spot_img
HomeFréttirGöngutúr í garðinum fyrir Grindavík gegn nýkrýndum bikarmeisturum Keflavíkur

Göngutúr í garðinum fyrir Grindavík gegn nýkrýndum bikarmeisturum Keflavíkur

Grindavík lagði Keflavík í Smáranum í kvöld í A hluta Subway deildar kvenna. Eftir leikinn sem áður er Keflavík í efsta sæti deildarinnar á meðan að Grindavík heldur í við Njarðvík, sem sigruðu Hauka í kvöld, í 2.-3. sæti deildarinnar.

Fyrir leik

Keflavík tryggði sér bikarmeistaratitilinn síðustu helgi með sigri í úrslitaleik gegn Þór Akureyri. Það var annar titill félagsins á tímabilinu, þar sem þær höfðu fyrir nokkru einnig tryggt sér efsta sætið og deildarmeistaratitilinn í Subway deildinni. Grindavík í harðri baráttu við Njarðvík um annað sæti deildarinnar, en fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum með 30.

Grindavík og Keflavík í þrígang mæst í deildarkeppni Subway deildarinnar og hafði Keflavík sigur í öll skiptin. Síðast, nokkuð stórt, eða með 28 stigum.

Gangur leiks

Leikurinn var nokkuð jafn á upphafsmínútunum. Liðin skiptast í nokkur skipti á forystunni og er það Eve Braslis fyrir Grindavík, 9 stig í þeim fyrsta og Birna Benónýsdóttir, 12 stig í þeim fyrsta, sem virðast vera best stemndar sóknarlega. Þegar sá fyrsti er á enda er Keflavík stigi á undan, 20-21. Grindavík opnar annan leikhlutann á 18-2 áhlaupi og er munurinn 15 stig þegar fjórðungurinn er hálfnaður, 38-23. Keflavík nær aðeins að svara því undir lok hálfleiksins með góðu einstaklinsframtaki Daniela Wallen, en Grindavík fer þó með 14 stiga forystu til búningsherbergja, 45-31.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Eve Braslis með 13 stig á meðan að Birna Benónýsdóttir var með 14 stig fyrir Keflavík.

Það virðist lítið vera gerast hjá Keflavík í upphafi seinni hálfleiksins, á meðan gerir Grindavík ágætlega, bæta við fenginn hlut í þriðja leikhlutanum og eru 19 stigum yfir fyrir þann fjórða, 62-43. Í lokaleikhlutanum nær Keflavík í raun ekki að koma með neitt álitlegt áhlaup, þar sem munurinn helst í kringum 20 stigin. Niðurstaðan að lokum gífurlega öruggur sigur Grindavíkur, 78-61.

Atkvæðamestar

Best í liði Grindavíkur í kvöld var Danielle Rodriguez með 13 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar. Fyrir Keflavík var það Daniela Wallen sem dró vagninn með 13 stigum, 8 fráköstum, 4 stoðsendingum og 5 stolnum boltum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst eftir páska, 3. apríl. Þá fær Keflavík lið Njarðvíkur í heimsókn og Grindavík heimsækir Stjörnuna.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -