Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þessa leiks fyrir bæði lið en áður en blásið var til leiks voru KR-konur á botninum ásamt Blikum með 2 stig en Hamar sæti ofar og 2 stigum betur. Það var því vitað að allt myndi verða lagt undir í kvöld og hiti í húsinu. Mikil stemning var í DHL-höllinni er mætt var á svæðið. Blálituð blikkandi ljós á bílastæðinu gerði það að verkum að undirritaður hélt að Hamarsliðið hefði komið í lögreglufylgd en svo reyndist ekki vera heldur dúndurmögnuð jólatréssala á vegum vaskra KR-inga. Vönduð tré þar á ferðinni.
Hvað sem því líður þá er skemmst frá því að segja að eitt lið mætti til leiks í Frostaskjólið í kvöld og það voru heimamenn. Ljóst er að dagsskipunin hjá Finni þjálfara KR var greinilega að berjast til síðasta blóðdropa á meðan Hamarskonur hafa sennilegast haldið að leikurinn væri ennþá frestaður og þær þyrftu ekki að spila hann.
KR byrjuðu leikinn af miklum krafti. Pressa var frá fyrstu mínútu og gott flæði í sóknarleiknum sem skilaði af sér 11-0 “rönni”. Hamarskonur bitu frá sér og minnkuðu muninn í 11-7 en KR gaf þá í aftur og leiddi fyrsta leikhluta 20:7.
Annar leikhluti byrjaði með látum. Brjáluð vörn út um allan völl hjá KR-ingum og hittnin með afbrigðum góð. Það skipti ekki máli hver hlóð í skot eða hvaðan var skotið, það fór allt ofan í. Þjálfari Hamars gerði það eina skynsamlega í stöðunni og tekur leikhlé til þess að stoppa þessi ósköp. Allt kom fyrir ekki, áhlaupið hélt áfram. Gríðarleg grimmd í KR-konum og hefur annað eins ekki sést síðan Tyson beit í eyra hérna um árið en það er önnur saga og lengri. KR nær á þessu “rönni” þægilegu forskoti eða 41-13 en Hamarkonur ná aðeins að koma til baka og laga stöðuna í 45-20 áður en blásið er til loka fyrri hálfleiks. Bergþóra Holton átti frábæran fyrri hálfleik fyrir KR-inga og setti 14 stig en sama má segja um allt KR-liðið sem gaf sig allt í verkefnið. Hjá Hamri var Sidney stigahæst með 8 stig, Salbjörg 6 og aðrir minna.
Seinni hálfleikur spilast á sama hátt og sá fyrri. KR-konur slaka hvergi á klónni, berjast fyrir hvor aðra, henda sér á alla lausa bolta og ekki skemmdi fyrir að skotin héldu áfram að detta. Björg Guðrún Einarsdóttir var nánast á eldi í 3.leikhlutanum en hún setti 3 þrista með stuttu millibili og virðist í fantaformi um þessar mundir. Allt KR-liðið var reyndar funheitt á þessum tímapunkti, stórir sem smáir það skipti ekki máli, allt fór þetta ofan í körfuna.
KR-stúlkur héldu þessari baráttu allt til loka, juku við forystuna jafnt og þétt og kláruðu þetta að lokum 91-44.
Mjög sanngjarn sigur hjá baráttuglöðum KR-konum. Virkilega gaman að sjá slíka ákefð og baráttu sem mikil vöntun hefur verið á í Vesturbænum það sem af er vetri. Einnig var gaman að fylgjst með Finni þjálfara á hliðarlínunni sem hljóp sennilega manna mest í kvöld upp og niður völlinn og hvatti sínar konur áfram þar til lokaflautið gall. Áðurnefnd Björg gerir tilkall til þess að vera maður leiksins með 21 stig, (5 þrista) 6 stoðsendingar og 5 fráköst en fær þó ekki nafnbótina. Maður leiksins er KR-liðið eins og það leggur sig….liðsheildin.
Umfjöllun/ Þorbjörn Geir Ólafsson



