spot_img
HomeFréttirGrimmdina vantaði í íslensku stelpurnar

Grimmdina vantaði í íslensku stelpurnar

09:09
{mosimage}

 

(Hafrún Hálfdánardóttir var með 9 stig og 9 fráköst í dag) 

 

U 18 ára landslið kvenna mátti sætta sig við 53-63 ósigur gegn Norðmönnum í fyrsta leik dagsins á Norðurlandamóti unglinga í Solna í Svíþjóð. Íslenska liðið leiddi allan leikinn uns 7 mínútur voru eftir af leiknum en þá komust Norðmenn yfir í fyrsta sinn og höfðu að lokum sigur. Taugarnar voru þandar og Íslendingar lentu í stökustu vandræðum þegar miðherjarnir Ragna Margrét og Hafrún fengu fimm villur. Ingibjörg Jakobsdóttir var stigahæst í íslenska liðinu í dag með 18 stig.

 

Ísland fór vel af stað og komst í 7-1 en Norðmenn voru aldrei fjarri og lauk fyrsta leikhluta í stöðunni 18-16 Íslandi í vil. Í öðrum leikhluta tóku íslensku stelpurnar forystuna og með góðum þrist frá Grindvíkingnum Ingibjörg Jakobsdóttur var staðan orðin 22-18 fyrir Ísland. Hafrún Hálfdánardóttir kom Íslendingum svo í 10 stiga forskot með körfu úr teignum og staðan orðin 33-23 en staðan í leikhlé var 34-25.

 

Framan af þriðja leikhluta höfðu Íslendingar undirtökin en eftir því sem á leið klóruðu Norðmenn sig inn í leikinn og var staðan 46-42 fyrir Ísland fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

 

Snemma í fjórða leikhluta náðu Norðmenn að jafna og báðar þær Ragna Margrét og Hafrún fengu sína fimmtu villu. Lilja Sigmarsdóttir tók þá stöðu miðherja í liðinu og áttu Íslendingar í vök að verjast í teignum en Lilja skilaði sínu hlutverki vel. Norðmenn voru svo einfaldlega grimmari. Í stöðunni 50-55 Norðmönnum í vil brenndu Íslendingar af fjórum vítaskotum í röð og Norðmenn þökkuðu fyrir sig með því að vinna leikinn með 10 stiga mun, 53-63.

 

Svekkjandi ósigur og sá þriðji í röðinni hjá íslensku stelpunum sem freista þess á morgun að finna sinn fyrsta sigur í Solnahallen.

 

{mosimage}

(Ingibjörg Jakobsdóttir var stigahæst hjá Íslandi þriðja leikinn í röð)

 

Stigaskor Íslands gegn Norðmönnum:

 

Ingibjörg Jakobsdóttir 18

Hafrún Hálfdánardóttir 9

Ragna Margrét Brynjarsdóttir 9/ 13 fráköst

Íris Sverrisdóttir 6

Helena Hólm 5

Bryndís Hanna Hreinsdóttir 3

Gunnhildur Gunnarsdóttir 2

Kristín Fjóla Reynisdóttir 1

 

[email protected]

 

Myndir: Snorri Örn Arnaldsson

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -