spot_img
HomeFréttirGrindavík hefndi ófaranna í DHL-Höllinni

Grindavík hefndi ófaranna í DHL-Höllinni

22:01
{mosimage}

(Griffin var sterkur að vanda í Grindavíkurliðinu með 29 stig í kvöld) 

Grindvíkingar komu í kvöld fram hefndum gegn KR með mikilvægum 76-87 sigri á Íslandsmeisturunum KR í Iceland Express deild karla. Grindavík hafði frumkvæðið allan leikinn í DHL-Höllinni og náðu þannig að kvitta fyrir ósigurinn gegn KR í 16 liða úrslitum Lýsingarbikarsins. Þeir Jonathan Griffin, Adam Darboe og Páll Axel Vilbergsson voru sterkir í Grindavíkurliðinu í kvöld og þá lék Helgi Jónas Guðfinnsson sinn fyrsta leik með gulum eftir langt hlé. Jeremiah Sola snéri aftur í liði KR og átti þokkalegan leik með 12 stig og 4 fráköst en hann á líkast til eftir að vinna sig betur inn í hópinn hjá KR. Frá þessu er greint á www.vf.is  

Grindavík hóf leikinn með látum og Páll Axel og Adam Darboe gerðu sex fyrstu stig leiksins. Upphaf leiksins gaf góð fyrirheit og svipaði til fyrri leikja liðanna í vetur. Gestirnir úr Grindavík keyrðu vel í bakið á KR og skoruðu fyrir vikið auðveldar körfur. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 17-26 Grindavík í vil þar sem KR-vörnin var fremur döpur. 

Nokkuð hægðist um í öðrum leikhluta og talsverður hiti færðist í leikmenn. Grindvíkingar höfðu þó frumkvæðið og staðan 25-31 þegar rúmar fjórar mínútur voru til hálfleiks. Annar leikhluti var slappur á báða bóga og þeir Helgi Magnússon, KR, og Páll Kristinsson, Grindavík, voru báðir komnir með 3 villur. Staðan í hálfleik var svo 34-42 Grindavík í vil og Páll Axel kominn með 14 stig og 6 fráköst en hjá KR var Avi Fogel með 12 stig.  

{mosimage}

Darri Hilmarsson kom grimmur til leiks fyrir KR í upphafi 3. leikhluta og KR var við það að jafna Grindavík að metum en þá náðu gestirnir að brúa bilið að nýju. KR skipti snemma í svæðisvörn og hélt henni út leikinn, hún kom ekki að sök og tókst Grindvíkingum vel að leysa úr vörn Íslandsmeistaranna. Staðan 50-60 fyrir lokaleikhlutann.  

Í fjórða leikhluta voru sóknartilburðir KR í mesta lagi vandræðalegir framan af og svæðisvörnin var ekki að hafa nægilegan hemil á KR. Í stöðunni 60-72 voru rétt rúmar fjórar mínútur til leiksloka þegar Brynjar Björnsson fær dæmt á sig tæknivíti fyrir að sparka í auglýsingaskilti á vellinum, það virkaði nokkuð táknrænt og gaf einhvern veginn vísbendingu um að Grindavíkursigur væri ekki í hættu. Það varð raunin og lokatölur 76-87 fyrir Grindavík. 

Jonathan Griffin gerði 29 stig í kvöld, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar og næstur honum í sterku liði Grindavíkur var danski landsliðsbakvörðurinn Adam Darboe með 20 stig og 6 stoðsendingar. Páll Axel Vilbergsson gerði 19 stig og tók 9 fráköst. Helgi Jónas náði ekki að skora í endurkomu sinni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir en hann skaut 6 þriggja stiga skotum sem öll geiguðu.  

Jeremiah Sola var þokkalegur en með tíð og tíma verður hann líkast til illur viðureignar. Hann setti 12 stig og tók 5 fráköst fyrir KR en stigahæstur var Avi Fogel með 20 stig og 8 fráköst. Joshua Helm var með 19 stig og 7 fráköst.  Heilt yfir litið var leikurinn ekki jafn fjörugur og fyrri viðureignir liðanna hafa verið í vetur og olli þ.a.l. smávægilegum vonbrigðum en Grindvíkingar taka stigin tvö fegins hendi sama hversu áhorfendavænn leikurinn var eða ekki. 

Tölfræði leiksins 

Gangur leiksins:

2-9, 19-17, 17-26
21-28, 25-31, 34-42
39-44, 46-58, 50-60
53-66, 60-72,76-87 

Frétt af www.vf.is  

{mosimage}

{mosimage}

(Igor Beljanski ver skot frá Joshua Helm)

{mosimage}

(Helgi Jónas er mættur til leiks)

{mosimage}

(Sola líka)

Fréttir
- Auglýsing -