spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaGöngutúr í garðinum fyrir Njarðvík í Origo höllinni

Göngutúr í garðinum fyrir Njarðvík í Origo höllinni

Njarðvík lagði Íslandsmeistara Vals í Origo höllinni í kvöld í 9. umferð Subway deildar kvenna, 53-75. Eftir leikinn er Njarðvík í 2. sæti deildarinnar með sjö sigra og tvö töp, tveimur leikjum fyrir aftan Keflavík sem er í fyrsta sætinu. Valur er öllu neðar í töflunni í 5. sætinu með fimm sigra og fjögur töp það sem af er tímabili.

Fyrir leik

Íslandsmeistarar Vals hafa samkvæmt heimildum losað sig við tvo atvinnumenn á jafn mörgum vikum án þess að fá neina leikmenn inn í liðið í staðinn. Hefur reynst þeim nokkuð erfitt, þar sem að báðir hafa leikirnir tapast, nú í kvöld gegn Njarðvík og í síðustu umferð gegn Keflavík.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Njarðvík sem hófu leik dagsins betur. Leiða með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta og upphafsmínútur þar sem lítið benti til að heimakonur ættu nokkurn möguleika á að koma sér inn í leikinn, 14-23. Þær gera þó nokkuð vel að missa leikinn ekki gjörsamlega frá sér undir lok fyrri hálfleiksins, þar sem Njarðvík nær þó aðeins að bæta við forskot sitt áður en liðin halda til búningsherbergja, 29-42.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Hildur Björg Kjartansdóttir með 8 stig á meðan að Andjela Stritze var komin með 14 stig fyrir Njarðvík.

Gestirnir úr Njarðvík halda fengnum hlut í upphafi seinni hálfleiksins, þar sem heimakonur virðast áfram ekkert sérstaklega líklegar til að koma sér aftur inn í leikinn. Forysta Njarðvíkur 16 stig fyrir lokaleikhlutann, 35-51. Heimakonur reyndu hvað þær gátu til að koma til baka og gera þetta að leik í þeim fjórða. Allt kom þó fyrir ekki. Njarðvík sigrar að lokum frekar örugglega, 53-75.

Atkvæðamestar

Emilie Hesseldal var atkvæðamest fyrir Njarðvík í dag með 9 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar. Þá bætti Andjela Stritze við 19 stigum og 4 fráköstum.

Fyrir Val var það Hildur Björg Kjartansdóttir sem dró vagninn með 12 stigum, 9 fráköstum og Sara Líf Boama var með 6 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

Hvað svo?

Valur á leik næst komandi þriðjudag 28. nóvember gegn Breiðablik í Origo höllinni á meðan að Njarðvík mætir Keflavík degi seinna miðvikudag 29. nóvember í Blue höllinni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -