Grindavík er bikarmeistari í 9. flokki stúlkna eftir framlengda spennuviðureign gegn Keflavík. Lokatölur voru 50-57 Grindavík í vil þar sem Hrund Skúladóttir fór hamförum og var að sjálfsögðu valin Lykil-maður leiksins með 32 stig og 4 fráköst. Grindavík varð þar með fyrsta liðið í þessum árgangi til þess að hafa sigur á Keflavík…frá því flokkurinn hóf að taka þátt í mótum á vegum KKÍ!
Keflvíkingar byrjuðu betur í Laugardalshöll með Eydísi Evu Þórisdóttur í góðum skotgír og Keflavík leiddi 13-9 eftir upphafsleikhlutann þar sem Eydís setti niður tvo þrista. Eins og tölurnar gefa til kynna var nýtingin ekkert afbragð en liðin voru þó að fara sér fremur varfærnislega.
Grindvíkingar voru að glíma við hið ósýnilega lok ofan á körfunni og ekki bætti úr skák að Keflvíkingar voru að leika flotta vörn. Hrund Skúladóttir hélt Grindavík á floti með vel tímasettum þristum sem vildu niður en Keflvíkingar voru ávalt feti framar. Keflvíkingar leiddu 23-15 í hálfleik þar sem Kamilla Sól Viktorsdóttir var með 8 stig og 3 fráköst en hjá Grindavík var Hrund Skúladóttir með 8 stig.
Svæðisvarnirnar voru á sínum stað í síðari hálfleik en Keflvíkingar voru ekki lengi að prjóna sig í gegn og breyta stöðunni fljótt í 32-18 og héldu þá flestir að Keflavík væri þarna komið með góðan grunn að sigri. Gular Grindavíkurstelpur neituðu hinsvegar að láta skilja sig eftir þó Eydís Eva væri enn að setja þrista fyrir Keflavík þá var Hrund Skúladóttir ekki síður ófeimin við að skjóta og Grindvíkingar náðu að minnka muninn í 38-32 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og það gerðu þeir eftir flautuþrist frá Hrund, glæsitilþrif.
Lok var komið á báðar körfurnar í fjórða leikhluta en Keflvíkingar héldu lengi vel 42-38 forystu og komust svo í 44-40 þegar Eydís Eva setti niður tvö pressuvíti fyrir Keflavík þegar rúm mínúta var til leiksloka. Grindvíkingar náðu að minnka síðan muninn í 45-42 eftir glæsta fléttu sem lauk með hraðaupphlaupskörfu hjá Angelu Björgu Steingrímsdóttur.
Birna Valgerður Benónýsdóttir, miðherji Keflavíkur, fékk síðan sína fimmtu villu fyrir sóknarbrot og munaði um minna fyrir Keflvíkinga enda kvaddi Birna leikinn með 14 fráköst. Grindvíkingar þurftu í lokasókn sinni á þriggja stiga körfu að halda og þá er gott að hafa keypt neyðarkall eins og Hrund. Hún tók jafnvel erfitt þriggja stiga skot og hefði mögulega átt að senda boltann frekar en viti menn! Hann söng í körfunni og Grindavík búið að jafna 45-45 þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum. Lokasókn Keflavíkur fuðraði út í sandinn og því þurfti að framlengja í stöðunni 45-45.
Keflvíkingar voru fyrri til að skora í framlengingunni en þar var Eydís Eva að verki, 47-45, afbragðs frammistaða hjá Eydísi í dag. En Grindavík lét deigan ekki síga, neyðarkallinn Hrund var sem fyrr hárbeitt og kom Grindavík í 50-53 úr erfiðu færi. Keflvíkingar stóðust ekki prófið á lokasprettinum og Grindavík sigldi í land 50-57 sigri og fögnuðurinn var ósvikinn í leikslok hjá gulum.
Hrund Skúladóttir – Lykil-leikmaður leiksins
.jpg)
Myndir/ [email protected] – Á efri myndinni vantar ekki geðshræringuna í hóp Grindavíkur sem vann sinn fyrsta sigur á Keflavík í þessum árgangi. Á neðri myndinni er Hrund Skúladóttir.



