spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaGöngutúr í garðinum hjá Keflavík gegn KR

Göngutúr í garðinum hjá Keflavík gegn KR

Keflavík lagði KR í kvöld í 7. umferð Subway deildar karla. Eftir leikinn er Keflavík í 2.-3. sæti deildarinnar með 10 stig líkt og Breiðablik á meðan að KR er í 11.-12. sætinu með 2 stig líkt og Þór.

Fyrir leik

Bæði lið töpuðu sínum leikjum nokkuð örugglega í síðustu umferð. KR heima gegn Val á meðan að Keflavík mátti þola tap í Þorlákshöfn.

Gangur leiks

Miðað við hvað leikurinn fór hratt af stað gekk liðunum illa að setja körfur í fyrsta leikhlutanum. Með nokkuð jöfnu sóknarframlagi frá sínum leikmönnum nær Keflavík þó einhvernvegin að vera skrefinu á undan til loka fjórðungsins, 21-15. Heimamenn láta svo kné fylgja kviði, gjörsamlega rústa öðrum leikhlutanum og fara með 22 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 48-26.

Óhætt er að segja að það hafi vantað ansi mikið upp á leik KR í þessum fyrri hálfleik, þar sem þeir virtust verða undir í öllum þáttum tölfræðiskýrslunnar. Mest stakk þó í augun að sjá hversu vonlausir flestir erlendir atvinnumenn þeirra voru þessar fyrstu tuttugu leikmínútur, Jordan Semple, Saimon Sutt og Roberts Freimanis samanlagt með tvær körfur á samanlögðum 37 mínútum spiluðum í fyrri hálfleiknum.

Stigahæstur hjá Keflavík í fyrri hálfleiknum var Ólafur Ingi Styrmisson með 13 stig á meðan að EC Matthews var kominn með 8 stig fyrir KR.

KR mæta með aðeins meiri ákefð inn í seinni hálfleikinn miðað við hvernig þeir enduðu þann fyrri. Ná að skera niður forskot heimamanna niður í 17 stig tvisvar í þeim þriðja. Fyrst um hann miðjan og svo með síðustu körfu fjórðungsins, en staðan fyrir þann fjórða var 67-50.

KR hóta að gera þetta aftur að leik í upphafi lokaleikhlutans. Gengur ágætlega hjá þeim að fá stopp varnarlega og EC Matthews gengur ágætlega að skora fyrir þá. Fara með forystu heimamanna niður í 15 stig á fyrstu þremur mínútum fjórðungsins, 70-55. Þá fá heimamenn nóg og á að er virtist frekar áreynslulausan hátt keyra forskot sitt aftur norður fyrir 20 stigin. Undir lokin sigla þeir svo mjög svo öruggum sigur í höfn, 91 – 75.

Atkvæðamestir

Bestur í jöfnu liði Keflavíkur í kvöld var Dominykas Milka með 9 stig, 12 fráköst og 3 stoðsendingar. Fyrir KR var það EC Matthews sem dró vagninn með 25 stigum, 7 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Hvað svo?

KR á næst leik komandi fimmtudag 1. desember heima gegn ÍR á meðan að Keflavík leikur degi seinna gegn Íslandsmeisturum Vals í Origo Höllinni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -