Stjórnarmenn landsliðs Bandaríkjanna í körfubolta tilkynntu í dag hver myndi taka við af Coach K, Mike Krzyzewski, fyrir næsta Ólympíuhring. Eftir Ólympíuleikana í Rio de Janeiro 2016 verður það enginn annar en Gregg Popovich sem tekur við taumunum.
Staðfest er að Popovich mun stýra liðinu frá 2017 til 2020. Pop er þjálfari San Antonio Spurs í NBA deildinni og hefur fimm sinnum gert sitt lið að NBA meisturum, síðast árið 2014. Núverandi yfirþjálfari liðsins, svokallaður Coach K, er þjálfari körfuboltaliðs Duke háskólans sem eru ríkjandi NCAA meistarar. Það verður spennandi að sjá einn reynslubolta taka við af öðrum og hvernig liðið þróast með.