spot_img
HomeFréttir?Gríðarlega erfitt verkefni?

?Gríðarlega erfitt verkefni?

15:00

{mosimage}

Nú er komið að grein sem Sigurður Elvar skrifaði í Morgnblaðið þriðjudaginn 10. júní, daginn sem leikur fjögur í einvígi Roma og Siena fór fram.

LEIKMENN Lottomatica Roma voru að hefja lokaundirbúning sinn fyrir fjórða leikinn í úrslitum um ítalska meistaratitilinn í körfuknattleik þegar Morgunblaðið hitti íslenska  landsliðsmanninn Jón Arnór Stefánsson í gær og ræddi við hann um næstu viðureign. Til marks um stærð félagsins þá dugir ekkert annað en Ólympíuhöllin frá árinu 1960 fyrir æfingar liðsins. Reyndar voru ekki margir áhorfendur á æfingunni, sem var lokuð, en líklega komast um 5.000 áhorfendur í þessa höll. Jón Arnór segir að það verði erfitt fyrir Roma að ná sér aftur á strik gegn sterku liði Siena.

„Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er gríðarlega erfitt verkefni að vinna næstu fjóra leiki og vinna þar með titilinn. Við hugsum ekki svo langt fram í tímann. Næsti leikur er á morgun [í kvöld] og við þurfum að bjarga andlitinu með því að sigra. Það er ekki góð tilhugsun að Siena fagni titlinum á heimavelli okkar í Róm,“ sagði Jón Arnór. Nokkrir af  félögum hans úr liðinu voru þegar farnir að skjóta á körfuna um hálftíma áður en að æfingin átti að hefjast.

Siena hefur unnið þrjá leiki í röð og mikið þarf til þess að Roma geti gert atlögu að titlinum. Íslenski landsliðsmaðurinn er alveg með það á hreinu að í lið Roma vanti eina „týpu“ af leikmanni sem þurfi til þess að ná alla leið. „Jú, ég er á þeirri skoðun og hef verið alveg frá því í fyrra. Okkur vantar duglegan, stóran strák sem er tilbúinn að gera litlu hlutina sem skipta síðan öllu máli – taka fráköst, berjast undir körfunni og gefa allt sem hann á í varnarleikinn. Við erum ekki með slíkan leikmann. Því miður.“

Gregor Fucka frá Ítalíu er hávaxnasti leikmaður Roma, rétt um 2,15 metrar á hæð, og Erazem Lorbek frá Slóveníu er 2,04 metrar á hæð, en það virðist ekki duga til fyrir Roma. „Það sem skiptir mestu máli hér á meginlandi Evrópu er að vera líkamlega sterkur. Það er gríðarleg stöðubarátta og körfuboltinn er allt öðruvísi en við eigum að venjast heima á Íslandi. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir þeim átökum sem eiga sér stað undir körfunni og þar erum við ekki nógu fastir fyrir,“ sagði Jón Arnór Stefánsson.

Morgunblaðið

Mynd: www.virtusroma.it

Fréttir
- Auglýsing -