21:24
{mosimage}
(Petrúnella Skúladóttir var lífleg á lokasprettinum fyrir Grindavík)
Grindavíkurkonur gerðu góða ferð í Vodafonehöllina í kvöld þegar þær lögðu Val 58-61 í spennuleik í B-riðli Iceland Express deildar kvenna. Gestirnir úr Grindavík hrukku í gang á endasprettinum eftir að Valskonur höfðu leitt allan leikinn. Sigur hjá Val í kvöld hefði þýtt að Valskonur hefðu átt efsta sæti B-riðils en nú eru Valskonur með 18 stig og Grindavík 14 þegar sex stig eru enn eftir í pottinum. Allt stefndi í stórleik hjá Signýju Hermannsdóttur í liði Vals þegar hún setti 16 stig í fyrsta leikhluta en æðið rann heldur betur af henni og lauk Signý leik með 22 stig en hún var í talsverðum villuvandræðum í kvöld sem setti mark sitt á leik Vals.
Valskonur tóku snemma frumkvæðið og komust í 6-2 og síðar 22-12 þar sem Signý fór fremst í flokki og fengu Grindvíkingar ekkert við hana ráðið. Grindvíkingar voru að hitta illa úr skotum sínum gegn svæðisvörn Vals sem leiddu að loknum fyrsta leikhluta 26-16 eftir þriggja stiga körfu frá Berglindi Ingvarsdóttur sem kom baráttuglöð inn af bekknum. Signý gerði 16 stig í leikhlutanum og allt benti til þess að hún myndi hreinlega gera út um leikinn fyrir Val en annað kom á daginn.
Varnarleikur Grindavíkur var allt annar og betri í öðrum leikhluta og náðu Valskonur ekki að skora fyrr en tæpar fjórar mínútur voru liðnar. Þau tvö stig komu af vítalínunni eftir að Berglind Anna Magnúsdóttir fékk dæmda á sig tæknivillu fyrir mótmæli. Eftir þessi tvö vítaskot komust Valskonur aftur á bragðið og breyttu stöðunni í 32-21 en þá kom góður Grindavíkurkafli og náðu þær að minnka muninn í 30-30 en Valskonur áttu lokaorðið í fyrri hálfleik og leiddu 38-30. Signý Hermannsdóttir var með 16 stig í hálfleik og 3 villur hjá Val en í liði Grindavíkur var Ingibjörg Jakobsdóttir með 9 stig.
Framan af síðari hálfleik gerðu Valskonur vel að halda Grindavík fjarri en þegar Signý Hermannsdóttir fékk sína fjórðu villu þegar aðeins rúmar þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta varð hún frá að víkja og kom ekki aftur inn á völlinn fyrr en um fimm mínútur voru til leiksloka. Grindvíkingar náðu að rétta sinn hlut smávegis og Valur leiddi 48-41.
{mosimage}
(Jovana Lilja að gera það sem hún gerir best, verjast!)
Bernadett Toplak átti fínar rispur fyrir Val í fjarveru Signýjar en það dugði skammt og ljóst að fjarvera Signýjar opnaði Valsteiginn betur fyrir Grindavík. Petrúnella Skúladóttir setti niður langþráða þriggja stiga körfu þegar sex og hálf mínúta var til leiksloka og minnkaði muninn í 50-46. Skömmu síðar kom Signý aftur inn á völlinn en um það leyti jafnaði Ólöf Helga Pálsdóttir metin í 54-54 með þriggja stiga körfu og nú voru Grindvíkingar farnir að hitta úr skotum sínum en framan af leik hafði nýting liðsins verið afleit.
Þegar ein mínúta var til leiksloka leiddu Grindvíkingar 58-59. Liðunum tókst ekki að skora og mikill taugatitringur var í gangi. Þegar 18 sekúndur voru til leiksloka sóttu Grindvíkingar inn í Valsteiginn en Signý varði þar skottilraunina og í frákastinu slóu gestirnir boltann af velli. Grindavík tók leikhlé og Valur átti innkast á miðjum velli. Svo illa vildi til fyrir Val að þær töpuðu boltanum og brutu strax á Grindvíkingum. Þær voru langt frá bónusskotunum og urðu því að brjóta í tvígang til viðbótar á gestum sínum uns þær gátu farið á vítalínuna. Brotið var á Írisi Sverrisdóttur sem var öryggið uppmálað á línunni og setti niður bæði vítin og staðan 58-61 þegar 3,8 sekúndur voru eftir.
Valur tók leikhlé og urðu að setja niður þriggja stiga skot til að knýja fram framlengingu en það skot rataði ekki einu sinni á hringinn og Grindvíkingar fögnuðu þeim möguleika vel að geta enn náð sér í efsta sæti riðilsins og þannig leikið á móti liðinu í 4. sæti í A-riðli þegar kemur að úrslitakeppninni. Það lið sem hafnar í 2. sæti leikur á móti liðinu í 3. sæti í A-riðli en tvö efstu sæti sitja hjá.
Signý Hermannsdóttir lauk leik með 22 stig, 12 fráköst og 7 varin skot en næst henni var Þórunn Bjarnadóttir með 11 stig, 11 fráköst, 8 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Petrúnella Skúladóttir tók vel við sér í síðari hálfleik í liði Grindavíkur og lauk leik með 18 stig og 6 fráköst. Henni næst í sigurliði gestanna var Ólöf Helga Pálsdóttir með 14 stig og 6 fráköst.
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



