Tindastóll og Grindavík mættust í kvöld í annað sinn á einni viku. Nú var leikið í Subway bikanum í Síkinu á Sauðárkróki. Grindavík var búið að endurheimta Brenton, Þorleif og Arnar Frey í hópinn hjá sér, þó Arnar léki ekkert að þessu sinni. Stólarnir tefldu fram mjög svipuðu liði og tapaði fyrir Njarðvík á fimmtudag.
Tindastóll komst í 6 – 0 áður en Grindavík komst á blað en þá skoruðu þeir níu stig í röð. Þeir héldu síðan forystunni út fyrsta leikhluta og náðu mest 7 stiga forskoti, en Tindastóll minnkaði það í fjögur stig fyrir lok hans. Staðan að honum loknum var 20 – 24. Ólafur og Darrell voru sprækir fyrir Grindavík og hvor kominn með 8 stig. Hjá Stólunum voru Helgi Rafn og Friðrik Hreinsson með 5 stig hvor.
Í öðrum leikhluta hélst munurinn svipaður framan af og þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks var staðan 32 – 37. Þá hrökk Ólafur Ólafsson í gang fyrir gestina, setti niður tvo þrista og Guðlaugur bætti við einum ásamt víti frá Ómari. Munurinn orðin 15 stig og útlitið farið að dökkna hjá Stólunum. Þeir héldu þó áfram að berjast og voru búnir að ná muninum niður í 8 stig, en þristur frá Darrell Flake úr síðustu sókn hálfleiksins kom honum í ellefu stig. Staðan 41 – 52 í hálfleik. Allt annað var að sjá til heimamanna frá síðasta leik, þeir börðust betur og virtust hafa meira sjálfstraust. Þeir voru þó nokkuð óheppnir með skot sín í fyrri hálfleik og rúlluðu mörg af körfunni í stað þess að fara niður. Grindavík var að hitta nokkuð vel og menn að skipta stigunum á milli sín.
Grindavík hélt Stólunum frá sér mestan hluta þriðja leikhluta og eftir sex mínútur af honum var staðan 51 – 65. Þá fóru Stólarnir að minnka muninn smátt og smátt með góðum stuðningi áhorfenda. Þegar mínúta var eftir af þriðja leikhluta munaði átta stigum. Ómar skoraði þá úr tveimur vítum fyrir Grindavík, en Axel svaraði fyrir heimamenn. Gestirnir misstu svo boltann þegar nokkrar sekúndur voru eftir, en þær dugðu Helga Frey til að drippla fram að miðju og skjóta þaðan um leið og flautan gall. Boltinn söng í netinu við mikið fögnuð áhorfenda og annarra leikmanna Tindastóls. Þeir fóru því með stöðuna 68 – 73 inn í fjórða leikhluta og sáu fram á það að þeir áttu enn möguleika.
Grindavík var þó ekki á því að leyfa heimamönnum að nálgast sig meir. Þeir skoruðu fyrstu fimm stig síðasta leikhluta og munurinn aftur orðinn 10 stig. Þrátt fyrir góðar tilraunir náðu Stólarnir aldrei að ógna gestunum verulega eftir þetta. Bilið var milli 7 – 11 stig til leiksloka og á endanum munaði tíu stigum á liðunum. Grindavík vann 96 – 86. Þeir keyrðu á aðeins 7 mönnum í kvöld og áttu flestir þeirra ágætis leik. Darrel Flake var með 21 stig og átta fráköst. Næstur honum kom Páll Axel með 20 stig. Þá var Ómar Sævarsson mjög öflugur með 13 stig og 18 fráköst. Stigahæstur Tindastóls var Kenney Boyd með 18 stig og var hann mjög öflugur á köflum undir körfunni bæði varnar og sóknarlega. Svavar var næst stigahæstur með 17 stig og síðan kom Helgi Freyr með 13. Tindastólsmenn lögðu sig allan fram í kvöld og ef menn halda áfram á svipaðri braut er framhaldið bjartara en tveir fyrstu leikir ársins gáfu til kynna. Sigmar Logi átti góða innkomu í fyrri hálfleik og fleiri komu með góða baráttu inn af bekknum.
Tindastóll: Kenney 18, Svavar 17, Helgi Freyr 13, Michael 11, Friðrik 7, Helgi Rafn 7, Sigmar Logi 5, Axel 4 og Sveinbjörn 4.
Grindavík: Darrell 21, Páll Axel 20, Þorleifur 15, Ólafur 13, Ómar 13, Brenton 10 og Guðlaugur 4.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson og skiluðu góðum leik.
Áhorfendur: 202
Texti: Jóhann Sigmarsson.
Mynd: Hjalti Árnason



