Grindavík vann í kvöld þýðingarmikinn sigur á Stjörnunni í Iceland Express deild karla því nú eru liðin jöfn að stigum, bæði með 26 stig, en Grindvíkingar hafa betur innbyrðis. Lokatölur í Ásgarði voru 76-81 Grindavík í vil eftir spennandi lokasprett. Páll Axel Vilbergsson var atkvæðamestur í liði Grindavíkur í kvöld með 24 stig en Jovan Zdravevski gerði 22 stig í liði Stjörnunnar. Grindvíkingar hafa nú unnið fimm sigurleiki í röð í deildinni og til alls líklegir rétt eins og sex efstu lið deildarinnar.
Guðlaugur Eyjólfsson var ekki í búning hjá Grindvíkingum í kvöld en gulir virðast spila best þegar einhvern vantar í hópinn og því ráð að halda sig við þá bardagaáætlun, þó hún sé ekki af góðu komin.
Djordje Pantelic byrjaði vel í liði Stjörnunnar í kvöld og gerði fjögur fyrstu stig heimamanna og varði vel skot frá Darrell Flake á hinum endanum. Garðbæingar voru frískari og komust í 6-2 en gestirnir úr Grindavík jöfnuðu fljótt metin í 8-8 en upphafsleikhlutinn var samt í hægagangi. Baráttan var í lagi en sóknir liðanna stirðar og hitastig liðanna svipað og utandyra. Þegar nokkuð var liðið á fyrsta leikhluta komu baráttubræðurnir Þorleifur og Ólafur Ólafssynir inn af Grindavíkurbekknum og hleyptu nýju blóði í sína menn sem leiddu 15-16 eftir fyrsta leikhluta.
Kjartan Atli Kjartansson mundaði byssuna í tvígang fyrir Stjörnuna með skömmu millibili í öðrum leikhluta og kom heimamönnum í 25-18 og skömmu síðar í 28-21. Grindvíkingar reyndu fyrir sér í svæðisvörn sem batnaði nokkuð með hverri mínútu og vörn gestanna þéttist. Grindvíkingar virtust líklegir til að jafna metin fyrir hálfleik en Justin Shouse sem hafði hægt um sig í fyrri hálfleik lokaði fyrstu tveimur leikhlutunum með gegnumbroti og skoraði af harðfylgi og Stjarnan leiddi 36-32 í hálfleik.
Jovan var kominn með 16 stig í liði Stjörnunnar í leikhléi en hjá Grinda´vik voru þeir Ómar Sævarsson og Páll Axel Vilbergsson báðir með 8 stig.
Allur annar leikur var uppi á teningnum í síðari hálfleik, betri barátta og meiri spenna og bæði lið virtust snögglega átta sig á mikilvægi leiksins sé tekið mið af fremur rislitlum fyrri hálfleik. Þorleifur Ólafsson jafnaði metin í 50-50 þar sem hann splæsti í fimm stig í röð fyrir Grindavík. Justin Shouse vaknaði til lífsins í liði heimamanna og sótti vel á körfuna og Grindvíkingar héldu áfram í svæðisvörn sem nú var ekki jafn þétt og í öðrum leikhluta.
Grindvíkingar áttu svo síðustu sókn þriðja leikhluta, eða svo héldu flestir þangað til Þorleifur Ólafsson gaf á Brenton Birmingham sem missti boltann út af. Stjörnumenn voru líklegir til að nýta sér þessi byrjendamistök Grindavíkur en létu krók mæta bragði. Pantelic fékk dæmt skref á sig í næstu Stjörnusókn og yngriflokkaiðkendur sem voru viðstaddir leikinn öðluðust aukið sjálfstraust í körfuboltaiðkun sinni með þessum klaufalegu mistökum beggja liða. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 59-56 Stjörnunni í vil og naglbítur framundan.
Justin Shouse bauð upp á stóran þrist þegar hann kom Stjörnunni í 66-64 en næstu mínútur voru ískaldar þar sem liðin áttu bágt með að finna körfuna. Þorleifur Ólafsson reyndist þó þrautgóður á raunastund þegar hann kom Grindavík í 70-74 og ein og hálf mínúta til leiksloka.
Á lokasekúndum leiksins varð eitt sóknarfrákast gríðarmikilvægt en þar voru Grindvíkingar að verki og fundu skömmu síðar Ólaf Ólafsson sem keyrði upp endalínuna og skoraði fyrir gestina og breytti stöðunni í 72-76 og 35 sekúndur til leiksloka. Næstu sekúndur urðu vítaeltingaleikur hjá Stjörnunni og þegar 12 sekúndur lifði leiks hafði Þorleifur Ólafsson komið Grindavík í 76-79 og Stjörnumenn héldu í sókn.
Jovan fékk boltann og húrraði sér í átt að þriggja stiga línunni og reyndi illa valið og erfitt þriggja stiga skot sem geigaði þegar fjórar sekúndur lifðu leiks. Ótímabært skot og erfitt og eftirleikurinn auðveldur hjá Grindavík sem lönduðu 76-81 sigri í Ásgarði.
Páll Axel Vilbergsson var í kvöld stigahæstur hjá Grindavík með 24 stig en næstur honum kom Darrell Flake með 18 stig og 8 fráköst. Brenton Birmingham hafði hægt um sig í kvöld en hann lék í 35 mínútur og skoraði aðeins 5 stig og þar af 3 af vítalínunni.
Hjá Stjörnunni var Jovan Zdravevski með 22 stig en Justin Shouse kom honum næstur með 21 stig. Djordje Pantelic var illur viðureignar í teignum með 15 stig og 13 fráköst.
Hvorugt lið var að eiga toppleik í kvöld en þó var spennuleikur í boði. Athygli vakti sérstakur áhugi vissra stuðningsmanna liðanna á dómurum leiksins en sá áhugi var ekki af góðu sprottinn og í raun ættu bæði félög, Stjarnan og Grindavík og vafalaust fleiri, að múlbinda nokkra af hvössustu söngvurum sínum í munnsafnaðarkórnum.
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson.



