spot_img
HomeFréttirGrindavík hafði betur gegn Snæfell og leikur til úrslita (umfjöllun)

Grindavík hafði betur gegn Snæfell og leikur til úrslita (umfjöllun)

11:33
{mosimage}
Damon Bailey keyrir að körfu Snæfellinga

Grindvíkingar mættu Snæfellingum í seinni leik undanúrslita Poweradebikarsins í gærkvöldi.  Leikurinn var mjög kaflaskiptur og höfðu bæðin liðin meira en 10 stiga forskot á einhverjum tímapunkti í leiknum.  Lokamínúturnar voru mjög spennandi og eins og í fyrri leik kvöldsins réðust úrslit kvöldsins á lokamínútunni.  Grindvíkingar höfðu þar betur og höfðu á endanum 3 stiga sigur, 71-74.  Stigahæstur hjá Grindavík var Damon Bailey með 24 stig og 10 fráköst en næstir voru Helgi Jónas Guðfinnsson með 14 stig og Brenton Birmingham með 11 stig. Hjá Snæfell var Nate Brown atkvæðamestur með 18 stig og 8 stoðsendingar en næstir voru Hlynur Bæringsson með 17 stig og Nikola Dzeverdanovic með 14 stig.

Snæfellingar mættu af miklum krafti í dag og áttu fyrstu 5 stig leiksins, þeir náðu mest 7 stiga forskoti, 11-4, þegar fjórar mínútur voru eftir en Grindavík gekk mjög brösulega að koma boltanum í körfuna.  Grindvíkingar fundu hins vegar fjölina sína þegar leið á leikhlutan og komust yfir í fyrsta skiptið í leiknum þegar leikurinn var rétt rúmlega hálfnaður, 11-12.  Grindvíkingar pressuðu Nate Brown stíft og skáru þannig ágætlega af skotklukku Snæfellinga sem virtust vera í vandræðum með að framkvæma hlutina á þeim hraða sem þeir sóttu.  Snæfellinga tóku svo leikhlé þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum en þá höfðu Grindvíkingar skorað 12 stig í röð, 11-16.  Snæfellingar mætti svo loksins til leiks af fullri alvöru þegar leikhlutanum var rétt að ljúka og jöfnuðu í 18-18 eftir 5 stig í röð frá Nate Brown. Grindvíkingar náðu þó yfirhöndinni áður en yfir lauk og höfðu eins stig forskot þegar flautað var til loka leikhutans, 20-21

Snæfellingar mættu mun sterkari til annars leikhluta og höfðu skorað 12 stig gegn aðeins þremur stigum Grindavíkur þegar leikhlutinn var hálfnaður.  Varnarleikur Snæfellingar var gífurlega sterkur og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Grindavíkur  að keyra að körfunni þá virtist það bara ekkert ganga.  Snæfellingar gengu því á lagið og hægt og rólega juku þeir við forskotið.  Þegar tvær mínútur voru eftir var munurinn kominn upp í 7 stig, 37-30.  Grindvíkingar voru þó ekki á því að hleypa þeim of langt frá sér en þeir náðu að minnka muninn niður í 4 stig áður en flutað var til hálfleiks, 38-34.  

Stigahæstir í hálfleik hjá Snæfell voru Hlynur Bæringsson og Nate Brown með 9 stig hvor en næstur var Jón Ólafur Jónsson með 7 stig.  Hjá Grindavík var Damon Bailey stigahæstur með 12 stig en næstir voru Helgi Jónas Guðfinnsson með 11 stig og Nikola Dzeverdanovic með 6 stig.  

{mosimage}

Páll Axel Vilbergsson mætti dýrvitlaus inn í seinni hálfleik eftir stigalausan fyrri hálfleik og þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum hafði hann skorað 6 stig og Grindavík komið yfir, 38-44.  Þetta forskot náði Grindavík að halda í en þeir höfðu þetta 4 til 6 stiga forskot þangað til á lokamínútum leikhlutans en þá virtust þeir hafa örlítið meiri kraft en Snæfellingar og höfðu náð 12 stiga forskoti þegar um 40 sekúndur voru eftir af leiknum, 46-58.  Snæfellingar áttu seinasta orðið í þriðja leikhluta og minnkuðu forskotið örlítið, 49-58.

Grinvíkingar gerðu rétt nóg til að halda forskotinu í fjórða leikhluta en liðin skiptust á að skora framan af leikhlutanum.  Þegar um fjórar mínútur voru eftir af leiknum tók Snæfell leikhlé í þeirri von að ná að nýta þau færi sem gáfust á annars mjög sterkri Grindavíkurvörninni.  Snæfellingum tókst þó að gera lokamínúturnar spennandi því þegar ein mínúta var eftir var munurinn kominn niður í 4 stig, 66-70.  Grindvíkingar tóku hins vegar sinn tíma í sínar sóknir og náðu tveimur sóknarfráköstum og eftir tæplega mínútu langa sókn lagði Brenton J. Birmingham boltan ofaní, 66-72 og sigurinn svo gott sem í höfn.  Snæfellingar minnkuðu þó muninn niður í 3 stig71-74, á lokasekúndunum en það dugði ekki til.  Grindvíkingar spila því gegn KR í úrslitum Poweradebikarsins.

Umfjöllun: Gísli Ólafsson
Myndir: Snorri Örn Arnaldsson

Fréttir
- Auglýsing -