATÖLUR 79-87
– 8,1 sek eftir og dæmt óíþróttamannsleg vilal á Jóhann Árna Ólafsson fyrir að brjóta á Pavel áður en boltinn var kominn í leik…já gott fólk, KR er að verða aðeins annað liðið í íslenskri körfuknattleikssögu til þess að hampa þeim stóra á heimavelli fráfarandi meistara… 79-85 …
– 77-83 Martin setur bæði vítin…drengurinn hefur verið hreint út sagt rafmagnaður í kvöld…þvílík frammistaða!
– 14 sek og Ólafur Ólafsson brýtur á Martin Hermannssyni! Fær dæmda á sig óíþróttamannslega villu …Martin á tvö víti…þetta er leikurinn gott fólk…KR er að tryggja sér titilinn hérna.
– KR skorar ekki í næstu sókn…Grindvíkingar eiga innkst með 12 sek á skotklukkunni og 23 sek á leikklukkunni…
– 77-81 Jóhann Árni brýst í gegn og minnkar muninn þegar 1mín er til leiksloka.
– 75-81 Darri með risastórann þrist!!! Þessi gæti hafa farið langt með þetta gott fólk, Darri Hilmarsson með þrist og eykur muninn í sex stig.
– Watt með risavaxið sóknarfrákast þegar 1.50mín er eftir og gefur KR nýja klukku en gulir ná boltanum, bruna upp og minnka í 75-78 þegar 1.20mín eru eftir.
– 73-78 Watt með eitt víti og KR komið með 5 stiga forystu þegar 2.10mín eru eftir. Heimamenn í Grindavík taka leikhlé.
– 73-77 Watt með tvö góð stig fyrir KR og 2.30mín til leiksloka!
– 73-75 Helgi „Tjakkurinn“ Magnússon bakkar niður alla þá sem hann vill! Íslenskir varnarmenn eru hreinlega ekki nægilega skólaðir í vörn á blokkinni og Helgi svívirðir varnarmenn sína þar reglulega og lætur þetta líta út eins og að drekka vatn!
– 73-71 Jóhann Árni setur niður tvö víti eftir að Helgi Magnússon braut á honum, fjórða villan á Helga sem var allt annað en sáttur og taldi sig hreinlega hafa varið skotið frá Jóhanni aftanfrá.
– 71-71 Darri Hilmarsson með risavaxinn stórustrákaþrist og jafnar 71-71 þegar 5.07 mín eru til leiksloka, Sverrir Þór tekur leikhlé fyrir Grindvíkinga.
– 68-66 Martin setur niður eitt víti fyrir KR-inga en Daníel „Babyfaceassasin“ Guðmundsson svarar með þrist fyrir Grindvíkinga og breytir stöðunni í 71-66 þegar 6.20mín eru til leiksloka. Þvílík stemmning í húsinu!
– 66-62 og 7.53mín eftir af leiknum…Sigurður Gunnar fær sína fjórðu villu í liði Grindavíkur og heldur á bekkinn, inn í hans stað kemur Ómar Örn Sævarsson. Pavel á línunni og minnkar muninn í 66-64.
– 66-62 – flott boltahreyfing hjá Grindvíkingum sem endar með þrist frá Jóhanni Árna…Jóhann kominn með 10 stig og 10 fráköst í liði Grindavíkur.
– 61-62 Pavel með þrist fyrir KR en Sigurður Gunnar svarar að bragði fyrir heimamenn og staðan 63-62.
– Fjórði leikhluti er hafinn og það eru heimamenn í Grindavík sem byrja með boltann.
Þriðji leikhluti
– Þriðja leihkluta er lokið. Staðan er jöfn, 59-59 og vann KR leikhlutann 16-18. Flottur lokasprettur hjá KR-ingum…rosalegur fjórði leikhluti í vændum! Fer sá stóri á loft eða erum við á leið í oddaleik?
– 59-57 Pavel með flott gegnumbrot fyrir KR og minnkar muninn í 2 stig þegar rúm mínúta er eftir af þriðja leikhluta.
– 59-52 Clinch eykur muninn í 7 stig með gegnumbroti fyrir Grindvíkinga en strax í næstu vörn fær Sigurður Gunnar Þorsteinsson sína þriðju villu í liði Grindavíkur.
– 57-52 Ómar setur aðeins annað vítið en Grindvíkingar eiga innkast…
– 56-52 fyrir Grindavík og 3.50mín eftir af þriðja leikhluta…hér var verið að flauta óíþróttamannslega villu á Helga Magnússon go hann er allt annað en sáttur. Hann og Kristinn Óskarsson skeggræða nú málin á meðan Ómar Örn Sævarsson heldur á vítalínuna.
– 52-50 leikhlé eru vítamínsprautur fyrir KR-inga…nú voru þeir að koma úr einu slíku og það fyrsta sem þeir gerðu var að bomba niður þrist en þar var Darri Hilmarsson að verki.
– 52-47 Jóhann Árni Ólafsson skellir niður þrist fyrir Grindvíkinga eftir flotta sóknarfléttu, fléttu sem við sjáum oftar en ekki í herbúðum KR, Jóhann endaði galopinn í þriggja stiga skoti og honum brást ekki bogalistin. KR-ingar taka leikhlé þegar 5.31mín er eftir af þriðja leikhluta.
– 49-48 og 5.46mín eftir af þriðja…Martin Hermannsson var hér að fá sína þriðju villu í liði KR.
– Sigmundur Már aðvarar bekkinn hjá Grindavík…næst þegar menn hafa sig í frammi þar með mótmæli eða annað verður flautuð tæknivilla á Grindavíkurbekkinn.
– Demond Watt á leiðina á línuna…Ólafur Ólafsson fær þarna villu á sig sem algerlega og meira að segja klárlega var alls engin villa! Watt setur annað vítið og staðan 45-47 fyrir KR.
– 45-44 Sigurður Gunnar með stökkskot við endalínuna eftir stoðsendingu frá Jóhanni Árna.
– 43-44 Pavel setur þrist fyrir KR og Sverrir Þór allt annað en sáttur því þristurinn kom jú eftir sóknarfrákast þeirra KR-inga.
– Þriðji leikhluti er hafinn!
Hálfleikstölur:
Skotnýting liðanna í fyrri hálfleik:
Grindavík: Tveggja 35% – þriggja 33% og víti 78%
KR: Tveggja 45% – þriggja 38% og víti 100%
Annar leikhluti
– Fyrri hálfleik lokið…staðan 43-41 fyrir Grindavík…Clinch glutraði lokasókninni frá sér eða öllu heldur var Pavel Ermolinskij með mögnuð varnartilþrif og Clinch kom ekki frá sér skoti.
– Óíþróttamannsleg villa dæmd á Pavel fyrir peysutog áður en boltinn kemur í leik og Pavel vitaskuld allt annað en sáttur…Sigurður Gunnar setur bæði vítin fyrir Grindavík sem fær líka innkast og staðan 43-41 fyrir heimamenn.
– 7 sek eftir af fyrri hálfleik, Grindavík í sókn með 1 sek á skotklukkunni…
– 38-38 Martin snýr á Clinch með glæsilegri hreyfingu en sá bandaríski svarar með þrist og Grindavík kemstu í 41-38 en þá kemur Pavel með andmæli (þrist) og jafnar 41-41…já hlutirnir gerast hratt hér á lokamínútu fyrri hálfleiks.
– 36-34 Siggi Þorsteins skorar á hraðaupphlaupinu og Martin brýtur á honum, Siggi með þriggja stiga sókn fyrir heimamenn.
– 33-34 Clinch lætur á sér kræla í gulu og skvettir niður þrist…ekki seinna vænna en að maður færi að láta til sín taka, fyrir Grindvíkinga er hann allt allt of „passífur“
– 28-34 Darri skorar fyrir KR-inga og 3.33mín eftir af fyrri hálfleik. Sverrir tekur leikhlé fyrir Grindvíkinga enda KR búið að snúa stöðunni úr 24-20 Grindavík í vil í 28-34 og þar með 4-14 kafli hjá KR og skyldi nokkurn undra að sá kafli hafi byrjað fyrir alvöru þegar Martin kom inn af tréverkinu.
– 26-30 Helgi Magg með þrist og KR á 2-10 siglingu.
– 24-27 Martin skorar eftir glæsilega sendingu inn í teiginn, var ekki lengi að finna körfu nýkominn af tréverkinu hjá KR.
– 24-25 Pavel með þrist og KR-ingar á 5-0 spretti þessa stundina eftir leikhléið sitt.
– 24-20 Jón Axel með góða stoðsendingu á Ólaf Ólafsson í teignum þar sem Ólafur klárar af öryggi…Finnur Freyr tekur leikhlé fyrir KR nú þegar 7.24mín eru eftir af öðrum leikhluta. Lítið bit í sóknarleik KR núna þegar Martin er utan vallar og mikilvægt fyrir röndótta að fleiri taki af skarið.
– Annar leikhluti er hafinn og hann hefst með látum takk fyrir! Sigurður Gunnar Þorsteinsson tróð með rosalegum tilþrifum í háannatraffík, þvílík tilþrif hjá miðherjanum. Staðan 20-20 því KR-ingar voru fljótir að koma niður körfu eftir þessi glæsitilþrif.
Fyrsti leikhluti:
– Fyrsta leikhluta er lokið og staðan er 18-18. Martin Hermannsson er kominn með 11 stig í liði KR en Ólafur Ólafsson er með 5 stig í liði Grindvíkinga. Þessi fyrsti leikhluti var jákvæður fyrir Grindvíkinga að því leyti að þeir virðast ætla að taka þátt í frákastabaráttunni í kvöld og hjá KR virðist Martin í ham og spurning hvað heimamenn geri til að reyna að hafa hemil á kappanum.
– 18-18 ómar jafnar eftir sóknarfrákast fyrir Grindvíkinga.
– 16-16 Jóhann setur aðeins annað vítið og ein og hálf mínúta eftir af fyrsta leikhluta.
– 15-16 og Jóhann Árni er á leiðinni á vítalínuna fyrir Grindvíkinga.
– 13-14 Ólafur Ólafsson með þrist fyrir heimamenn sem fór í spjaldið og ofan í, keimur af heppni með þessu.
– 10-12 fyrir KR, Martin með flott gegnumbrot. 10-14 KR-ingar stela boltanum í innkasti hjá Grindavík, eða öllu heldur Martin og setur stökkskot við endalínuna, fjögurra stiga rispa á c.a. 5 sekúndum og stolinn bolti hjá kappanum, ekki amalegt það. Martin kominn með 9 af 14 stigum KR í leiknum.
-2-6 Jóhann Árni gerir fyrstu stig Grindavíkur í leiknum með stökkskoti yfir Darra Hilmarsson.
– 0-6 Martin mætir með annan þrist fyrir KR-inga, gestirnir opna með látum hér í Röstinni.
– 0-3 Helgi Magnússon opnar leikinn með þrist fyrir KR-inga.
– Demond Watt með glæsilega varið skot frá Ómari Sævars í Grindavíkurliðinu.
– Grindvíkingar vinna uppkastið og eiga fyrstu sókn leiksins.
Fyrir leik:
– Kunnuglegir tónar: „Og þeir skora“ er komið í gang – nú kætist gula stúkan.
– Eitt af myndböndum Egils Birgissonar er að rúlla hér í Röstinni…hann kann þetta strákurinn!
– Nú styttist í þetta, verið er að kynna liðin til leiks, það er sjálfur Davíð Arthur sem sér um míkrófóninn í kvöld en hann hefur bæði gert garðinn frægan með ÍG sem og úti á golfvelli. Hann lætur ekki þar staðar numið því að aflokinni kynningu vindur hann sér beint á ritaraborðið í Röstinni.
– Íslandsmeistaratitillinn er mættur í hús!
– Eins og Óskar Ófeigur blaðamaður á Fréttablaðinu ritaði á Vísir.is í dag þá á KR kost á því að verða aðeins annað liðið í íslenskum körfuknattleik til þess að hampa Íslandsmeistaratitlinum á heimavelli fráfarandi meistara en það gerðu Haukar fyrstir liða árið 1988 í Ljónagryfjunni gegn Njarðvík.
– Byrjunarliðin eru þau sömu og áður:
Grindavík: Lewis Clinch Jr., Ólafur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, Ómar Örn Sævarsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
KR: Pavel Ermolinskij, Martin Hermannsson, Darri Hilmarsson, Helgi Magnússon og Demond Watt Jr.
– Stúkan er smekkfull…nú eru 24 mínútur í leik.
– Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, hér er svo bein tölfræðilýsing og þá erum Morgunblaðið og Vísir einnig með beinar textalýsingar svo það ætti ekki neitt að fara fram hjá neinum í kvöld.
– Dómarar kvöldsins eru þeir Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson.