spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaGrindavík inn í landsleikjahlé við hlið Njarðvíkur í efsta sæti Bónus deildarinnar

Grindavík inn í landsleikjahlé við hlið Njarðvíkur í efsta sæti Bónus deildarinnar

Grindavík lagði KR á Meistaravöllum í kvöld í lokaleik sjöundu umferðar Bónus deildar kvenna, 68-85.

Eftir leikinn er Grindavík í 1.-2. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan KR er sæti neðar í 3.-4. sætinu með 10 stig líkt og Valur.

Fyrri hálfleikur leiks kvöldsins var jafn og spennandi þó oftar en ekki hafi það verið Grindavík sem var skrefinu á undan. Þær leiddu með 5 stigum eftir fyrsta fjórðung og með 9 stigum er liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks virðast gestirnir svo ætla klára leikinn, eru snöggar að koma forystu sinni í 14 stig og KR virðist ekki geta varist á neinn hátt. Þá nær KR að breyta varnarskipulagi sínu sem breytir leiknum aftur. Þær ná hægt og bítandi að vinna niður muninn, en Grindavík nær þó að hanga á 5 stiga forskoti inn í lokaleikhlutann.

Í þeim fjórða var eins og allt gengi upp fyrir Grindavík. Sóknarlega var nánast allt ofaní hjá þeim á meðan boltinn skrúfaðist oftar en ekki uppúr hringnum á sóknarhelmingi vallarins hjá KR. Undir lokin er leikurinn ekki spennandi. Grindavík heldur bilinu milli 10 og 15 stiga og vinna að lokum með 17, 68-85.

Fyrir Grindavík var Abby Beeman stigahæst með 35 stig og Ellen Nystrom bætti við 23 stigum.

Stigahæstar fyrir KR í leiknum voru Rebekka Rut Steingrímsdóttir með 21 stig og Molly Kaiser með 19 stig.

Leikurinn var sá síðasti fyrir tveggja vikna landsleikjahlé Bónus deildar kvenna, en næstu leikir á dagskrá eru 22. og 23. nóvember.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -