spot_img
HomeFréttirGreiningarstöðin: Finnur Jóns um leik 3 í úrslitum

Greiningarstöðin: Finnur Jóns um leik 3 í úrslitum

Þriðji leikur tveggja bestu liða Íslands í dag var frábær skemmtun fyrir áhorfendurog alla sem koma nálægt Íslenskum körfubolta. Leikurinn einkenndist af háu spennustigi, fínum sóknarleik og frekar slakri vörn. Röstin var kjaftfull klukkutíma fyrir leik, stemmningin var ógurleg og trúlega hefur verið rólegt kvöld í Bláa lóninu þetta kvöld.

Þórsarar mættu með breytt byrjunarlið til leiks þar sem að Grétar settist á tréverkið í staðinn fyrir Henley sem skartaði splunku nýrri hárgreiðslu. Grindvíkingar byrjuðu hins vegar með sama lið og þeir hafa teflt fram í síðustu leikjum.
 
Varnarleikurinn.
Varnarleikurinn hjá báðum liðum var ekki upp 10 á löngum köflum í þessum leik sem er jú kannski ekkert skrítið þar sem að þessi lið eru búin að spila marga leiki á háu tempói á síðustu vikum. Vörn Þórsara var þó öllu betri, en þeir „mættu“ aftur til leiks í þennan þriðja leik eftir afar slaka frammistöðu í öðrum leiknum þar sem að Grindvíkingar gengu frá þeim. Gestirnir mættu semsagt til leiks líkt og þeir hafa gert í flesta leiki í vetur, „grjótharðir“ og létu finna fyrir sér frá fyrstu mínútu. Grindvíkingar gerðu sig seka um allt of margar klaufavillur þar sem að þeir voru að brjóta á Þórsurum í þriggja stiga skoti og einnig þar sem að Þórsarar skoruðu körfur og fengu víti að auki. Þórsarar voru hins vegar alltaf skrefi á undan í varnarleiknum og fengu sínar villur í bullandi baráttu með Darra Hilmarsson fremstan í flokki gargandi sína menn áfram. Fagmaður þar á ferð. En eins og áður sagði þá var varnarleikur beggja liða ekki upp á marga fiska þar sem að leikar enduðu 91-98. Þetta er mjög hátt stigaskor þar sem að við erum að tala um „úrslitaleik,“ allur veturinn undir, og Íslandsmeistarabikarinn skínandi fínn á hliðarlínunni.
 
Sóknarleikurinn.
Það var mikil breyting á sóknarleik beggja liða frá síðasta leik. Heimamenn létu gestina ýta sér allt of langt frá körfunni og voru ekki að nýta stóru strákana sína undir körfunni nógu vel. Bullock sem ég fullyrði að sé einn allra öflugasti leikmaður sem spilað hefur hér á landi átti ekki sinn besta leik, hann hefur jú hitt vel fyrir utan í vetur en ef hann keyrir á körfuna þá er enginn hér á landi sem getur stoppað piltinn. Hann hefði þurft að fá boltann meira undir körfunni því þá fær hann undantekningarlaust tví-dekkun á sig og þá opnast fyrir skyttur Grindvíkinga sem eru jú baneitraðar. Þetta er eitthvað sem að ég reikna með að Helgi Jónas ætli að laga fyrir næsta leik ef að hann ætlar að sleppa við oddaleik. Þórsarar mættu hins vegar með hausinn á réttum stað í sóknarleiknum. Að horfa á annan leikinn og svo þennan hjá Þórsurum þá eru þetta eins og tvö mjög ólík lið. Það var oft og tíðum unun að fylgjast með sóknarleik Þórsara þar sem að þeir dældu boltanum inní teiginn og uppskáru eftir því með Henley og Janev fremsta í flokki. Gestirnir spiluðu betri vörn og stigu betur út heldur en þeir hafa gert í fyrstu tveimur leikjunum og náðu þar af leiðandi að spila sinn leik, sem einkennist af granítharðri vörn og hraðupphlaupum með Govens eins og Konung ljónanna á opnum velli.
 
Niðurstaðan.
Í fáum orðum sagt þá mættu Þorlákshafnarmenn mun grimmari og með harðari bolta til leiks og þeir uppskáru eins og þeir sáðu. Þetta eru álíka góð körfuboltalið, þannig að á þessum tímapunkti úrslitakeppninnar er það bara spurning um hvort liðið kemur með meira blóðbragð á tönnunum til leiks.
 
Hvað gerist næst?
Það er stór spurning. Ef Þórsarar mæta jafn grimmir til leiks og koma boltanum áfram inn í teig þá getum við alveg eins átt von á oddaleik sem er að sjálfsögðu hið besta mál fyrir okkur sem elskum þessa fallegu íþrótt. Benni hefur sýnt það og sannað að hann er einn af færustu stýrimönnum í þessu fagi á Íslandi, hann er hokinn af reynslu og veit hvað þarf til þess að vinna þann stóra. Hins vegar hef ég ekki trú á öðru en að Helgi Jónas sem er ekki síður mikill fagmaður og Benni berji skap í sína menn fyrir leik númer fjögur og Grindvíkingar komi kolvitlausir til leiks. Þeir þurfa að koma boltanum meira inn í teig á Þá Sigurð, Bullock og He-Man (Pettinella), Þá opnast skot fyrir stórskytturnar Pál Axel, Þorleif og Jóhann. Mikið hefur verið rætt um breiddina hjá Grindvíkingum sem er mikil, og eru þeir með frábært lið. Hins vegar eru Þórsarar líka með frábært lið þar sem að Govens spilar hverja mínútu, og virðist kappinn sá borða hafragrautinn sinn reglulega. Það virðist ekki koma niður á leik hans því hann verður bara betri og betri, frábær leikmaður.
 
Grindavík og Þór eru tvö bestu liðin á landinu í dag, með tvo frábæra þjálfara og hafa spilað frábæran bolta í vetur. Ég hlakka mikið til þess að sjá fjórðu viðureign þessara stórskemmtilegu liða því eitt er víst að baráttan verður svakaleg á miðvikudagskvöldið kemur í Þorlákshöfn.
 
Finnur Jónsson.
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -