Grikkland varð evrópumeistari í U20 aldursflokki karla í gær eftir sigur á Ísrael í úrslitaleik evrópumótsins sem farið hefur fram síðustu daga.
Leikurinn fór fram í troðfullri höll í Heraklion á Krít í Grikklandi. Það varð fljótt uppselt á leikinn er ljóst var að heimamenn í Grikklandi myndu leika til úrslita og voru andstæðingarnir Ísrael sem sló Ísland úr leik í átta liða úrslitum.
Grikkir leiddu nánast allan leikinn en frábær endurkoma Ísraela með Tamir Blatt í broddi fylkingar gerði leikinn gríðarlega spennandi í lokafjórðungnum. Heimamenn voru sterkari á lokasprettinum og unnu að lokum 65-56 og eru því evrópumeistarar U20 landsliða árið 2017.
That moment when the #FIBAU20Europe dream comes true! _x1f3c6__x1f3c6__x1f3c6_ @HellenicBF _x1f1ec__x1f1f7_ pic.twitter.com/NUvW4J71Gq
— FIBA (@FIBA) July 23, 2017
„Það er magnað að vinna þetta og ég er svo hamingjusamur. Við spiluðum frábæra vörn og vorum mjög aggresívir. Ég var ánægður að hitta nokkrum þriggja stiga körfum og hjálpa okkur að vinna leikinn“ sagði grikkinn Antonios Koniaris eftir leikinn en hann var stigahæstur liðsins með 15 stig.
Samherji hans Vasileios Charalampopoulos var valinn besti leikmaður mótsins af þjálfurum liðanna og blaðmönnum á mótinu. Hann var í úrvalsliði mótsins ásamt fyrrnefndum Koniaris. Auk þeirra voru Tamir Blatt frá Ísrael, Amine Noua frá Frakklandi og auðvitað Tryggvi Snær Hlinason frá Íslandi í úrvalsliði mótsins.
Lokastaðan í mótinu var því eftirfarandi:
1. Grikkland
2. Ísrael
3. Frakkland
4. Spánn
5. Serbía
6. Litháen
7. Þýskaland
8. Ísland
9. Tyrkland
10. Úkraína
11. Svartfjallaland
12. Svíþjóð
13. Ítalía
14. Slóvenía (Fall í B-deild)
15. Tékkland (Fall í B-deild)
16. Lettland (Fall í B-deild)
Í B-deild mótsins voru það einnig heimamenn í Rúmeníu sem sigruðu deildina eftir sigur á Króatíu í úrslitaleik mótsins. Í leik um þriðja sæti vann Bretland svo Rússland. Því eru það Rúmenía, Króatía og Bretland sem taka sæti Slóveníu, Tékklands og Lettlands í A-deild að ári.
Mynd / FIBA
Samantekt / Ólafur Þór Jónsson