spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaGöngutúr í MVA-hallargarðinum hjá ÍR

Göngutúr í MVA-hallargarðinum hjá ÍR

Breiðhyltingar gerðu góða ferð til Egilsstaða í kvöld þegar liðin mættust í þriðju umferð Dominos deildar karla.

Bæði lið töpuðu leikjum sínum í síðustu umferð, Höttur í Garðabæ gegn Stjörnunni og ÍR heimaleik gegn Val. Það mátti því búast við að bæði lið myndu mæta brjáluð til leiks og leggja allt í sölurnar.

ÍR mættu strax frá upphafi Hetti framarlega á vellinum og ætluðu greinilega að þreyta Egilsstaðarbúa. Á móti ætluðu Hattarmenn að nýta hæðarmun þessara liða og komu boltanum mikið inní teiginn á stóru mennina sína.

Það varð ljóst mjög snemma í leik kvöldsins að Breiðhyltingar höfðu meiri trú og ákvefð í að sækja sigur í þessum leik. Þrátt fyrir að ekki hafi verið mikill stigamunur í fyrsta leikhluta var ÍR alltaf líklegra liðið. Það sýndi sig í öðrum leikhluta þegar fín pressuvörn ÍR skilaði sér í fjölda tapaðra bolta hjá Hetti. Breiðhyltingar stungu af og fóru með fimmtán stiga forystu í hálfleikinn 42-57.

Einhverjir Egilsstaðarbúar héldu kannski að lið Hattar væri komið á lagið þegar liðið mætti ákveðið til leiks í seinni hálfleik. Það varð þó á endanum bara óskhyggja enda varð Höttur lítið í sér á ný við minnsta áhlaup ÍR. ÍR bætti enn í forystuna og voru með tögl og haldir á leiknum. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 63-87.

ÍR gat leyft sér að hvíla menn fyrir langt flug heim í fjórða leikhluta án þess að missa niður forystuna að neinu viti. Að leikslokum fór svo að ÍR vann ansi öruggan sigur 87-105 á Hetti.

ÍR gerði góða ferð á Egilsstaði og léku vel. Liðið var heilt yfir öflugt varnarlega, að minsta kosti á fullum velli þar sem liðið knúði fram stolna bolta.

Collin Pryor átti algjörlega frábæran leik fyrir ÍR, hann endaði með 30 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Einnig lék hann góða vörn á stóra leikmenn Hattar. Everage Richardson var einnig öflugur með 24 stig, 13 fráköst, 5 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Þeir tveir ásamt Sigvalda Eggertssyni voru mjög öflugir.

Höttur mun að öllum líkindum sofa illa í kvöld enda liðið langt frá því að sýna það sem það getur. Í raun er ekki boðlegt fyrir lið sem ætlar að halda sæti sínu í deildinni að mæta ekki ákveðnara til leiks í leik eins og þennan. Sigurður Gunnar var lang bestur í liði Hattar með 17 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -