spot_img
HomeFréttirGrátlegt tap í leik sem Ísland leiddi lengst af

Grátlegt tap í leik sem Ísland leiddi lengst af

Undir 16 ára stúlknalið Íslands mátti þola tap gegn Svíþjóð í dag í öðrum leik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio í Finnlandi, 86-81. Liðið því unnið einn leik og tapað einum það sem af er móti, en næst mæta þær Eistlandi á morgun.

Fyrir leik

Íslenska liðið hóf leik á Norðurlandamótinu með öruggum sigri gegn Noregi í gær. Óhætt að segja að sænska liðið sem Ísland mætti í dag hafi verið komið skrefinu lengra heldur en það norska. Bjuggu yfir mikilli hæð og íþróttamennsku.

Gangur leiks

Eftir að Svíþjóð hafði verið betri aðilinn á upphafsmínútunum nær íslenska liðið ágætis tökum á leiknum og leiða þær frá miðbygg fyrsta leikhlutans til enda hans. Mikið til var liðið að nýta sér fína pressu allan völlinn sem hjálpaði þeim að skapa tapaða bolta sem urðu að auðveldum körfum fyrir þær. Munurinn var þó ekki mikill, en fyrir annan leikhluta var Ísland tveimur stigum yfir, 16-18. Áhyggjuefni fyrir Ísland að Berglind Hlynsdóttir meiddist í leikhlutanum og kom ekki frekar við sögu í leiknum.

Íslenska liðið er svo með góð tök á leiknum í öðrum leikhlutanum. Pressan þeirra heldur áfram og þær keyra í bakið á Svíþjóð trekk í trekk, ná mest 11 stiga forystu í öðrum fjórðungnum, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik munar 9 stigum á liðunum, 36-45.

Stigahæst fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Sigrún Brjánsdóttir með 10 stig og þá var Inga Ingadóttir með 8 stig.

Svíþjóð gengur aðeins betur að brjóta á bak aftur vörn Íslands í upphafi seinni hálfleiksins. Íslenska liðið er þó með ágætis forskot lengst af í þriðja fjórðungnum, en missa það frá sér og eru tveimur stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 60-58.

Í upphafi þess fjórða nær Ísland fínu áhlaupi, keyra hraðann upp og eru 6 stigum yfir þegar rúmar fimm mínútur eru til leiksloka, 70-76. Fá í kjölfarið 0-9 áhlaup í andlitið frá Svíþjóð og eru því farnar að elta þegar rúmar 3 mínútur eru til leiksloka, 79-76. Því forskoti hangir Svíþjóð á og leiða enn með 2 stigum þegar mínúta er eftir, 83-81. Undir lokin sigla þær svo 5 stiga sigur í höfn, 86-81.

Kjarninn

Lengst af náði íslenska liðið að stjórna hraða leiksins í dag. Sem var gífurlega mikilvægt fyrir þær, verandi mun minna liðið gekk þeim betur að pressa og hleypa hraðanum á leiknum upp frekar en að spila á hálfum velli. Grátlegt þær hafi ekki náð að halda það út og vinna leikinn því þær voru alls ekki verri aðilinn í leiknum.

Atkvæðamestar

Best í liði Íslands í dag var Inga Ingadóttir með 19 stig, 9 fráköst og 4 varin skot. Þá skiluðu Sigrún Brjánsdóttir 18 stigum, 4 fráköstum, 4 stoðsendingum og Arna Eyþórsdóttir 14 stigum, 5 fráköstum, 4 stoðsendingum og 4 stolnum boltum.

Hvað svo?

Næsti leikur liðsins er á morgun fimmtudag 3. júlí kl. 11:15 að íslenskum tíma gegn Eistlandi.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -