spot_img
HomeSubway deildinSubway deild kvennaGrannaglíman féll á einu stigi: Úrslitakeppnin handan við hornið

Grannaglíman féll á einu stigi: Úrslitakeppnin handan við hornið

Keflavík lagði Njarðvík í spennuslag í kvöld í lokaumferð deildarkeppninnar í Subway-deild kvenna. Lokatölur 70-69 þar sem Wallen gerði sigurstigin af vítalínunni. Njarðvíkingar áttu lokaskot leiksins en það geigaði og Keflavík fagnaði sigri.

Þá er ljóst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni en fyrsta umferð úrslitakeppninnar mun líta svona út:

Keflavík-Fjölnir

Grindavík-Þór Akureyri

Njarðvík-Valur

Haukar-Stjarnan

Að leik kvöldsins en það er óhætt að segja að það hafi ekki verið þriggja stiga skotin sem færðu heim sigurinn fyrir Keflavík í kvöld. Bæði lið nokkuð köld fyrir utan, Keflavík 3-24 í þristum og Njarðvík 3-22. Það var hinsvegar vörn Keflavíkur sem var sterk í fjórða leikhluta og hélt Njarðvíkingum þar í 13 stigum.

Njarðvík leiddi 17-19 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Emilie Hesseldal lokaði leikhlutanum fyrir gestina með huggulegu skoti í teignum. Lott með 7 stig í liði Njarðvíkinga en Sara, Thelma Dís og Pinzan allar með 4 stig hjá Keflavík.Þristarnir voru ekki að detta hjá Reykjanesbæjarliðunum í fyrsta leikhluta, Keflavík 0-5 og Njarðvík 1-7.

Keflvíkingar voru nokkuð beittari aðilinn í öðrum leikhluta þrátt fyrir að rólegt væri í þriggja stiga skotunum. Keflavík leiddi 44-40 í hálfleik þar sem Anna Ingunn var með 12 stig hjá Keflavík en Lott 11 í liði Njarðvíkinga. Keflvíkingar yfir þrátt fyrir að vera 1-8 í þristum í fyrri.

Í þriðja leikhluta þéttust varnir beggja liða og lítið skorað. Njarðvík vann leikhlutann 7-16 og komust því yfir og leiddu 51-56 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Lott komin í 18 stig hjá Njarðvík og Wallen 13 hjá Keflavík sem enn máttu bíða eftir að fara í gang fyrir utan þriggja stiga línuna og voru 2-18 í þristum á 30 mínútum.

Þegar fjórði leikhluti var liðlega hálfnaður höfðu Keflvíkingar náð forystunni á nýjan leik, staðan 65-63 þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Wallen að leika fantavel í fjórða. Viso jafnaði svo leikinn 69-69 af vítalínunni fyrir Njarðvík þegar mínúta lifði leiks. Í næstsíðustu sókn leiksins var brotið á Wallen sem fékk tvö víti og niður fór aðeins annað þeirra. Síðasta sóknin endaði í höndum Jönu Falsdóttur sem reyndi þrist en hann vildi ekki niður og Keflavík fagnaði því sigri.

Wallen átti flottan leik í kvöld með 28 stig og 16 fráköst og næst henni var Anna Ingunn með 12 stig. Hjá Njarðvík var Lott með 23 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar og henni næst kom Isabella Ósk með 15 stig og 11 fráköst.

Eins og áður hefur komið fram fær Keflavík að mæta Fjölni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og Njarðvík tekur á móti Val.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -