spot_img
HomeFréttirGrindavík Íslandsmeistari í þriðja sinn

Grindavík Íslandsmeistari í þriðja sinn

Grindvíkingar eru Íslandsmeistarar í þriðja sinn í sögu félagsins en liðið lagði Stjörnuna 79-74 í oddaleik liðanna í úrslitum Domino´s deildar karla. Þetta er annað árið í röð sem Grindavík verður Íslandsmeistari. Þá varð Sverrir Þór í kvöld fyrstur þjálfara til þess að gera öll þrjú Suðurnesjaliðin að Íslandsmeisturum í meistaraflokki, fyrst Keflavíkurkonur, svo Njarðvíkurkonur og nú Grindavíkurkarlar. Gulldrengurinn Sverrir lætur því að sér kveða enn einu sinni.
 
Aaron Broussard var svo valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar 2013 en hann gerði 25 stig í kvöld fyrir gula, tók 9 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal 4 boltum.
 
Grindvíkingar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn á heimavelli í kvöld, fyrir kvöldið hafði félagið fagnað þeim stóra úti í Keflavík 1996 og í Þorlákshöfn 2012.
 
Uppselt var á leikinn og löng röð fyrir utan Röstina í Grindavík um tveimur tímum fyrir leik. Garðbæingar kunnu vel við sig á upphafsmínútum leiksins og komust í 9-0 áður en heimamenn gerðu sín fyrstu stig en þau komu af vítalínunni hjá fyrirliðanum Þorleifi eftir fjögurra mínútna leik!
 
Grindvíkingar tóku vel við sér eftir magnaða byrjun gestanna, Zeglinski með tvo langdræga og gulir gerðu 20 stig gegn 6 frá Stjörnunni eftir að hafa lent 9-0 undir og leiddu því 20-16 eftir fyrsta leikhluta.
 
Garðbæingar lentu í smá hiksti í upphafi annars leikhluta og skoruðu ekki sín fyrstu stig eftir tveggja mínútna leik. Skömmu síðar meiddist Jarrid Frye eftir að hann lenti illa í þriggja stiga skoti. Skotið rataði rétta leið og Frey minnkaði muninn í 32-21 en lék ekki meira í leiknum.
 
Garðbæingar létu þó ekki stinga sig af í öðrum leikhluta þrátt fyrir fjarveru Frye en gulir leiddu engu að síður 41-33 í leikhléi. Sammy Zeglinski var með 14 stig og 3 fráköst hjá Grindavík í hálfleik en Jarrid Frye var með 9 stig hjá Stjörnunni. Frye var svo fluttur á sjúkrahús í hálfleik en það skýrist væntanlega á næstunni hverslags meiðsli er um að ræða.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Grindavík: Tveggja 47,4% – þriggja 37,5% og víti 71,4%
Stjarnan: Tveggja 34,6% – þriggja 27,3% og víti 85,7%
 
Garðbæingar mættu grimmir inn í síðari hálfleikinn, minnkuðu muninn í 45-41 eftir góða rispu frá Fannari fyrirliða og Marvini Valdimarssyni. Þó nokkur harka færðist í þriðja leikhlutann og það blés nokkuð í mót hjá Garðbæingum og Grindvíkingar náðu að halda gestunum í tíu stiga fjarlægð, staðan 62-52 fyrir Grindavík eftir 30 mínútna leik.
 
Brian Mills var ekki á því að leggjast niður og gefast upp því hann mætti með tvo stóra Stjörnuþrista strax í upphafi fjórða leikhluta og minnkaði muninn í 62-58. Marvin Valdimarsson átti einnig sterkar rispur og loks kom að því að Stjörnumenn jöfnuðu en það gerði Sæmundur Valdimarsson pollrólegur á vítalínunni er hann jafnaði 70-70 þegar um tvær mínútur lifðu leiks. Sæmundur lék í 15 mínútur í kvöld við erfiðar aðstæður og komst mjög vel frá sínu.
 
Grindvíkingar gerðu næstu sex stig leiksins, Broussard kom þeim í 76-70 með erfiðri körfu í Stjörnuteignum og 51 sekúnda eftir. Jafnvel ekki hér gafst Stjarnan upp heldur minnkuðu muninn í 76-74 en þar var Justin Shouse að verki, öll fjögur vítin niður, reynsla.
 
9,56 sekúndur eftir og að lokinni langri Grindavíkursókn var brotið á Aron Broussard, hann brenndi af fyrra vítinu en breytti stöðunni í 77-74. Justin Shouse fór yfir og tók erfitt þriggja stiga skot og freistaði þess að jafna leikinn en það gekk ekki. Justin vildi villu í lokaskotinu en varð ekki að ósk sinni. Gestirnir brutu á Broussard sem setti síðan niður bæði vítin og gulltryggði Íslandsmeistaratitilinn fyrir Grindavík annað árið í röð!
 
Mögnuð sería að baki og tíundi oddaleikur í sögu úrslitakeppninnar og sá sjöundi sem vinnst á heimavelli, aðeins þrír hafa unnist á útivelli.
 
Aaron Broussard fór fyrir Grindavík með 25 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Sammy Zeglinski bætti við 21 stigi, 6 fráköstum og 5 stoðsendingum og þá var Ísafjarðartröllið Sigurður Gunnar Þorsteinsso með 12 stig og 11 fráköst. Fjórir liðsmenn Stjörnunnar gerðu 10 stig eða meira í leiknum. Marvin Valdimarsson var með 17 stig og 9 fráköst og Justin Shouse gerði 14 stig, tók 4 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.
 
Grindavík-Stjarnan 79-74 (20-16, 21-17, 21-19, 17-22)
 
Grindavík: Aaron Broussard 25/9 fráköst/5 stoðsendingar, Samuel Zeglinski 21/6 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/11 fráköst/7 varin skot, Þorleifur Ólafsson 9/6 fráköst, Davíð Ingi Bustion 5, Jóhann Árni Ólafsson 4/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 3, Ryan Pettinella 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Jón Axel Guðmundsson 0, Daníel G. Guðmundsson 0.
 
Stjarnan: Marvin Valdimarsson 17/9 fráköst, Justin Shouse 14/4 fráköst/7 stoðsendingar, Brian Mills 12/11 fráköst, Jovan Zdravevski 10/7 fráköst, Jarrid Frye 9, Fannar Freyr Helgason 8/7 fráköst, Sæmundur Valdimarsson 4, Dagur Kár Jónsson 0, Kjartan Atli Kjartansson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Daði Lár Jónsson 0.
 
Umfjöllun og mynd/ [email protected][email protected]
 
  
Fréttir
- Auglýsing -