spot_img
HomeFréttirGrindavík Íslandsmeistari í 11. flokki karla

Grindavík Íslandsmeistari í 11. flokki karla

Grindvíkingar eru Íslandsmeistarar í 11. flokki karla eftir 63-68 sigur á KR í DHL Höllinni. Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Ákefð Grindvíkinga var einfaldlega meiri í fjórða leikhluta og að endingu var Jón Axel Guðmundsson valinn besti maður leiksins en hann gerði 28 stig, tók 13 fráköst og gaf 5 stoðsendingar í liði Grindavíkur. Hjá KR var Vilhjálmur Kári Jensson atkvæðamestur með 21 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
Heimamenn í KR voru sprækir á upphafsmínútum leiksins og komust í 7-2. Með hverri mínútunni færðust Grindvíkingar þó nærri og komust í 12-15 eftir þrist frá Magnúsi Má Ellertssyni en hann var líflegur í upphafi leiks. KR-ingar leiddu þó að loknum fyrsta leikhluta 18-17 þar sem Gunnar Ingi Harðarson hafði verið beittur hjá röndóttum með 8 stig í fyrsta leikhluta.
 
KR teygði vel á vörn Grindavíkur í fyrri hálfleik, voru að fá fín og opin skot í hornunum og settu þau oftar en ekki niður. Gulir hertu þó róðurinn í vörninni en komu þó ekki í veg fyrir að Vilhjálmur Kári næði forystunni 26-25 fyrir KR með þriggja stiga körfu. Liðin skiptust í raun á forystunni og liðsboltinn betri hjá KR-ingum á meðan gulir bundi mest af sínu trássi við Jón Axel Guðmundsson.
 
Illugi Steingrímsson fékk sína þriðju villu í liði KR þegar skammt var til hálfleiks en var þá kominn með tvö stig og 7 fráköst og hafði barist vel í liði KR-inga en hvíldi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Gunnar Ingi Harðarson átti tvö glæst tilþrif á varnarendanum fyrir KR undir lok fyrri hálfleiks, fyrst með varið skot og skömmu síðar tók hann ruðning á Grindvíkinga. Gulir létu þetta þó ekki aftra sér í því að leiða í hálfleik því Hilmir Kristjánsson setti niður þrist fyrir gestina og breytti stöðunni í 30-32 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
Jón Axel Guðmundsson var með 11 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar hjá Grindavík í hálfleik en Vilhjálmur Kári Jensson var með 14 stig og 4 fráköst í liði KR.
 
Gunnar Ingi Harðarson var hvergi banginn þegar hann skaut síðari hálfleik í gang með þrist fyrir KR sem komust í 33-32. Gunnar setti smá tón því Grindvíkingar tóku við keflinu og tveir þristar frá Jóni Axeli Guðmundssyni komu Grindavík í 38-46 og annar þeirra langt utan að úr dreifbýlinu. Hilmir Kristjánsson blandaði sér einnig í veisluna og kom Grindavík 44-50 með þrist. Þar við sat hjá gulum í þriðja leikhluta, Vilhjálmur Kári átti fínar rispur og barðist sem fyrr einkar vel í liði KR sem vann leikhlutann 19-18 og loksprettinn 5-0 en Grindvíkingar leiddu þó 49-50 fyrir fjórða og síðasta hluta.
 
Grindvíkingar byrjuðu fjórða leikhluta með 7-0 skvettu og settust þannig þægilega við stýrið á leiknum og staðan orðin 49-57. KR-ingar sættu sig alltof oft við að skjóta þriggja stiga körfum en Grindvíkingar höfðu vissulega gírað vel upp vörnina sína og heimamenn áttu í basli með að komast að henni. Friðrik Þjálfi setti lífsnauðsynlegan þrist fyrir KR og minnkaði muninn í 53-59 og Skúli Gunnarsson færði KR enn nær þegar hann minnkaði muninn í 58-61.
 
Hlutirnir gerðust hratt síðustu tvær mínútur leiksins og það sem rak kýrnar heim fyrir Grindvíkinga var sóknarfrákast þeirra þegar 46 sekúndur lifðu leiks, það sóknarfrákast vó þungt og gulir héldu út, lokatölur 63-68. Grindvíkingar eru því Íslandsmeistarar í 11. flokki karla 2013.
 
 
Umfjöllun og mynd/ [email protected]
 
  
Fréttir
- Auglýsing -