spot_img
HomeFréttirGrindavík 83 - 74 Stjarnan: Grindavík 1-0 Stjarnan

Grindavík 83 – 74 Stjarnan: Grindavík 1-0 Stjarnan

Innan skamms hefst fyrsti leikur Grindavíkur og Stjörnunnar í fjögurra liða úrslitum Iceland Express deildarinnar.  Stjörnumenn slóu út Kelfvíkinga í eftirminnilegum oddaleik á meðan Grindavík fór nokkuð auðveldlega með nágranna sína í Njarðvík.  Leikurinn hefst á slaginu 19:15 og hér munum við segja frá helstu atburðum leiksins.  
20:41 – Stuðningsmenn Grindavíkur standa á fætur og fagna sigri í fyrsta leik seríunnar.  83-74 eru lokatölur leiksins og heimamenn fagna vel.  
 
20:40 – Stjarnan sendir Grindavík á línuna í hvert skipti sem þeir voga sér yfir miðjulínu.  Leikurinn er í þeirra höndum þegar aðeins 40 sekúndur eru eftir og munurinn er 9 stig, 83-74. 
 
20:38 – Grindvíkingar sjá sóma sinn í að ræða við ákveðna aðila í stúkunni sem hafa sýnt dómurum leiksins óþarfa dónaskap og ókurteisi.  Gott og nauðsynlegt framtak hjá forsvarsmönnum Grindavíkur. 
 
20:37 – Hlutirnir eru ekki lengi að gerast hérna en forskot Grindavíkur stendur í 7 stigum þegar Teitur Örlygsson tekur leikhlé fyrir Stjörnuna og ein mínúta og 8 sekúndur eftir af leiknum, 81-74. 
 
20:34 – Það falla ekki allir dómarnir í kramið á áhorfendum og menn láta vel í sér heyra. Tvær og hálf mínúta eftir, 76-70, og Grindavík brunar í sókn. 
 
20:33 –  þrjár mínútur eftir og munurinn kominn í fjögur stig, 74-70 .  Ég vona að enginn hafi haldið að leikurinn væri búinn.  
 
20:31  – Jovan Zdravevski herrar mínir og frúr.  Hann er að taka stóru skotin fyrir Stjörnuna og skilar sínu hlutverki á hinum enda vallarins líka.  Setur stóran þrist og minnkar muninn niður í 6 stig, 74-68.  
 
20:27 – Stjarnan er ekki tilbúin að gefa neitt eftir.  Þeir minnka muninn niður í 8 stig og Keith Cothran á eftir að fara á línuna þegar Helgi Jónas tekur leikhlé fyrir Grindavík, 72- 64, og aðeins fimm mínútur eftir af leiknum. 
 
20:23 – J’Nathan Bullock skólar Jovan í því hvernig á að senda mann í loftið og setur svo auðvelt skot af baseline.  Grindvíkingar eru komnir í 11 stiga forskot, 72- 59, það stærsta í leiknum hingað til og Teitur tekur leikhlé fyrir Stjörnuna.  Stuðningsmenn og leikmenn Grindavíkur fagna eins og sigurinn sé kominn í hús. 
 
20:22 – Grindavík skorar fyrstu fjögur stig leikhlutans áður en Jovan Zdravevski setur niður þrist og munurinn því sjö stig, 66-59 . 
 
20:18 – Ryan Pattinella á seinusta stig þriðja leikhluta af vítalínunni, forskot Grindavíkur stendur í 6 stigum og aðeins 10 mínútur eftir af leiknum, 62-56. 
 
20:16 – Ólafur Ólafsson varði skot frá Justin Shouse við mikinn fögnuð áhorfenda.  Stemmingin er öll hjá Grindavík sem leiðir með 7 stigum, 61-54.  
 
20:11 – Grindavík tekur leikhlé, Helgi Jónas er augljóslega ekki sáttur með sína menn sem leiða þó með fimm stigum og hafa aðeins fengið á sig 52 stig á 28 mínútum.  Þeir þó að sama skapi aðeins skorað 57 stig sem er ekki mikið fyrir stórskotalið á borð við Grindavík.  
 
20:10 – Þegar þrjár mínútur eru eftir af þriðja leikhluta leiðir Grindavík með 5 stigum, 55-50.  Þetta verður seint kallaður leikur sóknarleiksins. 
 
20:05 – Það er sama hverju Grindvíkingar henda í andlitið á gestunum, þeir gefa ekkert eftir.  Fannar henti í flottan þrist og Keith Cothran splæsti í sniðskot og víti með því í næstu sókn, það munar aðeins þremur stigum á liðunu, 51-48. 
 
20:02 – Justin Shouse lék sama leik á hinum enda vallarins og fékk sína þriðju villu, önnur í leiknum þar sem hann reynir að eiga við tröllið J’Nathan Bullock.  45-40 . 
 
20:01 – Sigurður Þorsteinsson var fljótur að næla sér í sína þriðju villu í upphafi seinni hálfleiks en Grindavík hafði þó endurheimt forskot sitt í leiknum 43-37.  
 
19:50 – Grindvíkingar voru ekki lengi í klefanum í hálfleik og leika sér að skjóta frá miðju.  Þeir eru líklega nokkuð ánægður með gang mála.  
 
19:47 – Stigahæstur í liði Grindavíkur í hálfleik er J’Nathan Bullock með 13 stig og 4 fráköst en næstu menn eru Páll Axel Vilbergsson og Sigurður Þorsteinsson með 5 stig hvor.
Í liði Stjörnunnar er það Justin Shouse sem er stigahæstur með 9 stig og 4 stoðsendingar en Keith Cothran er hefur einnig skorað 9 stig og Renato Lindmets er næstur með 8 stig.  
 
19:45 – Stjarnan nær að minnka muninn niður í 3 stig áður en flautað er til hálfleiks.  38-35.  Giordan Watson ætlaði að keyra niður klukkuna og taka seinasta skot leiksins en Renato Lindmets stal boltanum af Grindavík þegar 4 sekúndur voru eftir, sendi boltan yfir völlinn en skotið geigaði.  
 
19:40 –  Justin Shouse var ekki lengi að kippa því í liðinn.  Hann saumar sig í gegnum Grindavíkurvörnina í fyrstu sókn eftir leikhlé og leggur boltan fallega ofaní, 33-28 . 
 
19:38 –  Stjarnan tekur leikhlé, staðan er enn 33-26.  Ekkert hefur verið skorað í tæpar 2 mínútur og ekki hefur vantað skotin.  
 
19:36 – Liðin skiptast á að skora og munurinn hefur verið í kringum 7 stig allan leikhlutan.  Hvorugt liðanna  er að finna réttu skotin þessa stundina.  33-26. 
 
19:31 – Skotin eru ekki að detta með gestunum þessa stundina sem hafa þó fengið næg tækifæri til þess að minnka muninn.  29-22 þegar þrjár mínútur eru liðnar af öðrum. 
 
19:29 – Justin Shouse er því kominn með tvær villur og Dagur Kári Jónsson tekur því við í leikstjórnunarstöðunni þegar liðin hefja leik í öðrum leikhluta.  
 
19:27 – Sterkur leikur Grindvíkinga fer ekki vel í gestina því Justin Shouse fær  tæknivillu fyrir að reyna að tefja fyrir Grindvíkingum á lokasekúndunum .  Grindavík leiðir því með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta, 25-18.  
 
19:25 – Segðu það sem þú villt um vöðvatröllið Ryan Pattinella, hann var rétt í þessu að loka all hressilega á Keith Cothran sem ætlaði upp í sniðskot.  Ryan sendi boltan til baka í Keith og boltinn fór útaf.  
 
19:23 – Það hlaut að koma að því, opnar fyrir flóðgáttirnar  og Stjarnan setur tvo þrista á skömmum tíma, 15-11.  
 
19:20 – Grindvíkingar leiða 13-5 og það eru fjórar mínútur eftir af fyrsta leikhluta.  Heimamenn eru algjörlega búnir að loka á sóknarleik Stjörnunnar.  
 
19:17 – Eftir erfiðar fyrstu mínútur hjá báðum liðum eru Grindvíkingar komnir á skrið, hafa skorað 8 stig í röð og eru komnir í 9-3.  Varnarvinna Grindvíkinga er til fyrirmyndar og Stjarnan hefur ekki ennþá fengið það sem kallast gæti auðvelt skot.  
 
19:13 – Sigurður Þorsteinsson setur fyrsta stig leiksins af vítalínunni, Keith Cothran svaraði um hæl fyrir Stjörnuna, 1-3. 
 
19:08 – Það er greinilegt að Grindvíkingar eru vel stemmdir fyrir þennan leik en þeir létu vel í sér heyra þegar liðið var kynnt til leiks.  Það er einnig töluverður fjöldi af stuðningsmönnum Stjörnunnar í húsinu og það á eflaust bara eftir að bætast í.
 
19:05 – Byrjunarliðin eru klár:  hjá Grindavík byrja Giordan Watson, Jóhann Ólafsson, J’Nathan Bullock, Þorleifur Ólafsson og Sigurður Þorsteinsson.  
Stjarnan: Marvin Valdimarsson, Keith Cothran, Renato Lindmets, Justin Shouse og Fannar Helgason.  
 
 19:00 – Liðin gera sig tilbúin fyrir átökin og pallarnir fara smám saman að fyllast af áhorfendum.  Kristinn Óskarsson virðist vera búinn að jafna sig eftir æsispennandi lokamínútur í leik KR og Þórs Þ. í gærkvöldi því hann er byrjaður að hita sig upp ásamt Sigmundi M. Herbertssyni sem munu dæma leik kvöldsins. 
 
Fréttir
- Auglýsing -