spot_img
HomeFréttirGrannaslagur í Röstinni

Grannaslagur í Röstinni

11:25 

{mosimage}

 

 

Fjórir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld. Allir leikirnir hefjast kl. 19:15 og má reikna með baráttuslag í Grindavík þegar heimamenn taka á móti toppliði Njarðvíkur.

 

Rimmur Njarðvíkur og Grindavíkur hafa jafnan verið mjög spennandi og í fyrri leik liðanna í á þessari leiktíð höfu Njarðvíkingar betur 76-73. Grindavík átti góðan leik gegn ÍR í síðustu umferð þegar þeir höfðu sigur í Seljaskóla 81-93 en Njarðvíkingar eru á blússandi siglingu og hafa unnið síðustu átta deildarleiki sína. Með sigri í kvöld styrkja Njarðvíkingar stöðu sína á toppi deildarinnar en þá færist heimavallarrétturinn mun lengra frá Grindvíkingum. Fjögur efstu liðin í deildarkeppninni eru með heimavallarrétt í úrslitakeppninni og eru Grindvíkingar sex stigum frá fjórða sæti í dag og 14 stig í pottinum svo það er enn möguleiki fyrir þá gulu.

 

Í Keflavík mætast heimamenn og Þór úr Þorlákshöfn. Fréttir þess efnis bárust í gær að Keflavík hefði ráðið til sín Bandaríkjamann að nafni Jesse King en ,,Kóngurinn” reyndist hirðfífl og ákvað á síðustu stundu að semja við annað félag. Keflvíkingar leika því kanalausir í kvöld gegn sprækum Þórsururm sem lögðu Snæfell í framlengdum leik í síðustu umferð. Keflavík er í 5. sæti deildarinnar með 18 stig en Þór er í 10. sæti með 8 stig.

 

Tindastóll tekur á móti Hamri/Selfoss á Sauðárkróki í kvöld og verður Gunnlaugur Elsuson aftur í liðin Stólanna eftir að hafa tekið út leikbann gegn Njarðvíkingum. Fyrir leikinn gegn Njarðvík í síðustu umferð höfðu Stólarnir unnið fjóra leiki í röð en fengu 101-70 skell í Ljónagryfjunni. H/S menn fengu einnig skell í síðasta leik og það á heimavelli gegn Skallagrím. Þeim leik lauk með 22 stiga sigri Skallanna 77-99. H/S og Tindastóll leitast því bæði við að koma sér á rétta braut í kvöld og því von á góðum leik á Króknum.

 

Snæfellingar taka á móti ÍR í Hólminum í kvöld en Snæfell tapaði nokkuð óvænt gegn Þór Þorlákshöfn í síðustu umferð. ÍR lá heima gegn Grindavík svo hér er annað dæmi um lið sem ætla sér sigur eftir tapleiki í síðustu umferð. Síðast þegar liðin mættust í deildinni hafði Snæfell sigur í Seljaskóla 61-74 en þá voru Hreggviður og Nate Brown ekki með ÍR.

Fréttir
- Auglýsing -