spot_img
HomeFréttirGriffin tryggði Grindavík sigurinn á vítalínunni (Umfjöllun)

Griffin tryggði Grindavík sigurinn á vítalínunni (Umfjöllun)

00:07
{mosimage}

(Bojan sækir að Grindavíkurkörfunni í kvöld, hann gerði 11 stig í leiknum) 

Grindvíkingar höfðu magnaðan 91-93 spennusigur gegn Hamri í Hveragerði í Iceland Express deild karla í kvöld.  

Leikurinn fór vel af stað og skellti Roni Leimu niður þrist fyrir heimamenn eftir aðeins 5 sekúndna leik. Greinilegt var að barátta var dagsskipunin frá Ágústi, en Hamarsmenn mættu óvenju kröftugir til leiks. 1. leikhlutinn gekk hratt og vel fyrir sig og skiptust liðin nokkuð á stigaskorinu, en Hamarsmenn leiddu eftir 1. leikhluta 22-21.

Liðin byrjuðu annan leikhlutann eins og þau spiluðu þann fyrsta og var ekki að sjá hvort liðið væri í neðsta sæti, og hvort væri í topp baráttunni. Grindvíkingar voru þó að nýta skotin sín betur, og hittu úr 9 af 14 skotum utan af velli í 2.leikhluta. Um miðbik 2. leikhluta gáfu Grindvíkingar í og náðu 10-0 áhlaupi á Hvergerðingana (31-41) , en hvorki gekk né rak í sóknarleiknum hjá heimamönnum. Þegar 2 mínútur voru til hálfleiks var staðan 34-43, en Roni átti eftir að laga stöðuna aðeins fyrir hlé, en hann setti fínt stökkskot og svo í næstu sókn braut Þorleifur Ólafsson á honum í þriggjastiga skoti og þakkaði Roni fyrir með því að setja öll þrjú vítin ofaní og staðan 39-43 í hálfleik Grindvíkingum í vil.   

{mosimage}

Í þriðja leikhlutanum voru hlutirnir ekki að ganga upp hjá Hamarsmönnum í vörninni og héldu Grindvíkingar forustu sinni allan fjórðungin. Hamarsmenn brutu mikið og fengu Grindvíkingar 15 vítaskot í 3. leikhluta og fékk Nicholas King sína 4. villu þegar rúmar 5. mínútur voru eftir af 3. leikhluta. Grindvíkingarnir spiluðu þrælfínan sóknarleik í fjórðungnum þar sem Páll Axel, J. Griffin, Þorleifur og Páll Kristins skiptu 29 stigum á milli sín, en Bojan og Roman báru uppi sóknarleik heimamanna með 18 af 23 stigum Hamars í 3. leikhluta. Staðan 64-72 þegar 3. leikhlutinn hófst og Grindvíkingarnir þóttust í nokkuð góðum málum.  

Páll Axel gaf tóninn í byrjun 4. leikhluta og setti niður skot af millifæri, en í næstu sókn fiskar King villu í þriggjastiga skoti og setur niður 2 skot. Grindvíkingar missa boltann, og King setur körfu góða og fær skot að auki, sem hann setur ofaní og minnkar muninn í 69-74. Liðin skiptast á körfum (74-78, 76-80, 78-82) þegar Roman nær að minnka muninn í 2 stig, 80-82 þegar 4. fjórðungur er hálfnaður, og allt virtist geta gerst. Griffin eykur forskotið aftur í 4 stig (80-84), og King fer á línuna en klikkar úr fyrra. 81-84. Páll Axel setti 2 stig, en King svarar með góðri post-up körfu hinumeginn. Páll Axel leit á þetta sem ögrun og svarar með þrist. King setur 2 stig, en Páll Axel sýnir mátt sinn og megin og setur annan þrist. King fer á línuna í næstu sókn og setur fyrra skotið ofaní en klikkar á seinna. (7/11). Lárus Jónsson stelur boltanum og setur lay-upið niður staðan 88-92 þegar rúmar 2 mínútur eru eftir.  

{mosimage}

Grindvíkingar nýta ekki sína sókn og Þorleifur brýtur á King í þriggjastiga skoti. King fer á línuna en klikkar á öllum þrem skotum. Staðan því enn 88-92. Hamarsmenn standa vörnina vel og ná þeir hraðaupphlaupi og setur Lárus niður sniðskot og staðan 90-92 og Grindvíkingar taka leikhlé 1:07 eftir. Grindvíkingar taka rólega sókn, en Hamarsvörnin stendur sína vakt vel, J. Griffin reynir þvingað skot en hittir ekki, Igor tekur sóknarfrákastið og reynir aftur, en klikkar, mikill darraðadans í teignum, King og Igor berjast um boltann, en það endar með uppkasti þegar 38,4 sek eru eftir. Þá hefst mikil reikistefna um það hvort liðið eigi rétt á boltanum, og eru dómarnir ekki vissir um það.

Eftir fund með ritaraborðinu og þjálfurum beggja liða ákveður Kristinn Óskarsson að taka leikhlé á sig meðan lausn fæst í málinu. Að lokum eftir mikið þref og vangaveltur komast þeir að þeirri niðurstöðu að Grindavík eigi boltann. Grindvíkingar stilla upp sókn Igor tekur þvingað skot og King nær frákastinu. Hamar með boltann í stöðunni 90-92 og 17 sekúndur eftir. Roni Leimu reynir þrist, en klikkar, King nær frákastin eftir baráttu í teignum og Igor brýtur á honum og fær sína 5. villu. 3,6 sekúndur eftir. staðan 90-92 og King á línunni. fyrra fer ofaní, 91-92, en seinna klikkar (7/15). King brýtur á Griffin þegar 1,8 sek er eftir og fær þar af leiðandi sína 5. villu. Griffin setur fyrra vítið ofaní en klikkar á seinna. Bojan tekur frákastið og gefur á Lalla sem reynir örvæntingafulla tilraun við skot frá eigin þriggjastigalínu, en klikkar. Grindvískur sigur því staðreynd í Hveragerði. en slök vítanýting hjá King í 4. leikhluta reyndist verða Hamarsmönnum mjög dýrkeyp, en alls klikkaði hann á 8 vítaskotum í 4. leikhluta (6/14)  

Hamarsmenn komu ákveðnir til leiks og eiga hrós skilið fyrir baráttu í leiknum, sóknarleikurinn var að flæða ágætlega, en það kom allt of oft fyrir að Páll Axel var galopinn, og þakkaði hann fyrir gestrisnina með að skora 33 stig í leiknum.  

Hjá heimamönnum var King stigahæstur með 30 stig (17 í 4. leikhluta) og 10 fráköst. Roman skoraði 21 stig og tók 10 fráköst, Roni skoraði 13 stig, Bojan 11 stig og 9 fráköst, Lalli 10 stig og 6 stoðsendingar. Svavar 4 stig og Viðar 2 stig.  

Hjá gestunum var Páll Axel  stigahæstur með 33 stig (5/8 þriggjastiga), Griffin skoraði 27 stig og tók 6 fráköst, Þorleifur skoraði 16 stig, Páll Kristins með 7 stig og 6 fráköst, Igor 6 stig og 6 fráköst og Adam 4 stig og 5 stoðsendingar. 

Tölfræði leiksins 

Texti: Sævar Logi Ólafsson
Myndir: Karen Ósk Guðmundsdóttir
 

www.hamarsport.is

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -