spot_img
HomeFréttirGrindavík hafði sigur á grönnum sínum úr Keflavík

Grindavík hafði sigur á grönnum sínum úr Keflavík

Nýliðar Grindavíkur tóku á móti nágrönnum sínum úr Keflavík í HS Orku höllinnii í kvöld, en fyrir leikinn höfðu liðin mæst einu sinni áður í vetur, í Keflavík þar sem heimakonur unnu nokkuð þægilegan 20 stiga sigur. Grindvíkingar höfðu því harma að hefna og höfðu að lokum sigur eftir hörkuleik, lokatölur í Grindavík í kvöld 84-72.

Allur vindur úr seglum Grindavíkurskútunnar?

Leikurinn fór nokkuð jafnt af stað. Þegar 3 mínútur lifðu af fyrsta leikhluta var staðan 17-16 en á tveggja mínútna kafla settu Keflvíkingar þrjá þrista í röð og virtust ætla að kafsigla heimakonur. Höfðu einhverjir áhorfendur orð á því að þetta væri bara búið spil, Grindavík væri búið að leggja árar í bát. 

Beggja skauta byr

En það er ekki af ástæðulausu sem spekingarnir uppi í stúku sitja þar en ekki í þjálfarastólnum né standa sjálfir inni á vellinum. Leikmenn Grindavíkur létu engan bilbug á sér finna og settu 10 fyrstu stig 2. leikhluta og eftir það varð eiginlega ekki aftur snúið. Athygli vakti að þessar fyrstu mínútur var Grindavíkurliðið með báða erlendu leikmennina á bekknum og hinn ungi íslenski kjarni leiddi þetta áhlaup. Þrátt fyrir að þær Robbi og Edyta hafi endað lang stigahæstar sýndu heimastelpurnar hjá Grindavík mikla áræðni í kvöld og skiluðu drjúgum mínútum. 

Engin víti til varnaðar

Það segir kannski margt um þá áræðni sem Grindavík sýndi í seinni hálfleik samanborið við þann fyrri að öll víti liðsins, 21 talsins, komu í seinni hálfleik. Heimastúlkur fóru sum sé aldrei á vítalínuna í fyrri hálfleik, sem sést nú ekki oft í körfubolta.

Stærðin skiptir máli

Hin hávaxna Eygló Ómarsdóttir reyndist Grindvíkingum mjög erfið við að eiga í kvöld, þá sérstaklega í upphafi leiks. Keflvíkingar leituðu mikið að henni og hún skoraði nánast að vild. Svo fór smám saman að draga af henni en hún endaði 6/15 (40%) í skotum sem voru svo til öll nánast undir körfunni. Eygló, sem er aðeins tvítug að aldri, hlýtur að vera einn okkar allri efnilegasti leikmaður í miðherjastöðunni, og verður spennandi að fylgjast með hvernig hennar leikur þróast á næstu árum.

Stór þegar allt er undir

Það er stundum sagt að sumir leikmenn verði litlir í sér á stóra sviðinu þegar allt er undir. Það er svo sannarlega ekki hægt að segja um Robbi Ryan, leikmann Grindavíkur. Undir lok þriðja leikhluta missteig hún sig og haltraði útaf. Hún lét þriggja mínútna pásu duga og mætti svo aftur inn til að klára leikinn, bókstaflega. Hún setti 10 síðustu stig liðsins og þar af einn risastóran þrist þegar skotklukkan var að renna út. Robbi endaði með 31 stig, 13 fráköst, 6 stoðsendingar og heila 40 framlagspunkta.

Hin pólska Edyta Ewa Falenzcyk átti einnig mjög góðan leik hjá Grindavík í kvöld, ekki síst varnarmegin þar sem hún og Jenný Geirdal skiptust á að dekka hættulegustu sóknarmenn Keflavíkur.

Hjá Keflavík var Daniela Morillo í algjörum sérflokki í kvöld, skoraði 27 stig, tók 13 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Keflvíkingum skorti ógn frá fleiri leikmönnum í kvöld til að opna vörn Grindvíkinga. Það var t.d. ekkert að frétta fyrir utan þriggja, 4 körfur ofan í í 25 tilraunum.

Fallbeyging í fararheill

Það er ekki hægt að enda þessa umfjöllun öðruvísi en að benda íslenskum lýsendum á að Eygló er eins í öllum föllum nema eignarfalli. Eitthvað segir mér að við eigum eftir að heyra töluvert af Eygló Kristínu Óskarsdóttur næstu árin, en vonandi sem minnst af Eyglóu.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)

Fréttir
- Auglýsing -