spot_img

Grindavík 2 – ÍR 0

Í gær áttust við Grindavík og ÍR í toppslag í 1. deild kvenna. ÍR og Njarðvík voru fyrir leikinn jöfn að stigum í 1.-2. sæti deildarinnar og Grindavík skammt á eftir í 3. sæti. Búast má við því að þessi þrjú lið muni gera hörðustu atlöguna að sæti í efstu deild að ári. Nokkuð var um forföll hjá báðum liðum en hjá Grindavík vantaði Theu Lucic Jónsdóttur og hjá ÍR vantaði Kristrúnu Sigurjónsdóttur en báðar hafa verið í stóru hlutverki hjá sínum liðum í vetur.

Það var mikill covid-bragur á 1. leikhluta og hugsanlega stress í leikmönnum nú þegar úrslitakeppnin nálgast en þegar 5 mínútur voru búnar að leiknum var ÍR búið að tapa sex boltum og Grindavík þremur ásamt því að bæði lið voru að klikka á góðum skotum nálægt körfunni. Baráttan var til staðar hjá báðum liðum og það var því eingöngu spurning um hvort liðið myndi ná að spila sig í gegnum þennan slæma kafla. Það var síðan fljótt ljóst að það var Grindavík. Þrátt fyrir að Grindavík hafi náð mest 17 stiga forustu þá var ÍR alltaf að berjast og náðu reglulega að minnka muninn í 2-4 stig en samt var maður alltaf með á tilfinningunni að þær ættu ekki möguleika á að stela sigri. Niðurstaðan var því sú að Grindavík náði í nokkuð öruggan sigur þar sem þær unnu hvern einasta leikhluta  og endaðu með 14 stiga sigri Grindavíkur 74-60. Grindavíkurstúlkur fylgdi því eftir góðum sigri Grindavíkurdrengja á ÍR síðasta fimmtudag. 

Munurinn á liðunum var sá að Grindavík spilaði frábæra liðsvörn þannig að jafnvel þótt að ÍR-stelpur hafi oft geta komist frá hjá sínum manni þá var alltaf hjálparvörnin mætt til staðar. Á sama tíma kastaði ÍR frá sér boltanum trekk í trekk og enduðu með 25 tapaða bolta sem Grindavík nýtti sér vel. Einnig var sóknarleikur Grindavíkur að skila sér í auðveldum körfum og meðan ÍR þurfti að hafa mikið fyrir hverju einasta stigi.

Hekla Eik Nökkvadóttir átti enn einn stórleikinn fyrir Grindavík og endaði með 27 stig, 8 stoðsendingar, 6 stolna og 5 fráköst. Þegar Jannon Otto, erlendur leikmaður Grindavíkur, settist á bekkinn með 3 villur tók Hekla yfir sóknarleik Grindavíkur og var engu síðri en erlendir leikmenn í 1. deild kvenna. Natalía Lucic Jónsdóttir átti einnig flottan leik og snögghitnaði í 4ja leikhluta og setti þar 9 stig af 16 sem hún skoraði í leiknum, en hún var einnig með  7 fráköst og 5 stoðsendingar. Jannon var með 17 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar.

Flestir lykilleikmenn ÍR hafa átt betri dag en Margrét Blöndal endaði stigahæst með 13 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar en var einnig með 7 tapaða bolta. Næst henni var Aníka Linda Hjálmarsdóttir með 12 stig. Arndís Þóra Þórisdóttir hitti ekki vel í leiknum en var engu að síður með 9 fráköst og 10 stoðsendingar. Það sem stóð upp úr hjá ÍR var þó sterk innkoma af bekknum en Sólrún tók góða syrpu og skoraði 7 stig í röð til að koma ÍR aftur inn í leikinn um miðjan 3ja leikhluta og sama má segja um Kristínu Rósu Sigurðardóttur og Birnu Eiríksdóttur en í upphafi 4ja leikhluta settu þær saman 8 stig og náðu að minnka muninn í 2 stig.   

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Bryndís Gunnlaugsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -