spot_img
HomeFréttirGrindavík í undanúrslit en þurftu að hafa fyrir hlutunum í Ljónagryfjunni

Grindavík í undanúrslit en þurftu að hafa fyrir hlutunum í Ljónagryfjunni

Deildarmeistarar Grindavíkur eru komnir í undanúrslit í Iceland Express deild karla eftir að hafa sópað Njarðvíkingum í sumarfrí 2-0. Liðin mættust í sínum öðrum leik í 8-liða úrslitum í Ljónagryfjunni í kvöld þar sem lokatölur voru 76-87 Grindavík í vil. Grindvíkingar stungu af í fjórða leikhluta þegar Þorleifur Ólafsson hrökk í gang og lét rigna yfir heimamenn. Elvar Már Friðriksson kvaddi frábært tímabil í liði Njarðvíkinga með 17 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar en þessi magnaði leikstjórnandi á vafalítið eftir að láta enn betur að sér kveða í náinni framtíð.
Grindvíkingar opnuðu með látum í kvöld og komust í 4-9 eftir þrist frá Jóhanni Árna Ólafssyni. Njarðvíkingar jöfnuðu sig um miðjan fyrsta leikhluta og náðu forystunni 18-15 með góðum varnarleik en Grindvíkingar leiddu 24-25 eftir fyrsta leikhluta þar sem Páll Axel Vilbergsson jarðaði teigskot við endalínuna þegar 11 sekúndur voru eftir af leikhlutanum.
 
Upp úr sauð í öðrum leikhluta þegar Ólafur Helgi Jónsson og Ómar Sævarsson stigu í vænginn, menn æstust en sluppu við tæknivíti. Cameron Echols og Jóhann Árni Ólafsson tóku einnig þátt í pústrunum en þetta blessaðist allt saman og ekki var smurt í neinar hnefasamlokur, það mátti þó ekki miklu muna. Grindvíkingum líkaði hinsvegar lætin og slitu sig strax frá eftir stimpingarnar, 32-38.
 
Njarðvíkingar létu hinsvegar ekki stinga sig af þó ,,kjötað" lið gestanna hafi kunnað vel við ryskingarnar tóku heimamenn á rás og náðu að jafna metin í 43-43 þegar Travis Holmes keyrði upp að körfunni og fékk villu að auki. Gestirnir úr Grindavík áttu þó lokaorðið og leiddu 43-45 í hálfleik.
 
Travis Holmes var með 12 stig hjá Njarðvík í hálfleik en þeir J´Nathan Bullock og Jóhann Árni Ólafsson voru báðir með 9 stig í Grindavíkurliðinu.
 
Nýting liðanna í hálfleik
UMFN: tveggja 53,5% – þriggja 20% – víti 100%
UMFG: tveggja 68,4% – þriggja 40% – víti 87,5%
 
Grindvíkingar gerðu fjögur fyrstu stigin í síðari hálfleik og þar á meðal var þungavigtartroðsla hjá J´Nathan Bullock svo karfan hristist og skalf. Páll Kristinsson kom Njarðvíkingum loks á blað í þriðja leikhluta eftir þriggja mínútna leik en það var Elvar Friðriksson sem klæddi sig í stóru stráka buxurnar og fór mikinn í leikhlutanum.
 
Elvar minnkaði fyrst muninn í 48-51 með þrist og var aftur á ferðinni þegar hann kom Njarðvík í 55-54 með annarri þriggja stiga körfu. Elvar var duglegur að keyra í bakið á Grindvíkingum og það gaf nokkrum sinnum vel. Maciej Baginski kom Njarðvík svo í 59-58 með þriggja stig körfu en Watson svaraði strax í sömu mynt á hinum endanum og liðin héldu svo inn í fjórða leikhluta í stöðunni 61-61 eftir að Travis Holmes hafði jafnað í lok þriðja með sterku gegnumbroti.
 
Ryan Pettinella fékk snemma sína fimmtu villu í Grindavíkurliðinu í fjórða leikhluta en það fékk ekki á gestina sem unnu leikhlutann 26-15 og leikinn 76-87. Njarðvíkingar reyndu fyrir sér í svæðisvörn og þá fæddust tveir þristar hjá Þorleifi Ólafssyni. Þorleifur rak svo smiðshöggið þegar rúm ein og hálf mínúta var til leiksloka er hann breytti stöðunni í 73-84 og vonir Njarðvíkinga um sigur endanlega slökktar.
 
Grindvíkingar eru komnir í undanúrslit eins og flestir bjuggust við, Njarðvíkingar létu deildarmeistarana hafa fyrir hlutunum í kvöld. Þetta tímabilið verður ungur Njarðvíkurhópurinn þó að láta sér lynda að fara í sumarfrí en það er óhætt að segja að með þessu áframhaldi er framtíðin klárlega þeirra en nútíðin er Grindvíkinga, ef þeir vilja það!
 
Heildarskor:
 
Njarðvík: Cameron Echols 19/8 fráköst, Travis Holmes 18/7 stoðsendingar, Elvar Már Friðriksson 17/8 fráköst/5 stoðsendingar, Páll Kristinsson 10/5 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 9, Ólafur Helgi Jónsson 3, Hjörtur Hrafn Einarsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Rúnar Ingi Erlingsson 0, Sigurður Dagur Sturluson 0, Styrmir Gauti Fjeldsted 0.
 
Grindavík: Þorleifur Ólafsson 17, Giordan Watson 17/5 fráköst/9 stoðsendingar, J’Nathan Bullock 13/7 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 13/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 11, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 10/10 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 2, Ólafur Ólafsson 2, Ryan Pettinella 2/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0, Ármann Vilbergsson 0.
 
Byrjunarliðin:
 
-Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Ólafur Helgi Jónsson, Travis Holmes, Páll Kristinsson og Cameron Echols.
-Grindavík: Giordan Watson, Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, J´Nathan Bullock og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Mynd/ Jóhann Árni Ólafsson frá Holtsgötu 19 sækir hér að körfu Njarðvíkinga í kvöld.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -