spot_img
HomeFréttirGott gengi Grindvíkinga í gangi

Gott gengi Grindvíkinga í gangi

Grindvíkingar tóku á móti Tindastólsmönnum í kvöld og sýndu þeim litla gestrisni inni á vellinum. Þegar upp var staðið var sigur Grindvíkinga, 93-83, öruggur og sanngjarn.

Þriðji sigurleikur Grindvíkinga röð staðreynd og liðið er að toppa á hárréttum tíma og virðist líklegt til að gera góða hluti í úrslitakeppninni. Eftir að liðið lenti í meiðslahremmingum hafa Grindvíkingar snúið bökum saman og fengið aukið framlag frá öllum leikmönnum og betri og betri stemmning á bekknum hefur fylgt í kjölfarið, og slíkt er mikilvægt í eins mikilli stemmningsíþrótt og karfan vissulega er.

Afar lélegur fyrri hálfleikur gestanna eða bara góður leikur heimamanna gerði í raun útslagið í þessum leik; Tindastóll var alltaf í eltingarleik og voru í raun aldrei líklegir til að gera þennan leik spennandi, nema þá helst framan af þriðja leikhluta. Eftir þann leikhluta tók Danni þjálfari nett kast á sína menn og benti þeim með nokkuð hraustlegum hætti að þeir væru að tapa síðari hálfleik. Eftir eldræðu Danna komst gott jafnvægi á í leik heimamanna og þeir innbyrtu öruggan og sanngjarnan sigur.

Kazembe Abif var besti leikmaður vallarins; glerharður og með gott líkamlegt og andlegt jafnvægi – ekkert tuð og röfl á þeim bænum og Kaz var sem klettur í grindvísku hafi; getur slegist við hvern sem er í teignum, frákastar vel, með fínar sendingar og nýtir færi sín af stakri prýði – toppleikmaður sem á eftir að nýtast Grindvíkingum vel í úrslitakeppninni. Ólafur Ólafsson, Kristinn Pálsson og Björgvin Hafþór Ríkharðsson voru góðir og “gamli” maðurinn hann Þorleifur Ólafsson átti flotta spretti og ef hann getur skilað álíka framlagi í úrslitakeppninni og hann gerði í þessum leik er það algjör bónus fyrir Grindvíkinga. Joonas Jarvelainen var fínn og þar er á ferð öflugur leikmaður, en maður hefur alltaf á tilfinningunni að hann eigi afar erfitt með skapið í sér – oft mjög þungt yfir honum – alvöru keppnismaður, sem mætti samt slaka aðeins á í tuðinu því það gerir honum og hans liði ekkert gott.

Það hefur átt sér stað umpólun í leik Grindvíkinga; jákvæðni og stemmning eru ráðandi þættir en það kemur til vegna þess að leikmenn liðsins standa og vinna saman og með alla þessa góðu leikmenn og toppþjálfara innanborðs gæti liðið náð langt í úrslitakeppninni.

Hjá Tindastól var fátt um fína drætti og þá sérstaklega í fyrri hálfleik, sem gerði í raun útslagið; liðið var alls ekki að virka sem heild og flatneskja, allltof mikið drippl og einstaklingsframtak var allsráðandi. Liðið lék vel í þriðja leikhluta en náði samt aldrei að ógna heimamönnum neitt að ráði. Lítið flæði í leik liðsins mestanpart gerði það að verkum að frekar auðvelt var fyrir Grindvíkinga að verjast þeim; það er ekki mikill liðsbragur á Tindastól – einstaklingsframtakið er of mikið og stutt í slappa stemmningu og tuð. Gamla brýnið Axel Kárason reyndi hvað hann gat til að peppa sína menn en það gekk því miður lítið fyrir þá. Nikolas Tomsick og Jaka Brodnik voru atkvæðamestir en voru samt ekki góðir þegar á heildina er litið því leikur þeirra skilaði sér ekki í betri leik heildarinnar. Þá átti Flenard Whitfield erfitt uppdráttar enda spiluðu Grindvíkingar hörkuvörn á hann.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -